Tók sjensinn á sprellanum

Allflestir tónlistarmenn hafa frá skemmtilegum sögum að segja.

Ferðalög um landið okkar þvert og endilangt, allan ársins hring, á öllum tímum sólarhringsins og tónleikahald á ólíklegustu stöðum hafa oft orðið að ævintýrum og uppákomum sem seint gleymast.

Ég hef allnokkru sinnum verið beðinn um að segja frá þeim ævintýrum sem við Gildrufélagar lentum í á löngum ferli okkar og skorast ég ekki undan því, svona öðru hvoru að minnsta kosti.

Eflaust kann einhverjum að þykja sögurnar ekki sæmandi en það verður þá bara að hafa það. Ég ætla nú samt að fara varlega í sakirnar. 

Nú koma tvær.

Einu sinni vorum við félagarnir að spila á hörku balli um verslunarmannahelgi og eins og gengur og gerist vill oft teygjast úr slíkum böllum.

Að  balli loknu fórum við félagarnir upp á herbergi og fengum okkur smá hressingu fyrir svefninn. Við vorum á hótelherbergi sem var ekki með sturtu heldur var hún í hinum enda gangsins. Það var töluverður spölur út ganginn til að komast í þá aðstöðu.

Einn okkar sagðist endilega vilja komast í sturtu fyrir svefninn og við sögðum honum endilega að gera það, enda sveittur og ómögulegur að loknu góðu balli. Hann sagðist ekki vera með handklæði og bað okkur um að lána sér eitt slíkt þar sem hann stóð orðið hálfnakinn fyrir framan okkur á hótelherberginu. Við sögðum við félagann að fara bara úr hverri spjör og spretta bara úr spori út ganginn, það væri allt seif á þessum tíma sólarhrings.

Hann lét til leiðast og spretti úr spori með sprellann dinglandi í allar áttir. Þegar vinurinn var kominn rúmlega hálfa leið kom miðaldra kona úr einu herbergjanna og stóðu þau saman frosin í dágóða stund. Viti menn haldið þið ekki að frúin hafi tekið upp á því að öskra á ganginum eins og ljón. Í kjölfarið opnuðust einar og einar dyr með reglulegu millibili á meðan okkar maður kom sér til baka.

Hann sleppti sturtunni þennan morguninn og lét lítið fyrir sér fara morguninn eftir.

Hin sagan gerðist fyrir vestan.

Okkur félögunum var boðið að fara í skoðunarferð að gömlum skreiðarhjalli undir leiðsögn heimamanns og mikils sérfræðings í harðfisksverkun. Þegar við renndum í hlað og stóðum fyrir utan hjallinn kom rúta full af bandarískum ofurkurteisum túristum. Sennilega eldri borgarar.

Við félagarnir ákváðum að gera smá tilraun með það hvort okkur tækist að láta hvern einasta túrista þurrka af skónum áður en hann færi í skreiðarhjallinn sem að sjálfsögðu var bara með malargólfi.

Það varð úr að hljóðmaðurinn fékk það verkefni að fara fyrstur í röðina og hann átti að ofurþurrka þannig af skónum að það færi ekki fram hjá nokkrum manni. Hann klikkaði ekki á því og gerði það þannig að mikill sómi var af. Þarna átti enginn að fara inn á skítugum skónum. 

Það var eins og við manninn mælt, hver einasti túristi stóð á mölinni fyrir framan hjallinn og þurrkaði nánast sólann undan skónum.

Aumingja leiðsögumaðurinn reyndi ítrekað að fá fólkið til að átta sig á því að þess væri ekki þörf án nokkurs árangurs.

Nóg að sinni.

Kær kveðja frá Kalla Tomm. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

he he..góðar sögur Kalli

Herdís Sigurjónsdóttir, 6.6.2007 kl. 21:56

2 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

hehehe mikið er þetta skemmtilegra en Varmársamtökin

Haltu þessu áfram.

Rúnar Birgir Gíslason, 7.6.2007 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband