Ný skoðanakönnun, endilega takið þátt í henni

Undanfarna mánuði hef ég haft hjá mér skoðanakönnum um það, hvert er fallegasta hús Mosfellsbæjar. Gamla Brúarlandshúsið, sem nú hefur að nýju fengið sitt gamla hlutverk að verða skólahús, fékk flest atkvæði.

Brúarland 1010

Á myndinni er gamla Brúarlandshúsið en 39,1% töldu Brúarlandshúsið fallegast og í öðru sæti var Hlégarður með 32,5% atvæða. Þá vitum við það. Þessa dagana er unnið að viðgerðum á húsinu og verið er að setja það í sitt gamla form. Ljóta steníklæðningin er m.a. hreinsuð af og gamla íslenska múrverkið fær uppreisn æru.

Nú kemur hér önnur skoðanakönnun sem vafalítið er tengd því þreyttasta nafni sem um getur hér á landi þessa dagana og hvað haldið þið að það nú sé?

Endilega takið þátt í nýju könnuninni, kæru bloggvinir og aðrir gestir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Brúarlandshúsið er mjög stílhreint teiknað af nafna mínum Samúelssyni. Í ritinu: Skýrslur um nokkrar framkvæmdir ríkisins 1927-1930, sem kom út 1931, segir um Brúarlandshúsið:

Á Brúarlandi í Mosfellssveit í Kjósarsýslu hefir verið reist myndarlegt skólahús úr steinsteypu; er þar og samkomusalur fyrir sveitina í kjallara hússins, sem jafnframt er notaður til leikfimikennslu. Á efri hæð þess eru tvær prýðilegar skólastofur, þægileg íbúð fyrir kennara og heimavistir fyrir 20-30 börn. Húsið er 13,5 x 9,76 m stórt, og auk þess útbygging 7 x 4 m., allt hitað með hveravatni. Áformað er að byggja sundlaug við húsið bráðlega. Rafmagnsveitu til ljósa hefir skólinn í sambandi við Álafoss. - Hreppurinn hafði fyrir nokkrum árum keypt hver í Reykjalandi, og þaðan er vatnið leitt ca. 1 km. í pípum; það er 60-70 stiga heitt; í húsið er leitt heitt og kalt vatn og þar er baðherbergi. - Húsið hefir kostað, með hitaleiðslu, allt að 80 þús. krónur. (bls.81-82).

Með þessari grein eru birtar 3 myndir, eina af húsinu að utan og tvær að innan, skólastofa á aðalhæð og leiksal- og samkomuhúsi í kjallara.

Margt er fróðlegt í þessari gömlu heimild. Um kostnaðinn má t.d. segja að verkamannakaupið á tímann var á kreppuárunum rúmlega króna. Þegar Gúttóslagurinn varð 7. nóv. 1932 hugðist íhaldið í Reykjavík lækka tímakaupið í atvinnubótavinnunni úr 1.30 í krónu slétta.

Nú er aftur hafin kennsla í þessu merka húsi sem við Mosfellingar eigum að vera stoltir af.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 17.9.2009 kl. 11:22

2 Smámynd: Karl Tómasson

Ágæti Guðjón.

Þakka þér fyrir þessa skemmtilegu sendingu um þetta gamla fallega hús.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm.

Karl Tómasson, 17.9.2009 kl. 13:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband