Varmársamtökin í ham, nei, getur það verið?

Allt frá því að nýr meirihluti bæjarstjórnar var myndaður í Mosfellsbæ í júní 2006 hafa Varmársamtökin haldið uppi linnulausri gagnrýni á vinnubrögð hans. Hamrað á ólýðræðislegum vinnubrögðum og yfirgangi af öllum toga. Varmársamtökin hafa einnig sagt að bæjaryfirvöld láti hagsmuni verktaka ganga fram yfir hagsmuni íbúa, talað um þumbarahátt, þvergirðing, tortryggni og ókurteysi. 

Sérstaklega hefur þeim þó ávallt verið mikið í mun að gagnrýna mig persónulega og nánast láta líta út fyrir að á öllum þessum „hörmungum“ eigi ég einn sök. Því hefur til að mynda margoft verið haldið fram að ég hafi keypt forsetastólinn þrátt fyrir að öllum sé kunnugt um að svo sé ekki. Vinstri græn í Mosfellsbæ urðu þess ekki valdandi að samkomulag náðist ekki um myndun nýrrar bæjarstjórnar. Það var karp Marteins Magnússonar, oddvita framsóknarmanna og Jónasar Sigurðssonar, oddvita Samfylkingarinnar um hvor þeirra ætti að gegna embætti bæjarstjóra sem olli því. Upp úr því sleit Marteinn viðræðum flokkanna.

Þrátt fyrir það hef ég margsinnis fengi skilaboð bæði í tölvu mína og síma undir hinum ýmsu nöfnum og leyninúmerum að ég sé svikari, Júdas, drullusokkur, sé best geymdur í Byrginu hjá Guðmundi, eigi að drulla mér úr Mosfellsbæ og svo framvegis og svo framvegis. Slíkum símtölum hefur m.a. 16 ára sonur minn þurft að svara.

Í marga mánuði sá ég ekki ástæðu til að svara þessum ásökunum og reyndi að leiða þær framhjá mér. Þegar ég svo fór að tjá mig um málið og mínir vinir, virðist sem Varmársamtökin hafi ekki með nokkru móti þolað það að fá á sig gagnrýni. Auðvitað er ekkert óeðlilegt við það að stjórnarmenn og aðrir félagar í Varmársamtökunum hafi pólitískar skoðanir og séu sumir hverjir jafnvel flokksbundnir. Það er nú annað hvort. Á meðan stjórnarmenn Varmársamtakanna tjá sig hins vegar fyrir hönd þeirra á opinberum vettvangi og tala máli tveggja flokka og nota hvert tækifæri til að gera lítið úr störfum meirihluta bæjarstjórnar og þá aðallega Vinstri grænna þá eru samtökin pólitísk.

Hér er eitt dæmi frá Gunnlaugi B.

„Samfylkingin hefur undirbúið vel skilgrindar leiðir sem henta til úrlausnar á viðfangsefnum íslenskra stjórnmála vorið 2007. Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir telja sig handhafar hins endanlega sannleika og eru tregir til að leyfa opna málefnalega umræðu um marga málaflokka. Tónar það ekki vel við það sem er að gerast í meirihlutasamstarfinu hér í Mosfellsbæ varðandi aðkomu almennings að ákvörðunum í skipulagsmálum?“

Bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar hafa gert allt til að koma á móts við kröfur Varmársamtakanna og lagt í það meiri vinnu en dæmi eru um. Því er það rangt að halda því fram að aldrei sé á þau hlustað. Það vita allir starfsmenn á bæjarskrifstofum Mosfellsbæjar að öllum erindum samtakanna er svarað um hæl og eru þau nú allnokkur. 

Einn aðaltalsmaður Varmársamtakanna sagði nýlega: 

„Það hvaða leið mér eða þér eða Röggu ríku eða Helgafellsbyggingum finnst best kemur málinu ekki við fyrr en faglegt mat hefur verið gert af hlutlausum aðila, slíka ákvörðun á ekki að taka á einhverjum tifinningalegum nótum né eftir þörfum landeigenda og verktaka“

Í þessum málflutningi felst slíkur hroki og dónaskapur að engu tali tekur. Bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar geta ekki einungis gætt hags Varmársamtakanna,  þau þurfa að gæta hags allra bæjarbúa. 

Nú er svo komið að Varmársamtökin sjá orðið til þess ástæðu að reyna að koma höggi á Hilmar Gunnarsson og Mosfelling. Samtökin segja sig hafa rakið ip-tölur frá heimili hans og aðseturs Mosfellings. Vert er að benda á að á skrifstofu Mosfellings er oft unnið allan sólarhringinn og eins og Hjördís Kvaran segir á bloggi sínu og fullyrðir hefur Hilmar Gunnarsson ekkert með Halldór eða aðra kynlega kvisti að gera sem þaðan skrifa.

Bæjarblaðið Mosfellingur hefur verið starfrækt í Mosfellsbæ í 7 ár. Blaðið hefur alla tíð notið fádæma vinsælda og er með vönduðustu bæjarblöðum sem koma út á landinu. Blaðið hefur frá fyrstu tíð flutt vandaðar og óháðar fréttir úr sveitarfélaginu og hefur aldrei borið skugga á. Hilmar tók fyrir rúmu ári síðan við ritstjórn blaðsins og er ég manna kunnugastur um hversu mikinn metnað hann leggur í það.

Ég er eigandi og stofnandi Mosfellings en kem ekki að vinnslu blaðsins á nokkurn hátt og hef ekki gert frá því Hilmar tók við. Oftar en ekki sé ég ekki blaðið fyrr en á sama tíma og aðrir bæjarbúar. Efnistök blaðsins eru mér að öllu ókunn fram að þeim tíma.

Nú rennur óneitanlega á mig sá grunur að næsta markmið Varmársamtakanna sé að koma höggi á fyrirtækið mitt. Geti Varmársamtökin bent mér á eina frétt úr Mosfellingi þar sem ekki er gætt hlutleysis þá verð ég hissa.

Hilmar Gunnarsson þekki ég betur en svo að hann hafi á því áhuga að skrifa eitthvað undir leyninöfnum. Hann er fádæma vandaður og yfirvegaður maður sem að leggur mikinn metnað í allt sem hann tekur sér fyrir hendur.

Í Mosfellingi hafa Varmársamtökin fengið að koma fram öllu því sem þau hafa sóst eftir enda sagði Gunnlaugur B. Varaformaður samtakanna nýlega orðrétt:  

„Ég er ánægður með Mosfelling og hef ekkert undan blaðinu að kvarta. Finnst Hilmar hafa gert umfjöllun um tengibraut mjög góð skil. Fullur þakklætis og kærleika gagnvart blaðinu og öllum starfsmönnum þess, fyrr og síðar.“

Að lokum, nú sáu Varmársamtökin ástæðu til að birta bloggfærslur sem skrifaðar hafa verið undir hinum ýmsu nöfnum. Þar er þeim mikið í mun að reyna að tengja mig persónulega öllum þeim færslum vegna vináttu minnar við viðkomandi aðila. Varmársamtökunum hefur aldrei borist ein einasta athugasemd úr minni tölvu. Færslurnar sem samtökin tala um fóru ekki á þeirra síðu og umræddar færslur voru ekki á nokkurn hátt meiðandi eða dónalegar. Ég hef þegar gert kunnugt um færslur sonar míns og sé ekki ástæðu til að fara nánar út í það. Á mínu heimili eru þrjár tölvur og að þeim hafa aðgang fleiri en ég. 

Hvað gerist í tölvum vina minna eða út í bæ kemur mér ekkert við. Ég á sem betur fer marga vini og satt að segja kemur mér ekkert á óvart að þeir hafi reynt að taka upp hanskann fyrir mig og skrifað undir hinum ýmsu nöfnum. Mörgum af mínum nánustu var fullboðið sú framkoma sem ég hef þurft að sæta og jafnvel miklu fyrr en mér.

Aðaltalsmenn Varmársamtakanna hafa ítrekað gert sama hlut, skrifað undir hinum ýmsu nöfnum en  reyna nú að hvítþvo samtökin með því að segja að það hafi bara verið grín. 

Virðingarfyllst Karl Tómasson.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég spyr mig sem vinstri grænn og yfirhöfuð sem kjósandi,

í fyrsta lagi ! Taktu eftir!

1.  Mundir þú rita þetta ef þú værir í stjórnarandstöðu?

2.  Og ef svo væri, mælir þú með bandalagi VG og S?

3. Skv. þínum dómi, á ekki að viðra Varmársamtökin eða önnur samtök af svipuðum toga viðlits? (nema þau séu blá?)

4. Er ekki bara rosalega gaman að vera í meirihluta?

Come on, það getur ekki verið gaman að vera alltaf í minnihluta! Svo endilega klíndu þig við íhaldið!!! 

 ? hvort maður kýs yfir höfuð, jú það má alltaf skila auðu.

Kveðja, Gerður Sigfúsdóttir, fyrrverandi vg?

Gerður Sigfúsdóttir (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 02:26

2 identicon

Kæri Karl.

Nú hef ég heyrt að það sé mjög eldfimt samstarf Vinstri-Grænna og Sjálfstæðisflokksins og einhvern tímann heyrði ég að því að meðlimir í Sjálfstæðisflokknum væru að tala þig niður. Ef til þess kemur að samstarf Vinstri-Grænna og Sjálfstæðisflokksins slitni gæti Vinstri Græn myndað samstarf með Samfylkingu og Framsókn og þú gætir verið bæjarstjóri eða að þú, fulltrúi Samfylkingar og fulltrúi Framsóknar gætu skipts á um að vera bæjarstjórar.

Bestu kveðjur

Jón Þórarinsson

Jón Þórarinsson (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 06:44

3 Smámynd: Páll Einarsson

Sæl Hjördís,

Ég þekki ekki þetta mál til hlýtar. Gæti ekki verið að þessi gerður sé stödd á landinu? þú gerir þér líklegas grein fyrir því að internetið er til á fleiri stöðum en á Íslandi og að fólk sem býr erlendis fylgist oft með því hvað er að gerast á klakanum. Einnig getur fólk kosið´.

Ég held að núna sjái maður algjörlega hvernig netlögga vinstri grænna mundi vinna. fólk leitað uppi á þjóðskrá og borið á það sakir. Það má vel vera að þetta sé ekki þessi títt rædda gerður en ósköp finnst mér dapur að lesa kommentið þitt. Ættir nú frekar að svara henni málefnalega en svona verða vinnubrögðin hjá netlögguni.

kveðja,

Páll Einarsson, 2.5.2007 kl. 15:31

4 Smámynd: Páll Einarsson

Sæl og takk fyrir að svara mér.

Mér er alls ekki illa við vinstri græna á marga ágætis vini í þeim flokki. Ég er bara ekki sammála þeim varðandi netlögguna og aðra hluti sem snúast að aukinni foræðishyggju. Ætlaði ekki að æsa þig svona upp þar sem ég vissi ekkert í hvaða flokki þú stendur og tækir það of nærri þér að ég spurði hvort að svona liti netlöggan út. Þar sem formaður VG hefur það í hyggju að koma netlöggu á. 

Vandinn við blogg kerfið er það að alls konar vitleysingar geta kommentað og rifið kjaft og þeir sem leifa komment á sinni síðu eiga á þá hættu að lenda í því. Ég sjálfur hef tekið út komment og íhugaði að banna þau en gef mér í staðinn þess val að sigt út það sem ég tel æskilegt. Áróður, klám, slúður og lygar hendi ég strax út.

þetta er greinilega tilfinningarmál. Ekkert annað. Ég mundi segja að ég styðji hugsjónir varmársamtakana en ekki endilega baráttu aðferðir þeirra. En mér finnst meirihluti Mosfellsbæjar (vg og D) hafa komið sér mjög svo illa frá þessu máli og er það þeim til skammar. Alveg eins og barátta sumra í varmársamtökunum sé þeim til skammar.

kveðja,

Páll Einarsson, 2.5.2007 kl. 17:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband