fim. 31.12.2009
Minning
Á þessu ári, 2009, missti ég foreldra mína og mitt eina systkini.
Sá missir er þyngri en nokkur orð fá lýst. Eftir stendur minningin um þær bestu manneskjur sem ég hef þekkt.
Faðir minn var allra manna hugljúfi, svo hreinn og beinn, laus við alla tilgerð og öllum kær. Hann var lítillátur og kunni sannarlega að njóta sín án þess að berast á.
Móðir mín, var einstaklega elskuleg og hressileg kona sem fangaði hjörtu allra þeirra sem á vegi hennar urðu. Hjálpsemi var henni í blóð borin. Hún kunni að njóta lífsins og gleðjast með sínum nánustu alla tíð.
Bróðir minn var falleg og viðkvæm sál sem flökti um í vindkviðu lífsins en vildi einungis það besta, öllum sem á vegi hans urðu. Hann hafði ákveðnar og skírar skoðanir á þjóðmálum og fékk fólk ávallt til skoðanaskipta um lífið og tilveruna.
Þegar þessi örfáu minningarorð eru skrifuð, vil ég senda öllum þeim sem eiga um sárt að binda vegna missis ættingja og vina mínar bestu kveðjur, um leið og ég veit að sálir okkar látnu ættingja dvelja í ljósinu.
Söknuðurinn er alltaf sár og við eigum að láta það eftir okkur að syrgja, að gráta, að gremjast endalaust þar til birta fer á ný í sálum okkar.
Minningin um elskulega ættingja mun að eilífu ylja okkur.
Ég vil að lokum þakka öllum þeim fjölmörgu sem hafa sent mér og fjölskyldu minni einstaklega fallegar og hlýjar kveðjur.
Bestu kveðjur Líney Ólafsdóttir.
Gleðilegt ár.
Athugasemdir
Mínar innilegustu samúðarkveðjur Kalli minn.
Jón Steinar Ragnarsson, 31.12.2009 kl. 06:17
Ég sendi þér mínar innilegustu samúðarkveðjur um leið og ég óska þér og þér og þínum gleðilegs nýs árs.
Jóhannes Ragnarsson, Ólafsvík.
Jóhannes Ragnarsson, 31.12.2009 kl. 09:29
Líney mín og Kalli ég verð klökkur þegar ég hugsa um þessar hörmungar sem dunið hafa yfir ykkur og börnin ykkar á árinu sem er að líða. Algóður Guð blessi ykkur fjölskylduna og huggi ykkur í ykkar miklu sorg. Ragnar var svo hlýr og góður drengur og fráfall hans í hörmulegu slysi var algjört reiðarslag. Ég mun ætíð minnast Ragga sem öðlings og gáfumanns sem alltaf gladdi mitt hjarta að hitta. Ég veit að foreldrar þínir voru yndislegt fólk Líney mín því Kalli talaði alltaf um þau með svo mikilli virðingu og ástúð. Drottinn Jesú blessi ykkur og styðji ykkur yfir þennan sorgardal. 23. Davíðsálmur er áramótakveðja mín til ykkar yndislegu vinir.
Þórir kristinsson (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 13:38
Sæll vinur
Sendi þér mínar dýpstu samúðarkveðjur og lítið ljós í hjartastöðina.
Hýbýli andanna
Margir velta fyrir sér hvernig búsetu háttað hinum megin og hefur verið rannsóknarefni í aldanna rás.
Ég ætla bara lýsa hluta af transupptöku þar sem 2 nánir ættingjar lýsa fyrir mér hvernig lífið gengur fyrir sig þegar komið er yfir móðuna miklu.
Þau eru alltaf saman ásamt öðrum nákomnum ættingjum og nýta þar timann til að hlýða á fyrirlestra um Guðlegt efni yndislega tónleika flutta af fyrrum meisturum þessara hugverka og geta legið saman á grasflöt og notið þess eins og nýtrúlofuð að fá yfir sig þessa dásamlegu tóna.
Þau hafa sitt afdrep í þeim skilningi til að vera út af fyrir sig en þurfa aðeins um 1 klst í okkar timatali til að nærast á orku sem sér þeim fyrir öllu sem þau þurfa.
Þess á milli í dagtima á okkar tima veita þau mér aðstoð ásamt fleirum til þess að sinna verkum fyrir þann æðsta með sjúka og sorgmædda.
Þessi hýbýli eru ólík okkar að því leiti að engir gluggar né hurðir eru þar að finna heldur smugur til að fara inn um en ekkert veðrakerfi er þarna hiti né kuldi og húsbúnaður og upphitun óþörf.
Ekki þarf að tala í þeim skilningi heldur einskonar hugsanaflutningur sem tengist almættinu þar sem upplýsingum er safnað saman og skilaboðum komið á milli þeirra á örskotsstundu.
Ekki gat ég fengið svar við því hvort að þau væru alltaf eins og ég skynja þau þegar þau koma til min að handan eða eins og litlar stjörnur og geng ég út frá því að sú vitneskja sé þeim ekki ljós.
Tilfærsla á milli vitsmunastiga á sér stað eftir þekkingu sem að okkar timatali getur tekið mjög langan tima allt að hundruði ára.
Ég hef lýst þeim áhyggjum og tilfinningum sem ég hef fengið vegna þeirra miklu þrengina sem mörg heimili og fjölskyldur ganga nú í gegn um og finn ég fyrir brestum víða.
Við skulum halda vel utan um þessar fjölskyldur minnug þess að greiðslan kemur þúsundföld að handan og við þessar fjölskyldur sem nú eiga í hremmingum vil ég segja"Elskurnar mínar ekki missa móðinn hjálpin er á næsta leiti".
Góðar stundir.
Ps,Minni á gestabókina mína en ekki er nauðsynlegt að setja þar inn nafn en ef einhverjar spurningar vakna þá endilega sendið mér tölvupóst og ég mun svara
Þór Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 14:19
Elsku Lína mín
Þetta eru yndisleg orð - ég fór að gráta þegar ég las þau. Einlæg, látlaus og heil.
Elsku hjartað mitt - það er einmitt um að gera að leyfa sér að syrgja, leyfa sorginni að koma og vera með okkur á meðan við þurfum á henni að halda, gæta þess aðeins að hún nái ekki tökum á tilverunni. Við þurfum líka að átta okkur á því að hún fer aldrei aftur og því þurfum við að læra að lifa með henni. Við megum aldrei gleyma gildi þess að brosa, hlæja og njóta þess að vera til.
Foreldrar þínir voru yndislegt fólk og hann Ragnar var sérstakt gull af manni sem hreif alla sem honum kynntust upp úr skónum einn, tveir og bingó. Þeirra verður sárt saknað.
Gleðilegt ár, ljósið mitt, til þín og fjölskyldunnar og takk fyrir þau gömlu. Hittumst heil á þessu nýja, sem ég verð að segja að ég hef góða tilfinningu fyrir ;o)
Knus og kram í kofann
Hjödda
Hjördís Kvaran Einarsdóttir (IP-tala skráð) 1.1.2010 kl. 10:42
Gleðilegt ár Lína mín, Kalli, Óli og Birna. Ég hef mikið hugsað til ykkar um þessi jól.
Sorgin og söknuðurinn verða alltaf til staðar og ég tek undir með þér Lína um að það er nauðsynlegt að gráta, öskra, tárast. Það er óhollt að halda þessu innra með sér. Það tekur langan tíma að komast upp úr öldudalnum sem manni er hrint ofan í þegar svona erfið verkefni berast. Með tímanum verður það auðveldara að rifja upp góðar, yndislegar og skemmtilegar stundir og minna sjálfan sig á að við verðum að halda áfram með okkar líf fyrir þá sem eftir standa, að okkur sjálfum meðtöldum.
Sjáumst vonandi fyrr en síðar.
Kveðja, Sigga
Sigga Hjólína, 1.1.2010 kl. 16:35
Elsku Lína, Kalli og börn
Mikið er ég búin að hugsa til ykkar yfir hátíðarnar, að ein fjölskylda þurfi að takast á við svona stórt högg á svo stuttum tíma er ótrúlegt, að heyra hvernig þið takist á við það er aðdáunarvert.
Við sendum ykkur innilegar hátíðarkveðjur og þökkum það liðna, vonandi að nýja árið færi ykkur gæfu og góðar stundir
bestu kveðjur
Hanna
Hanna
Hanna Sím (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 19:41
Sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Þórður Björn Sigurðsson, 11.1.2010 kl. 01:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.