Færsluflokkur: Bloggar

Samstarf í 30 ár

Biggi og Kalli

Á þessu ári, eru liðin 30 ár frá því að við Biggi og Þórhallur hófum samstarf. Fyrsta hljómsveitin okkar hét, Sextett Bigga Haralds og þá kom Pass og þar á eftir Gildran. Síðar stofnuðum við Biggi Dúett, sem við kölluðum, Sextíuogsex.

Í vikunni sem nú er að líða var ég ásamt Bigga og Þóri Kristinssyni, textahöfundi Gildrunnar til margra ára, að leggja lokahönd á fyrstu sólóplötu Bigga. Sólóplötu sem hann og Þórir hafa nú á annað ár verið að vinna að. Platan er einstaklega hlý og falleg.

null

Gildran. Biggi, Þórhallur, Kalli og Sigurgeir.

Huldumenn framan 100dpi

Hugarfóstur

Draumur okkar Gildrufélaga er að koma saman í tilefni af 30 ára afmælinu og jafnvel endurútgefa okkar fyrstu tvær plötur saman á tvöfaldan cd. Fyrsta plata okkar, Huldumenn, var einungis gefin út á vínil. Hugarfóstur var einnig gefin út á cd. Plöturnar eru báðar ófáanlegar.

Árið 2009, verður Bigga og Gildrunnar.

Birgir Haraldsson er einn magnaðasti rokksöngvari okkar Íslendinga fyrr og síðar, hann er einnig, einn mesti ljúflingur sem ég hef nokkru sinni kynnst.

 


Farfuglarnir

Lundar

Ég heyrði skemmtilegt viðtal við fuglafræðinginn, Jóhann Óla, á rás 1 í morgun. Hann sagði m.a annars í viðtalinu, hafa heyrt af því að sést hafi til Lóu á Álftarnesi 28. febrúar s.l. sem væri, um mánuði fyrr en vanalegt teldist. Hann sagði að hugsanlega væri þar um vetursetu fugl að ræða.

Mesta athygli mína í viðtalinu vakti umræða hans um þær tugþúsundir manna sem væru farnir að heimsækja Ísland á ári hverju til þess eins að skoða fugla og mynda þá. Jóhann Óli sagði góð fuglaskoðunarhús vera mesta aðdráttarafl fyrir fuglaskoðara, því þá kæmust þeir mun nær fuglunum en vanalega, bæði til að skoða þá og mynda.

Hér á landi hefur aðeins verið komið upp örfáum fuglaskoðunarhúsum og er til að mynda ekkert slíkt við Mývatn sem er einstakt svæði á heimsvísu hvað varðar fuglalíf.

Við Mosfellingar reystum í haust fuglaskoðunarhús við Leiruvoginn sem er einnig einstakur hvað varðar líflegt fuglalíf og verður spennandi að nýta sér það og sjá þar blómlegt fuglalífið í eins mikilli nálægð og kostur er á.

Ljósmyndina hér að ofan tók Jóhann Óli. Myndina sáum við hjónin á sýningu hans fyrir nokkrum árum og kolféllum fyrir. 


Allt getur verið brothætt


Fyrir Óla tengdó


Fyrir Ragnar


Með þökk fyrir samfylgdina

Ragnar ÓlafssonÓlafur Kristján VilhjálmssonÞann 1. mars sl. lést elskulegur mágur minn, Ragnar Ólafsson, í bílslysi og tengdafaðir minn, Ólafur Vilhjálmsson aðeins tveimur dögum síðar þann 4. mars. 

Mikið var gott og lærdómsríkt að kynnast þeim feðgum.

Blessuð sé minning þeirra.

 

Þegar ég kom í fyrsta skipti á heimili fjölskyldunnar að Stórateigi 27, fyrir tæplega tuttugu og fimm árum síðan, fann ég strax notalega strauma.

Fjölskyldan hennar Línu minnar var lítil; mamma, pabbi og Ragnar bróðir. Allt við fjölskylduna og heimilið heillaði mig frá fyrstu tíð. Glaðhlakkaleg tengdamamma, stóísk ró tengdapabba og notalegt viðmót Ragnars.

Allt voru þetta mannkostir sem ég átti eftir að kynnast miklu betur og nánar eftir því sem árin liðu.  Tengdapabbi átti nánast, hvern nagla og hverja skrúfu á sínu gamla heimili í Mosfellsbæ. Allt var gert á þeim hraða sem hentaði og eftir því sem efni leifðu. Í öllum hlutum, innan dyra sem utan, var sál.

Snúrustaurarnir sem Óli smíðaði úr járni og settir voru út í garð voru hannaðir eins og fallegt tré. Þeir prýða gamla garðinn enn í dag. Útibekkirnir og borðin voru listasmíð, útiljósin sem enn prýða götuna, eru engu lík. Jólaskrautið sem Óli hófst handa við að útbúa og hanna mörgum mánuðum fyrir hver jól og var sjaldnast eins, ár frá ári, gladdi vafalítið alla nágranna og þá sem sáu. Natni og metnaður var lagt í allt sem hann tók sér fyrir hendur.

Hæfileikar tengdapabba við meðhöndlun á tré og járni voru miklir. Einnig virtist honum alltaf takast að koma gömlum tækjum og tólum til að verða að gagni að nýju.

Eitt áttum við Óli tengdó sannarlega sameiginlegt, það var áhugi okkar á tónlist. Óendanlegur áhugi okkar á tónlistinni sendi sálir okkar oft saman í heilmikil ferðalög. Óli tengdó kenndi mér að hlusta á óperutónlist og fallegar aríur. Í dag nýt ég fárra hluta betur. Fyrir aðeins fáeinum vikum síðan áttum við saman einstaklega notalega kvöldstund og hlýddum á fjöldann allan af fallegum óperuaríum.

Af Óla, tengdaföður mínum, var margt hægt að læra. Með sinni hægversku ró miðlaði hann fallega af öllu því sem hann átti til allra þeirra sem honum kynntust. Eftir því sem árin og þroskinn hafa yfir mig færst, verð ég meðvitaðri um hversu fallegur, góður og réttsýnn maður hann var. Það var eins og Óli þyrfti aldrei að mæla orð af munni til að fanga athygli og virðingu allra þeirra sem honum kynntust. Það sá ég og áttaði mig á alla tíð og ekki síst nú undir lokin, í hans erfiðu veikindum, þegar hann var hættur að geta tjáð sig. Hann vann hug og hjörtu allra sem honum kynntust.

Mikið er um það rætt í dag að nú sé tími breyttra gilda. Óli tengdapabbi þurfti aldrei að breyta neinum gildum. Hann vissi alltaf hvað stóð sér næst og hvað það var sem skipti öllu máli. Hann var alltaf sáttur við sitt og sína. Samband hans við börn sín og eiginkonu og síðar barnabörnin tvö, Óla og Birnu var fallegt, sérlega fallegt. Tengdaföður minn, Ólaf Kristján Vilhjálmsson, kveð ég með miklum söknuði. Samband okkar var alla tíð einstaklega náið og gott, á það bar aldrei skugga.

Um leið og ég kveð tengdaföður minn hinstu kveðju get ég ekki látið hjá líða að minnast á einstaka ástúð og umhyggju tengdamóður minnar, Millýjar Birnu, til eiginmanns síns, allt til hins síðasta dags. Það var aðdáunarvert að upplifa. Blessuð sé minning Ólafs Vilhjálmssonar. 

Karl Tómasson.

 

Ragnar Ólafsson, mágur minn, lést í bílslysi sunnudaginn 1. mars.  Ragnar var engum líkur. Líf hans og lífsganga einkenndist aldrei af göngu um troðnar slóðir. Slík ganga getur oft verið torfær fyrir þá sem hana fara, um leið og hún getur einnig opnað nýjar víddir slíkum göngugörpum og einnig þeim sem fá tækifæri til að njóta samvista við og kynnast slíkum mönnum. 

Ragnar mágur, var í blóma lífs síns þegar kallið kom. Þrek hans, kraftur og dugnaður hin síðustu ár til að öðlast betra líf hafði skilað honum góðum árangri. Fjallmyndarlegur, stæltur og í betra jafnvægi hafði Ragnar ekki verið í mörg ár. Hann var einstakt ljúfmenni, bráðvel gefinn, víðlesinn, tilfinninganæmur og skemmtilegur.

Við hann var hægt að ræða um allt á milli himins og jarðar, allt virtist hann vita. Með fáum mönnum gat ég hlegið jafn mikið og innilega.  

Við Ragnar áttum einstakt samstarf við upptökur og gerð fjögurra breiðskífa með hljómsveit minni. Á þær samdi Ragnar texta sem höfðu margir djúpstæða merkingu og segja svo margt um hans fallega og einstaka hjartalag. 

Þær eru margar ógleymanlegar stundirnar sem við áttum saman, ég og mín fjölskylda með Ragnari. Samband hans og Línu minnar, systur hans, var engu líkt, algerlega tilgerðarlaust og afslappað. 

Söknuður okkar allra er mikill og hefur söknuður frændsystkina hans, barna okkar Línu, Óla og Birnu, verið sérlega mikill og sár. Ragnar frændi var þeim allt. Sannur vinur, frændi og félagi. Hann gaf þeim allan sinn tíma og alla sína sál, allt frá barnæsku þeirra til hinsta dags.

Minningin fallega um Ragnar frænda á eftir að fylgja þeim og okkur öllum sem kynntumst Ragnari um ókomna tíð. Blessuð sé minning Ragnars Ólafssonar. 

Karl Tómasson.         

 


Magnaður trommuleikur

Trommuleikur Ringo Star er óborganlegur í þessu lagi, eins og svo mörgum öðrum. Einfaldleikinn alsráðandi enn samt svo afgerandi sláttur sem lyftir laginu í einhverjar óútskýranlegar hæðir.

 


Í kvöld

Ég var beðinn um að koma þessu á framfæri hér á síðunni minni og geri ég það með glöðu geði.

Mosfellingur og Áslákur efna til styrktarkvölds föstudaginn 27. febrúar þegar nýr og breyttu Áslákur verður opnaður. Safnað er fyrir Rebekku Allwood sem var í viðtali í Mosfellingi fyrir nokkru. Hún lenti í hræðilegu slysi á Vesturlandsvegi fyrir sex árum. Rebekka er í dag fjölfötluð með ósjálfráðar hreyfingar og verður það líklega ævistarf hennar að vinna úr afleiðingum þessa slyss. Safnað er fyrir æfingahjóli, sem kostar um 800.000 kr., fyrir áframhaldandi endurhæfingu Rebekku.

Allir listamenn sem fram koma gefa vinnu sína og söfnunarbaukar verða á staðnum. Allur ágóði af veitingum á bar fer í styrktarsjóðinn auk þess sem tekið er við frjálsum framlögum.

Frábær tónlistardagskrá sem hefst kl. 20 og stendur fram á nótt. Kynnir er Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar.

Meðal flytjenda eru: Karlakór Kjalnesinga, Diddú, Jónas Þórir, Dúettinn Hljómur, Reynir Sig, Hreindís Ylva o.fl.

Bæjarrónafélag Mosfellsbæjar verður á staðnum og ýmsir kunnulegir Mosfellingar afgreiða á barnum.

Styrktarkvöld


Ég skora á alla að taka þátt

Kjarni mið

Eins og fram kemur á vef Mosfellsbæjar, mos.is hefur nú verið opnuð skipulagsgátt. þar sem íbúum og öðrum áhugasömum gefst kostur á að senda inn athugasemdir, tillögur og hugmyndir tengdar endurskoðun aðalskipulagsins. 

Bæjaryfirvöld hafa lagt og leggja mikla áherslu á aðkomu og virkt samráð við bæjarbúa við endurskoðun aðalskipulagsins.

Nánar er hægt að lesa um þetta á mos.is. Ég hvet sem flesta til að taka þátt.

Þær hugmyndir sem kynntar hafa verið varðandi hið nýja miðbæjarskipulag virðast leggjast afar vel í bæjarbúa og hef ég fengið mörg jákvæð og skemmtileg viðbrögð frá bæjarbúum vegna þeirra. 


Grímubúningarnir geta verið skemmtilegir

ÖskudagurinnVið, gamla settið fórum um daginn í flotta matarveislu með góðum kunningjum. Þar mættu allir í grímubúningum. Það var mikið hlegið og kvöldið var sérlega skemmtilegt.

Í morgun var Birna vitanlega mjög spennt fyrir deginum. Sjálfum öskudeginum. Það tók drjúgan tíma að undirbúa Kínaprinsessuna. Dagurinn var góður og skemmtilegur.

Ég held að við fullorðna fólkið mættum oftar taka börnin okkar til fyrirmyndar. Það er að vera við sjálf öllu jafna og skella okkur við góð tækifæri í grímubúninginn og eiga glaðan dag.

Það er leiðigjarnt að vera í grímubúning allt árið um kring.

Rétt í þessu voru mér að berast myndir frá Íbí vinkonu minni frá okkar ellismella grímuballi.

Ég má til með að skella þeim hér inn.

Gríma 1

Gríma 2

Gríma 3

Gríma 4

Gríma 5

Gríma 6

Gríma 7

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband