fös. 26.2.2010
Í þá gömlu góðu
Í bæjarblaði okkar Mosfellinga, Mosfellingi, hefur um árabil verið dálkur sem kallast í þá gömlu góðu. Þar hafa verið birtar gamlar myndir og texti um liðna tíð úr bæjarfélaginu sem alltaf er jafn gaman að sjá.
Um þennan dálk í blaðinu hafa nokkrir gamlir og góðir sveitungar séð, allt frá upphafi. Nú undanfarið hefur Birgir D. Sveinsson fyrrverandi kennari og skólastjóri í Varmárskóla og stofnandi lúðrasveitarinnar haft umsjón með þessum skemmtilega og fræðandi dálki í Mosfellingi.Birgir hefur nú um nokkurt skeið fjallað um gamla Brúarlandshúsið og skólastarfið þar á árum áður og birt skemmtilegar myndir frá þeirri tíð. Birgir var kennari um árabil í Brúarlandsskóla. Myndasafn Birgis er stórt og stórmerkilegt.
Í nýjasta tbl. Mosfellings birti hann mynd sem er mér svo kunn og eftirminnileg þar sem hún hékk upp á vegg á heimili mínu allt frá því að ég man eftir mér. Myndina teiknaði Ragnar Lár, móðurbróðir minn af kennaraliðinu í Brúarlandi.
Lárus Halldórsson var skólastjóri Brúarlandsskóla frá árinu 1922 og einnig
Varmárskóla, en hann var byggður í byrjun sjöunda áratugarins. Lárus lét
af störfum 1966.
Á þeim tímamótum var ákveðið að skipta skólanum í gagnfræðaskóla, með
samstarfi við Kjalnesinga og Kjósverja, að Brúarlandi og barnaskóla í
Varmárskóla.
Myndin sýnir kennarahópinn á síðasta starfsári Lárusar
en hana gerði Ragnar Lár. sonur hans.
Texti Birgir D. Sveinsson.
Úr bæjarblaðinu Mosfellingi 26. febrúar 2010.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
fös. 26.2.2010
Heillandi og fallegt hljóðfæri
Þegar ég var að vinna hjá stóra brósa mínum, Björgvini, orgelsmið hér á árum áður, þá var eitt af mínum aðal verkefnum m.a. að gera upp gömul harmoníum.
Undir góðri leiðsögn hans náði ég ágætum tökum á verkefninu að skrúfa þetta gamla og merka hljóðfæri niður, stykki fyrir stykki og hreinsa það upp. Oftast var á endanum, aðal verkefnið að gera við belginn í hljóðfærinu. Þegar þeirri viðgerð var lokið, rétt eins og að bæta stígvél, eins og gert var í gamla daga virkaði allt fullkomlega.
Einfalt og flott og allir vegir færir.
Það var gaman að kynnast þessu fallega hljóðfæri svo náið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
mið. 24.2.2010
Frá Íslendingi
Góður vinur minn og samstarfsfélagi til margra ára sendi mér þessa grein á dögunum. Hann spurði mig hvort ég væri til í að birta hana á blogginu mínu. Það var auðsótt mál hjá honum.
Hugsjónir hans og pælingar þekki ég vel, réttsýnn og góður maður skrifar hér kröftugt bréf til forsætis - og fjármálaráðherra og hér kemur það.
Sæl Jóhanna og Steingrímur
Ég er 51 eins árs gítarleikari, viðskiptafræðingur frá HÍ og skrifstofustjóri hjá Félagi íslenskra hljómlistarmanna.
Ég skrifa ykkur því mér ofbýður hvert það samfélag sem við búum í stefnir. Ég horfði alltaf fyrirlitningaraugum á valdabrölt fjármálaaflanna í tíð fyrrverandi ríkistjórnar. Ég skildi aldrei og hef aldrei skilið hvað það var sem orsakar það að þessi öfl virðast líta svo á að þau hafi vald frá Guði til þess að höndla með sameiginlega ábyrgð og fjármuni almennings.
Allt sé leyfilegt svo fremi sem það komist ekki upp.
Nú þegar rúmt ár er frá því að ríkisstjórn ykkar tók við virðist að þið hafið leyft spillangaröflunum að hreiðra um sig að nýju að því er virðist óáreyttum. Bankastjórarnir ásamt skilanefndunum eru farnir að virka á mann eins og mafíósar í bíómynd og maður skilur einfaldlega ekki þau rök sem liggja baki því að afhenda fjárglæframönnum aftur fyrirtæki sem þeir hafa skuldsett langt umfram eignir á þeim forsendum að þeir einir geti rekið þau. Skilanefndir bankanna moka fé út úr bönkunum að því er virðist óáreittar.
Mitt fólk, hljómlistarmenn hefur eins og öll þjóðin orðið fyrir mikilli kjaraskerðingu í formi lækkaðra launa, hækkunar skatta, aukinnar skuldsetningar og lækkunar fasteignaverðs sem virðist engan endi ætla að taka. Kjarasamningar eru flestir útrunnir og ekki nokkur leið að sækja kjarabætur og hækkanir til atvinnurekenda. Rekstur stéttafélaga er erfiður því að markmið um kjarabætur eru langt úr augsýn og eina sem við getum gert er að klóra í bakkann.
Það sem mér finnst líka alvarlegt að það er búið að vega þannig að stofnunum og mátastólpum samfélagsins að það er líkt og það sé verið að tæta samfélagið í sundur. Ríkisfyrirtæki, stofnanir, bankar sem störfuðu í þágu almennings gegn sanngjörnu gjaldi hafa verið seld og verðskrár þeirra hækkaðar með það að markmiði að hámarka hagnað eigenda. Stofnanir eins og Ríkisútvarpið sem gegna mikilvægu hlutverki í menningarsamfélaginu eru illa særðar og eiga í erfiðleikum eða geta ekki staðið við gerða samninga og hafa þannig ekki möguleika á að sinna skyldum sínum. Heilbrigðisstofnanir eru í stöðugum fjársvelti og á biðstofu Slysavarðstofunnar hefur um langt skeið hangið spjald þar sem farið er fram á að þeir sem þurfa á aðstoð að halda sýni biðlund þar sem móttakan sé fáliðuð.
Ég er þeirrar skoðunar að hagstæðir Icesave samningar og hækkaðir skattar séu ekki aðalatriðið í þeim þrengingum sem við nú förum í gegnum. Það er sama hvað mikið kemur inn ef hagkerfið er hriplekt og fjármunir streyma óáreyttir inn og út um ósýnilegar spillingarhurðir.
Ég fer því fram á að þið skerið upp herör gegn spillingaröflunum sem ógna okkur öllum. Sýnið í verki að þið standið með fólkinu í landinu og upprætið þennan ófögnuð. Þið eruð í raun eina fólkið sem getur gert þetta og með aðgerðum fylkið þið þjóðinni á bak við ykkur.
Ég tel að við sem þjóð stöndum á tímamótum og verði ekki brugðist við núna geti afleiðingarnar orðið dýrkeyptar fyrir okkur.
Virðingarfyllst
Sigurgeir Sigmundsson Íslendingur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
þri. 23.2.2010
Prófkjörsslagur
Hér á myndbandinu fyrir neðan má sjá tvo miðaldra karlmenn kljást. Sennilega hafa þeir báðir verið ósáttir við niðurstöðuna.
Það verður að segjast eins og er að prófkjörin þessa dagana, virðast mörg hver, vera að enda með ósköpum.
Mannskapurinn fer fram á ákveðin sæti og allt gengur eins og í sögu dagana fyrir prófkjör. Frambjóðendur mæta skælbrosandi sem aldrei fyrr á alla viðburði og standa þétt við hlið hvors annars. Greinum rignir inn í blöðin um eigið ágæti og enda oftast á því að baráttan hafi verið málefnaleg, heiðarleg og skemmtileg.
Prófkjörsdagur rennur upp og niðurstaðan liggur fyrir. Sætið sem sóst var eftir og bjartsýni var að fá er allt í einu orðið eitthvað allt annað. Vonbrygðin leyna sér ekki og fyrr en varir er hin málefnanlega og skemmtilega barátta félaganna orðin að einhverju allt öðru. Hver höndin upp á móti annari, kosningasvik, smölun, persónuárásir. Allt tómt svindl. Ef sætið sem sóst var eftir fæst ekki er jafnvel gengið úr flokknum með stæl. Ef þessi fær sætið mitt, verð ég ekki á þessum lista og svona má lengi halda áfram.
Endirinn verður jafnvel sá að það þarf að raða öllu upp á nýtt og þá kemur sér vel að vera í klíkunni.
Já, prófkjörin geta verið góð og lýðræðisleg eða hvað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
sun. 21.2.2010
Vorkvöld í Reykjavík
Undanfarna daga hef ég sett hér inn á bloggið mitt nokkur lög með Gildrunni. Ástæða þess, er vegna fyrirhugaðra tónleika okkar félaga þann 1. maí í Mosfellsbæ til að fagna 30 ára samstarfsafmæli okkar.
Eitt af okkar vinsælustu lögum er tvímælalaust útgáfa okkar á hinu sígilda og fallega lagi Vorkvöld í Reykjavík.
Lagið hljóðrituðum við árið 1990 og það kom út á hljómplötu okkar Ljósvakaleysingjar og hér kemur það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
fös. 19.2.2010
Fiðringur
Fiðringur var eitt af þeim lögum sem við sömdum og kom út sem bónuslag á safnplötu okkar Gildran í 10 ár.
Fiðringur er eitt af mínum uppáhaldslögum með Gildrunni, lagið er eftir Bigga og texti K. Tomm.
Það er í senn einföld en mögnuð mellódía eins og Bigga er lagið.
Sigurgeir fer á kostum á gítarnum að vanda og bassaleikur Þórhalls er lævís og skuggalega magnaður.
Sjáumst 1. maí á Gildrutónleikum í Mosó.
Bloggar | Breytt 20.2.2010 kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
fös. 19.2.2010
Ég er að koma
Ég er að koma, var eitt af nýju lögunum sem fylgdi með á tvöfalda safndiski okkar, Gildran í 10 ár. Lagið sömdum við félagarnir saman og textinn er eftir mig og Þórhall. Þetta er sannkallaður karlrembuóður eins og þeir gerast bestir.
Þetta tvöfalda albúm hljómsveitarinnar seldist fljótt upp og er ófáanlegt í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
þri. 16.2.2010
Værð
Lagið Værð á sinn stað hjá okkur félögum, einlægt og fallegt. Lagið kom út á okkar annarri hljómplötu, Hugarfóstri.
Værð, var eitt af fyrstu lögunum sem Biggi samdi og við hljóðrituðum það nokkrum árum síðar.
Ógleymanlegt er þegar Þórir kom með sinn fallega texta við lagið til okkar í Rjóður, þar sem við æfðum öllum stundum. Texti Þóris féll svo vel að laginu á allan hátt, að aldrei var spurning um annað en að gefa lagið út og hafa það á Hugarfóstrinu.
Lagið höfum við m.a. spilað margsinnis, bæði við brúðkaup og jarðafarir.
Værð
Þú komst með voriðum vetrarnótt
og vaktir huga minn
í húminu
værðist vindurinn
hann himneskan
heyrði sönginn þinn
Um ástir og eilífan dans
Þú söngst í Rjóðri
um sólarlag
og fluttir sálminn þinn
í kyrrðinni
kvaddi helkuldinn
hann heilagan
kveikti neistann minn
Um ástir og eilífan dans
Þú varst með völdin
um vetrarnótt
og sýndir styrkinn þinn
á heiðinni
heyrðist hljómurinn
hann háfleygan
hreyfði drauminn minn
Um ástir og eilífan dans.
Bloggar | Breytt 17.2.2010 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
sun. 14.2.2010
Meyjan hrein
Gildran og Jethro tull eftir frábæra tónleika í höllinni á Akranesi.
Nú stendur yfir sem hæst undirbúningur okkar Gildrufélaga, vegna fyrirhugaðra tónleika í tilefni af 30 ára samstarfi okkar sem haldnir verða í Mosfellsbæ þann 1. maí.
Eins og ég skrifaði um hér á síðu minni fyrir skömmu síðan, munum við taka öll okkar gömlu lög. Eitt þeirra verður vissulega það lag sem kom okkur á kortið eins og sagt er. það er lagið Mærin.
Mærin kom út á okkar fyrstu hljómplötu, (Huldumenn) Lagið sló í gegn og hefur verið eitt af okkar vörumerkjum alla tíð síðan. Á bakvið lagið er skemmtileg saga.
Þannig er, að þegar við vorum í Stúdíó Stemmu með Didda fiðlu og Gunnari Smára, upptökumönnum okkar, kíkti Pétur, vinur okkar Kristjáns í stúdíóið til að hlýða á plötuna. Pétur heitinn, var þekktur fyrir næmni sína á það, hvaða lög næðu í gegn hjá landanum og væru líkleg til vinsælda, enda stofnaði hann vart hljómsveit öðruvísi en að hún slægi í gegn á landsvísu.
Við félagarnir vorum búnir að raða plötunni upp og öll lög búinn að fá sinn stað á vínylnum þegar Pétur mætti í stúdíóið. Eftir að hann var búinn að hlusta á plötuna sagði hann við okkur " Strákar mínir" þið veðjið á kolrangt lag sem upphafslag plötunnar. Þið eigið að láta Mærina vera lag númer eitt. Það er Mærin sem á eftir að slá í gegn og vekja á ykkur athygli.
Viti menn. Eins og venjulega, hafði hann rétt fyrir sér. Lagið okkar gamla góða, Mærin hefur alltaf virkað og það sem meira er, elst vel.
Oftar en ekki þegar við vorum beðnir um að spila Mærina var alltaf sagt við okkur, spilið meyjan hrein en á þeim orðum hefst textinn í laginu.
Sú hreina mey sem við fjöllum um í laginu virðist af mörgum hafa verið misskilin hjá okkur.
Það var ekki sú sama og Madonna söng um á sínum tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
fim. 11.2.2010
Sveitastjórnarráðstefna VG í Mosó
Í gærkvöldi, miðvikudag, voru þingmennirnir, Ögmundur Jónasson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir með líflegan fund í Hlégarði hér í Mosfellsbæ. Þau fóru vítt og breytt yfir stöðu landsmála og eftir ávörp þeirra var opnað fyrir umræðu og fundargestum gafst kostur á að spyrja þau um allt sem þeim lá á hjarta. Umræðan var lífleg og fróðleg.
Þann 9. mars næstkomandi verður sérstakur gestur á opnum fundi Vinstri grænna í Mosfellsbæ, Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra. Fundurinn verður í Hlégarði kl. 20:00. Fundurinn verður auglýstur nánar síðar.
Sveitastjórnarráðstefna Vinstri grænna verður haldin í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ nú um helgina og hefst á föstudaginn klukkan 17:00.
Dagskráin verður blanda af fyrirlestrum og hópavinnu og lýkur klukkan 15:00 laugardaginn 13. febrúar.
Allir félagar eru velkomnir en nauðsynlegt er að skrá sig til leiks hjá Hermanni Valssyni, hermann.valsson@reykjavik.is.
Dagskrá ráðstefnunnar er svohljóðandi:
Föstudagur 12. febrúar 2010
16.45 Mæting í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ
17.00 Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar í Mosfelssbæ
17:15 Erindi um sveitastjórnarmál:
Karl Björnsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga: Fjármál sveitarfélaga
Sigurður Tómas Björgvinsson verkefnistjóri um sameiningu sveitarfélaga: Sameining sveitarfélaga
Drífa Snædal framkvæmdastýra VG: Hugsjónir eru ekki nóg - um allt hitt sem þarf að vera til staðar
Katrín Jakobsdóttir Mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður VG: Kortér í kosningar
Umræður
19.00 Sameiginlegur kvöldverður
20.00 Hópavinna:
Sameining sveitarfélaga
Sameiginlegar áherslur í komandi kosningum
Stuðningur við framboð VG á nýjum stöðum
Fjármál sveitarfélaga
22.00 Fundi frestað til morguns
Laugardagur 13. febrúar 2010
10.00 Hópavinna heldur áfram
12.00 Sameiginlegur hádegisverður
13.00 Niðurstaða hópa kynnt
15.00 Fundi slitið
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)