Fallegt miðbæjarskipulag

Miðbær

Undanfarin ár hefur átt sér stað mikil og metnaðarfull vinna við lokafrágang á miðbæjarskipulagi Mosfellsbæjar. Fulltrúar úr öllum flokkum, fjöldi sérfræðinga, að ógleymdum íbúum bæjarins, hafa komið að skipulaginu. Fundirnir skipta tugum og hefur jafnframt verið lögð þung áhersla á, að halda íbúum vel upplýstum á skipulagsferlinu, m.a. með opnum íbúafundum.

Vitanlega má lengi velta því fyrir sér hvort einni eða annari byggingu sé betur komið fyrir á öðrum stað en ráð er fyrir gert. Skipulagsvinna er eðli sínu málamiðlun þar sem reynt er að koma til móts við sem flest sjónarmið. Það var alltaf gert í öllu ferlinu eftir fremsta megni og tel ég því, þetta skipulag uppsprottið af mikilli og góðri samvinnu.

Kirkjan- og menningarhúsið

Nú hefur verið kynnt fyrir bæjarbúum glæsileg verðlauna tillaga af kirkju- og menningarhúsi. Þetta mikla- og fallega mannvirki og sú starfsemi sem þar á eftir að fara fram í hjarta bæjarins á eftir að verða mikil liftistöng fyrir Mosfellsbæ og alla bæjarbúa.  

Vart þarf að fjölyrða um hversu mikil áhrif slík menningarbygging og starfsemin sem þar mun fara fram mun hafa á eflingu miðbæjarins. Flestir eru sammála um að hann hafi verið nauðsyn að efla.

Fulltrúar úr öllum flokkum, ásamt að sjálfsögðu arkitektum, tóku þátt í valinu á verðlaunatillögunni og ríkti mikill einhugur meðal allra sem þátt tóku í valinu.

Klappirnar

Ég hef marg ítrekað ánægju mína á þeim einhug sem ríkir hjá núverandi bæjaryfirvöldum Mosfellsbæjar að gera fallegu klöppum á miðbæjarsvæðinu sem hæst undir höfði og varðveita þær eftir fremsta megni. Ég man þá tíð, er það virtist ekkert tiltökumál að raska ró klappanna án nokkurra athugasemda, enda var það gert.

Stórum hluta af því svæði sem þarf að raska af klöppunum til að kirju- og menningarhússbyggingin komist vel fyrir, hefur þegar verið raskað. Því er vert geta þess, að þegar hefur verið lagt til, að öðru eins svæði, algerlega óröskuðu, verði bætt við innan hverfisverndar. Klapparsvæði, sem hefur til þessa verið utan hverfisverndar.

Það vekur því furðu mína, að nú fyrst skuli vera farið að gæta þess í umræðu minnihlutans á lokaspretti skipulagsins, að á leiðinni sé eitthvert sérstakt umhverfisslys varðandi klappirnar.

Öllum bæjarfulltrúum var að sjálfsögðu fullkunnugt um að einhverju þurfti að fórna til að koma slíku mannvirki fyrir á þessum stað.

Í samspili manns og náttúru þarf alltaf að gæta jafnvægis. Á hvorn vegin sem er, verður að gæta þess að ganga ekki of langt í umræðu og skrifum.

Klappirnar fallegu spila stórann þátt í allri hönnun kirkju- og menningarhússins eins og sjá má þegar teikningar eru skoðaðar. Ég tel engan vafa á að klappirnar munu fá notið sín betur en nokkru sinni fyrr í bæjarfélaginu þegar upp verður staðið.

Það er ósk mín og von að bæjarbúar séu sáttir við hið nýja miðbæjarskipulag og verði ófeimnir að láta rödd sína heyrast nú sem endranær í stórum skipulagsverkefnum.

Að lokum langar mig að þakka öllum þeim fjölmörgu einstaklingum sem hafa komið að gerð miðbæjarskipulagsins.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband