fös. 2.10.2009
Velheppnuð framkvæmd á gömlu fallegu húsi
Þessa gömlu og skemmtilegu mynd, fékk ég á dögunum, senda frá Birgi D. Sveinssyni. Þarna má sjá gamalt, einvalalið kennara, úr Mosfellssveitinni. Í efri röð frá vinstri: Séra Bjarni Sigurðsson, Lárus Halldórsson, Sigvaldi Sturlaugsson og Birgir D. Sveinsson. Í neðri röð frá vinstri: Tómas Sturlaugsson, Klara Klængsdóttir og Eyjólfur Magnússon.
Eins og flestir vita hefur Brúarlandshúsið fengið sitt gamla hlutverk og er orðið skólahús að nýju. Fyrsti framhaldsskóli Mosfellsbæjar hefur nú tekið þar til starfa og ríkir mikil ánægja á meðal nemenda og kennara.
Það hefur verið einstaklega gaman að fylgjast með þeim velheppnuðu framkvæmdum sem staðið hafa yfir á húsinu undanfarna mánuði og lýkur brátt. Arkitekt innanhúsframkvæmdanna var Vilhjálmur Hjálmarsson en hann lagði einnig á ráðin með breytingar í Varmárskóla á sínum tíma. Þessa dagana er unnið af fullum krafti utandyra, verið er að taka lóðina í kringum húsið í gegn og eins er unnið við múrverk á húsinu.
Það er mikið fagnaðarefni að brátt fær húsið sitt upphaflega útlit. Þegar þeirri vinnu hefur verið lokið, verður Brúarland vafalítið mikil bæjarprýði. Brúarlandshúsið er teiknað af Einari Erlendssyni, arkitekt og fyrrverandi fulltrúa húsameistara ríkisins. Bygging þess hóst árið 1922 og sama ár hófst kennsla í kjallaranum. Brúarland var reist í þremur áföngum.
Í ritinu: Skýrslur um nokkrar framkvæmdir ríkisins 1927-1930, sem kom út 1931, segir um Brúarlandshúsið: Á Brúarlandi í Mosfellssveit í Kjósarsýslu hefir verið reist myndarlegt skólahús úr steinsteypu; er þar og samkomusalur fyrir sveitina í kjallara hússins, sem jafnframt er notaður til leikfimikennslu. Á efri hæð þess er prýðileg skólastofa, þægileg íbúð fyrir kennara og heimavistir fyrir 20-30 börn. Húsið er 13,5 x 9,76 m stórt, og auk þess útbygging 7 x 4 m., allt hitað með hveravatni.
Góður kostur fyrir Mosfellsbæ
Í stefnuskrá okkar Vinstri grænna var það m.a. markmið að gera Brúarlandshúsið upp og fá því verðugt hlutverk í bæjarfélaginu. Þegar nefnd á vegum Menntamálaráðuneytisins, ásamt fulltrúum frá Mosfellsbæ, taldi húsið hentugt og heppilegt til að hefja þar, til að byrja með starfsemi Framhaldsskóla Mosfellsbæjar, var það vissulega í senn, mikið fagnaðarefni og einnig sérlega góður kostur fyrir okkur Mosfellinga. Kostnaður við viðgerðir á húsinu lagðist því ekki einungis á Mosfellsbæ. Vert er að þakka fyrrverandi menntamálaráherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sérlega gott samstarf, en hún sýndi húsinu og verkefninu mikinn áhuga, allt frá upphafi.
Þegar nýr framhaldsskóli verður risinn og tekinn til starfa, eigum við glæsilegt hús sem auðvelt verður að finna verðugt verkefni í bænum.
Brúarlandshúsið var um áratuga skeið miðdepill mannlífs í Mosfellssveit. Það var ekki einungis skólahús, heldur einnig aðal samkomustaður bæjarfélagsins. Það eiga margir gamlir Mosfellingar góðar minningar frá Brúarlandi og nú á þeim væntanlega eftir að fjölga áfram, jafnt og þétt.
Metnaðarfull uppbygging
Það er alltaf gaman þegar gömlum og fallegum húsum er sýnd virðing og þau gerð fallega upp. Fjöldi manna hafa komið að uppbyggingu Brúarlandshússins og er vert að þakka öllu því góða fólki fyrir metnaðarfullt starf. Ég held að á engan sé hallað þó að ég nefni hér sérstaklega nöfn Davíðs B. Sigurðssonar, umsjónamanns fasteigna Mosfellsbæjar og Jóhönnu B. Hansen, bæjarverkfræðingi. Þau hafa fylgt verkefninu eftir allt frá upphafi og lagt þunga áherslu á, að nýta allt það gamla sem mögulegt var í húsinu og með því að halda í því gamalli og góðri sál.
Gamlar og góðar minningar
Það er einnig sérlega góð tilfinning að sjá hús sem er manni svo kært verða svo fallegt að nýju. Í Brúarlandi var afi minn, Lárus Halldórsson, skólastjóri um árabil og bjó þar ásamt eiginkonu sinni Kristínu Magnúsdóttur og átta börnum. Afi Lárus réð föður minn, Tómas Sturlaugsson, sem kennara og þar kynntist hann móður minni, Gerði Lárusdóttur, dóttur Lárusar skólastjóra. Faðir minn varð svo seinna skólastjóri Varmárskóla eða til ársins 1977. Birgir D. Sveinsson, sem allflestir Mosfellingar þekkja, hóf sín kennarastörf í Brúarlandi og bjó þar einnig um tíma ásamt eiginkonu sinni Jórunni Árnadóttur og börnum. Klara Klængsdóttir sem nú dvelur á Hlaðhömrum var einnig kennari í Brúarlandi og Varmárskóla. Hún kenndi á þeim tíma þremur ættliðum í Mosfellssveit að lesa og synda. Klara bjó einnig um árabil í Brúarlandshúsinu.
Það var gaman fyrir mig að hringja skólabjöllunni í fyrsta sinn þegar Brúarland var að nýju vígt sem skólahús.
Ég veit að þetta er nokkuð persónulegt hjá mér hér í lokin, en það er gott að eiga gamlar og góðar minningar og ekki síður meira virði að varðveita þær.
Ég óska öllum Mosfellingum innilega til hamingju með Brúarlandshúsið.
Athugasemdir
Það er frábært að sjá Brúarland fá verðugan sess á ný. Frábær Mynd frá Birgi D. margir af mínum gömlu kennurum.
Þórir kristinsson (IP-tala skráð) 4.10.2009 kl. 12:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.