Varmársamtökin, umhverfisvernd?

Eftir frábæra sumarbústaðarferð fjölskyldunnar í vikunni sem nú er liðin kennir ýmissa grasa í tölvunni. Tölvupósti hefur rignt og nokkrar athugasemdir á blogginu mínu sem alltaf er jafn spennandi að skoða. Það er þó tvennt sem vakti hjá mér slíka athygli að ég tel rétt að setja nokkur orð um það á bloggið mitt. Fyrst ber að telja ótrúlega athugasemd og hótun Gunnlaugs B. Ólafssonar varaformanns Varmársamtakanna og hitt var óundirrituð frétt ef frétt skal kalla á heimasíðu Framsóknar í Mosfellsbæ. Reyndar er nú fátt sem kemur manni orðið á óvart á þeirri síðu því oftar en ekki er fréttafluttningurinn allt að því sorglegur á þeim bænum.

Fyrir nokkrum vikum síðan voru skrifaðar athugasemdir á bloggsíðu mætrar konu hér í bæjarfélaginu (ekki á heimasíðu Varmársamtakanna eins og fram kom í frétt DV). Athugasemdirnar voru harðorðar og ljótar. Varmársamtökin komust að því að þessar athugasemdir komu úr minni tölvu. Í kjölfarið hafði Gunnlaugur B. Ólafsson, varaformaður Varmársamtakanna, samband við mig og vildi fá skýringar á skrifunum. Ég gekk strax í málið og í ljós kom að 16 ára sonur minn hafði gert þetta og gekkst hann strax við því. Ég hringdi rakleiðis í Gunnlaug og baðst á þessu afsökunar fyrir hönd sonar míns.Samt sáu Varmársamtökin ástæðu til þess að hafa samband við DV og gera úr þessu mál. Af hverju er mér algjörlega óskiljanlegt og í raun undirstrikaði það fyrir mér þá heift sem samtökin hafa beitt undanfarið.

Nú tæpri viku síðar skrifar Gunnlaugur B. athugasemd á bloggsíðu mína sem ekki er með nokkru móti hægt að túlka öðru vísi en svo að eitthvað meira grugg sé að finna úr minni tölvu og annarra. Hann talar um að viðkomandi aðilar þurfi að axla ábyrgð. Þá spyr ég á móti, á hvaða skrifum þarf ég til að mynda að axla ábyrgð sem ekki hefur þegar verið greint frá og gerð grein fyrir? Framsóknarfréttir sáu svo ástæðu til að reyna að koma sama grugginu í loftið án þess að hafa nokkuð í höndunum annað en bitlaust vopn til að reyna að gera einhvern tortryggilegan.

Athygli vekur að einn aðaltalsmaður Varmársamtakanna hefur þegar gengist við því að hafa skrifað fjölda athugasemda á bloggsíður undir hinum ýmsu nöfnum undanfarnar vikur og mánuði.

Karl Tómasson.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: HP Foss

Það er greinilegt að Gunnlaugur B Ólafsson og hans fólk ætlar ekki að beygja sig fyrir áætluðum framkvæmdum lýðræðislegrar kosinnar Bæjarstjórnar er varðar tengibrautina við Kvosina. Hann ætlar að berjast til síðasta mans svo hans vilji verði ofaná ,vilji hans og samtaka hans. Þar skiptir engu hvað öðrum finnst. Það er nú allt hans lýðræði. Það er með ólíkindum að sjá hann snúa útúr skýringum Kalla á meintum athugasemdum úr tölvu hans.  Eins er það með ólíkindum, ef rétt er , að Varmársamtökin hafi farið  með þetta í DV, segir þó sitt að þetta blað hafi orðir fyrir valinu, blað sem er nú ekki þekkt fyrir að fara alltaf með heilagan sannleika. Mér þótti það nú hitta þá sjálfa fyrir, eins og reyndar þessi ótrúlega þráhyggja Gunnlaugs í þessu máli, þar sem hann reynir að gera Kalla ótrúverðugan. Hann veit sennilega ekki að þar er hann að veðja á rangan hest, að ráðast á Kalla, mann sem Mosfellingar þekkja að góðu einu. Ég þekki Kalla vel, hann er einn að þeim heiðarlegustu mönnum sem ég hef kynnst hér fyrir “sunnan” Ég sá hvaðan hann Kalli hefur það þegar ég hitti föður hans. Mann sem allir Mosfellingar þekktu og allir höfðu miklar mætur á. Menn njóta foreldranna í þessum málum sem öðrum, Kalli gerir það, vegna þess að hann er líkur föður sínum, traustur og heiðarlegur. Ég hef á mínum 20 ára kynnum við Mosfellssveit- síðar Mosfellsbæ, séð sjálfur móttökurnar sem Kalli fær, hvar sem hann kemur í Mosfellsbæ. Fólk þekkir Kalla, og þykir vænt  um hann. Gunnlaugur valdi sér ekki réttan mann til að draga niður í sitt svað.  Gunnlaugur  ætlast ekki til að lýðræðislegar ákvarðanir séu teknar í sambandi við tengibrautina, hann vill hana bara burt frá Kvosinni. Skyldi hann hafa hagsmuna að gæta þar? Skyldi hann ætla að upplýsa úr hvaða tölvum athugasemdir undir fölskum nöfnum voru sendar, klárlega gerðar til að kasta rýrð á Kalla?  Hvenig fékk Gunnlaugur upplýsingar um þessar IP tölur? Ég fæ ekki slíkar upplýsingar. Kannski þekkir hann einhvern á “ réttum “stöðum. Kannski giskaði hann og hitti fyrir heiðarleika Kalla. Ég held að Gunnlaugur ætti að snúa sér að einhverju öðru, einhverju sem hann er góður í. KvHelgi Pálsson 

HP Foss, 29.4.2007 kl. 21:34

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll Karl minn

Það voru mér vonbrigði að umfjöllun væri um þig og umrætt mál í DV. Berglind formaður hringdi í mig og sagði mér frá því að hún hefði séð þetta við kassann í Europrís. Við vorum bæði mjög hissa en við höfðum verið að bíða eftir því að heyra frá þér svo við gætum farið yfir málið sameiginlega á fundi, eins og við höfðum rætt. Fundur stjórnar Varmársamtakanna með þér og þínum vinum sem að eruð ábyrg fyrir tölvunum, sem að aðförin að Varmársamtökunum kom frá. Þar voru yfir 20 nöfn upploginna karaktera. Vil ennþá að við förum yfir þetta á fundi og þið segið okkur tilgang skrifanna og að hver og einn skáldaður karakter eignist ábyrgðaraðila. Það má vel vera að sonur þinn hafi gert mistök, en hann er ekki ábyrgur fyrir öllu þessu. Það veistu.

Við erum ekki gerendur. Það eru þeir sem pikka á takkanna á tölvunni þinni og vina þinna. Ásamt Mogganum sem birti IP tölurnar. Það kom í ljós að í stað þess að vera yfir tuttugu persónur sem væru búnar að vera með neikvæðni og leiðindi út í samtökin þá eru þær sennilega innan við fimm. Þetta eru upplýsingar sem gjörbreyttu eðli þessarar umræðu, sem ætlað var að vera lýðræðisleg og opin. Það er því ekkert óeðlilegt að við veltum fyrir okkur hvað þeim gengur til sem að haga sér með þessum hætti.

Svo virðist sem að fleiri en einn og fleiri en tveir hafi áttað sig á þessu mynstri af sendingum frá tölvunum fjórum. Þannig að það varð ljóst að við hefðum ekki getað bara afgreitt það á fundi. Pétur Gunnarsson var farin að blogga um málið og síðan DV í framhaldi. Hringdi fljótlega niður á Mogga til að ganga úr skugga um áreiðanleika IP talna. Starfsmaðurinn vísaði strax til "Mosfellsbæjarmálsins" eins og þetta hafi verið altalað á Mogganum sem eitt svæsnasta dæmið um netdólgana. Óskynsamlegt að taka þá stefnu að snúa þessu upp á Varmársamtökin, sem eru bara áhorfendur. Þú átt eftir að útskýra málið betur.

                  Með kærri kveðju,

PS -HP Foss- Vantar fjósamann á Síðuna, er þar allt í svaði og drullu? Nei, ég bara spyr. Þetta er of viðkvæmt og alvarlegt mál til að blogg sé rétti vettvangurinn til að fara yfir það. Spurt um hagsmuni - Sömu hagsmunir og allra íbúa Mosó að tryggja grænt útivistarbelti frá hesthúsahverfi, um skóla- og íþróttasvæði, Álafosskvos og Reykjalund. -Spurt um hvar ég hafi fengið IP tölur - Ég fékk engar tölur heldur gaf Moggi þær upp og hafði sýnilegar öllum í nokkra daga, en er búin að loka þeim aftur. Þá kom ýmislegt í ljós. Varmársamtökin voru bara áhorfendur að þeirri atburðarrás, ekki gerendur eða upplýsendur.

Gunnlaugur B Ólafsson, 30.4.2007 kl. 01:40

3 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Gunnlaugur mætti nú líka upplýsa hvaða talsmaður Varmársamtakanna það er sem Kalli nefnir hér að ofan. Það er ekki nóg að benda á aðra sem eiga að hafa notað mörg nöfn.

Guðmundur H. Bragason, 30.4.2007 kl. 10:36

4 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Mikið vona ég innilega að ágreiningsmálin, hver sem þau annars kunna að vera, leysist í vinsemd! Ég heiti á ykkur, ágætu menn, Karl Tómasson og Gunnlaugur B. Ólafsson, að gera það sem í ykkar valdi stendur til að svo megi verða. Allra hluta vegna. Ég heiti á ykkur bæði silungi úr Berufjarðarvatni og fugli utan úr Breiðafjarðareyjum ef það gengur eftir. Og kannski siginni grásleppu líka!

Hlynur Þór Magnússon, 30.4.2007 kl. 10:37

5 Smámynd: Karl Tómasson

Sæll Hlynur Þór.

Þetta er afar freistandi boð hjá þér. Það væri nú ekki dónalegt fyrir mig og Gunnlaug B. að róa með þér út á Berufjarðarvatn.

Eru ekki örugglega björgunarvesti í bátnum? Kær kveðja. Kalli Tomm.

Karl Tómasson, 30.4.2007 kl. 12:30

6 identicon

Þessi dulnefnaskrif eru hið leiðinlegasta mál en ég vona að hægt verði að leysa þetta allt sem fyrst.  Ég hef notað bloggið til að kynna mér frambjóðendur flokkana, hef lesið bloggin hjá Andreu og Guðfríði Lilju úr v-grænum og þætti fróðlegt að lesa meira um þig og þínar skoðanir fyrir kosningarnar, en maður verður ringlaðri með hverri komunni á bloggið þitt þessa dagana.  Að fjölskylda þín hafi orðið fyrir aðkasti vegna óánægju fólks með v-græna í bæjarfélaginu er til skammar.  Ég vona að það sé liðið hjá og endurtaki sig ekki.  Þegar fólk er í deilum líkt og er í gangi núna og fólk sem les um deilurnar las ekki umræddar umræður og annað þá veldur það að sjálfsögðu tortryggni, ég þekki það að finna til tortryggni í garðs einhvers vegna þess hann hafði svarað mér áður hastarlega undir dulnefni, eftir slíkt er maður á varðbergi.  Ég tel að allir bloggarar ættu að fara fram á að fólk skrifi undir fullum nöfnum og sætta sig ekki við annað en það til þess að fyrirbyggja tortryggni milli fólks.  Auðvitað er til dæmi þar sem búið var bara til fullt nafn en ég held nú að flestir fari ekki út í svoleiðis bull sérstaklega út af ip tölunum.  Ég vona þú farir að blogga um annað en þessar deilur sem við sem ekki tókum þátt í getum ekki almennilega skilið, frekar misskilið líkt og ég gerði í síðustu færslu hjá þér en þá hugsaði ég hvort nefndarmenn í Varmársamtökunum hefðu verið með einhverjar persónuárásir á þig og þína fjölskyldu en svo var það nú leiðrétt.  Umræða um deilur geta nefnilega auðveldlega misskilist.  Ég kíkti á þessa umræðu í matartímanum en sé núna að þú hefur tekið athugasemd Hjördísar Kvaran út, ég vona að mín fái að standa.  Kv Aðalheiður Þórisdóttir

Aðalheiður Þórisdóttir (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 18:09

7 identicon

Fyrir nokkrum árum var ég á leið inn í Lónsöræfi og kom við að Stafafelli til að leita gistingar yfir nóttina.  Ég keyrði upp að bænum og hitti þar bóndann á staðnum sem var maður á besta aldri, vel á sig kominn, íklæddur lopapeysu, gallabuxum og í gúmmískóm.  Hann var með þétta skeggrót og mikið úfið hár sem stóð í allar áttir.  Við heilsuðumst og ég bar upp erindi mitt hvort hægt væri að fá gistingu yfir nóttina... hann kímdi við hugsi og spurði svo eftir smá tíma hvort að ég gæti borgað með peningum ef að hann fyndi gistingu fyrir okkur... jú sagði ég, hvað annað.  Ég segi nú svona sagði hann vegna þess að rétt áðan voru að fara héðan hópur af stórskrýtnum konum að sunnan,  er ég þess fullviss að þær eru í hárbransanum því þegar þær voru að fara kom ein þeirra til mín og spurði hvort hún ætti að greiða mér fyrir gistinguna... ha ég lét hana nú ekki plata mig þó sveitamaður sé og með úfið hár.. ég hafði peninginn af henni !!

 Þetta var nú að ég held bróðir Gunnlaugs... skemmtilegur karakter úr sveitinni og húmoristi af guðs náð.

 En íbúarifrildið sem um er fjallað hér dregur nú varla það besta fram í okkur mannfólkinu og gleymist oft að börnin eru meðal okkar og fylgjast grannt með á sinn hátt og taka hlutina nærri sér.  Við sem eigum að heita fullorðin verðum að skilja það að viðbrögð ungmennis við reiði er ekki alltaf rökræn og á þann veg sem við helst kjósum.  Þetta mál sem hér um ræðir er frá mínum bæjardyrum stormur í vatnsglasi, þetta er smámál og alls ekki til þess fallið að nýta sér í pólítískum tilgangi.  Ég segi nú bara að ef að mín prakkarastrik sem unglingur hefðu ekki verið meiri en að bauna á fullorðna pakkið nokkrum fúkyrðum, já þá hefði ég líklega þótt þægur.

Mér sýnist að það sem kemur í veg fyrir virka málefnalega umræðu íbúanna, er að menn klæðast mismunandi pólitíkskum skikkjum og margir telja sig vera með sverð réttlætisins og ætla að skilmast þar til einhver fellur.  Hvernig væri nú að fella vopnin, slaka á spennunni og takast í hendur.. kannski að ná í snúrur og taka smá naflajóga með Gunnlaugi og hlusta á rólegt lagið með gildrunni… þá er aldrei að vita nema eitthvað uppbyggilegt eigi sér stað.

Ólafur Ragnarsson, Hvarfi (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 01:04

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Gott er að heyra að nú megi loks sjá í land í þessu einkennilega deilumáli um brautina umdeildu. Og kostaboð Hlyns að fyrrum deilumenn verði saupsáttir yfir siginni grásleppu á Berufjarðarvatni sem ku vera vettvangur fyrstu tilraunar til fiskeldis á Íslandi og segir frá í Þorskafirðingasögu. Þá er mikilvægt að enginn ruggi bátnum en rétt er að hafa björgunarvesti meðferðis enda það bæði rétt og skylt að sýnd sé fyllsta gát á varasömum vötnum.

Ef þið Gunnlaugur hafið áhuga fyrir fleiri bátsferðum býð eg einning upp á bátsferð og á Skorradalsvatni núna í vor. Eigi get eg boðið ykkur upp á signa grásleppu enda hefur slíkur fiskur ef fisk skyldi kalla ekki sést á þeim ágætu slóðum. En meðferðis gætum við haft með okkur vestfirskan harðfisk ásamt sméri. Svo býð ég að sjálfsögðu upp á  skógargöngu í Skorradal svo lengi sem dagurinn endist. 

Bestu kveðjur og munið fuglaskoðunina n.k. laugardagsmorgunn við Leirvog.

Mosi - alias

Guðjón Sigþór Jensson, 2.5.2007 kl. 08:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband