Að veðja á réttan hest

Þar sem ég er nú einn af stofnefndum hestamannafélagsins Hófs, þess merka félagsskapar, er það mér mikils virði að veðja á réttan hest og hesta. Ekki vill maður veðja á grautvíxlaða og slóttuga klára í hestamennskunni, frekar en nokkru öðru sem maður fæst við og sem engin leið er að reiða sig á.

Kaleo mynd

 

Undanfarið hef ég skrifað talsvert og fjallað um Mosfellsku hljómsveitina Kaleo og líst yfir mikilli aðdáun minni á henni og þeim félögum. Ég var aldrei í vafa um að þar væri að koma fram á sjónarsviðið, með sinni fyrstu breiðskífu, frábær hljómsveit með einstaklega góða og velheppnaða frumraun.

Ég hef verið svo lánsamur að hafa fengið tækifæri til að sjá hljómsveitina þróast og hlusta á þeirra lög áður en þau voru gefin út og ég efaðist ekki í eitt augnablik um það sem þeir voru að gera og hvatti þá til dáða. Sjálfur var ég í þeirra sporum fyrir brátt 27 árum þegar við Gildrufélagar gáfum út okkar fyrstu hljómplötu, Huldumenn.

Gildran vakti strax mikla athygli með þeirri frumraun sinni og naut mikilla vinsælda og ekki síður virðingar. Gildran komst samt sem áður ekki með tærnar þar sem Kaleo hafa hælana með sinni frumraun. Af þeirra fyrstu hljómplötu hafa nú þegar þrjú lög komist á vinsældarlista og þar af eitt náð toppsæti.

Hinnsvegar þurfa Kaleo strákarnir enn að gera betur ef þeir ætla að toppa okkur gömlu refina í Gildrunni því við gáfum út sjö breiðskífur og komum nokkrum lögum á vinsældarlista á sínum tíma og tveim lögum á toppinn. Ekki má gleyma, að við hituðum upp fyrir fjórar heimsþekktar hljómsveitir sem heimsóttu Ísland. Það voru: Uriah Heep, Nazareth, Status Qou og Jehttro Tull, það var, er og verður alltaf algerlega ógleymanlegur tími fyrir okkur félagana.  

Nú má engin halda að ég áætli að það sé einhver mælikvarði á gæði hljómsveita eða tónlistar að ná lögum á vinsældarlista, öðru nær, það er svo ótal margt annað sem vegur þyngra hjá þenkjandi tónlistarmönnum. 

Ungu rokkararnir í Kaleo hafa nógan tíma til að slá okkur Gildrufélögum við án þess að það sé nokkuð markmið hjá þeim og það veit ég vel. Þessi samanburður er meira í gamni gerður, smá Mosó fílingur og frekar til hvattningar fyrir þá að halda áfram á sömu braut. Vera samkvæmir sjálfum sér og hugsa um það eitt að semja góða tónlist og gefa út góðar hljómplötur.

Í dag fæst annar hver tónlistarmaður við það að spila tribjút þetta og tribjút hitt. Hörðustu rokkarar fara í Bee Gees gallan á föstudegi í Hörpu og eru komnir í Metalika gallan á laugardegi á Spot. Svona alvöru hljómsveitarfílingur er því miður á undanhaldi, það eru allir í öllu allstaðar.

Góðir hlutir gerast hægt. Gildran er ágætt dæmi um það. Hún ávann sér virðingar á löngum ferli, stóð og féll með sínu og var í raun að ná hæstu hæðum þegar Biggi og Sigurgeir hættu. Ný hljómplata var í burðarliðnum og Hjalti Úrsus, okkar góði vinur var búinn að vinna að heimildarmynd um hljómsveitina.

Tískustraumar líðandi stundar slógu hana aldrei út af laginu og það er aðal ástæða þess að lög hennar og ekki síður textar lifa enn í dag og standast tímans tönn þrátt fyrir að vera sumhver búin að ná fullorðinsaldri fyrir margt löngu.

Ef vinir mínir í Kaleo halda sínu striki, verða áfram alvöru hljómsveit og hugsa um það eitt, láta ekki ofurmarkaðshyggjumenn stjórna sér eiga þeir eftir að ná langt og ég segi lengra en flestar Íslenskar hljómsveitir. One night stand með gömlum eurovision stjörnum að syngja gamla rokkslagara er og verður aldrei neitt. 

Í gegnum árin skrifaði ég mikið um Gildruna hér á bloggið mitt og það sem félagar mínir í henni voru að fást við þess á milli sem hún var í sínum verkefnum. Ég samgladdist þeim innilega í öllu því sem þeir voru að fást við.

Hér að neðan má sjá nokkur skrif mín um það.

Fyrir mér var Gildran alltaf af þeirri stærðargráðu að á meðan hún var að vinna að sínum verkefnum þyrfti hún völlinn allan og fókusinn einnig. Ekkert annað átti að komast að þá stundina fyrir mína parta.

 http://ktomm.blog.is/blog/ktomm/entry/1301408/ 

 

Ég læt hér að lokum fylgja með link á eitt af sex lögum sem hljómsveitin var langt komin með þegar hún lagði upp laupana. Vonandi á heimildarmyndin sem Hjalti Úrsus var búinn að vinna að um hljómsveitina einhverntíman eftir að koma út.

Þar kennir ýmissa grasa.

http://www.youtube.com/watch?v=ILx6NUJTkmk 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband