Með þökk fyrir samfylgdina

Ragnar ÓlafssonÓlafur Kristján VilhjálmssonÞann 1. mars sl. lést elskulegur mágur minn, Ragnar Ólafsson, í bílslysi og tengdafaðir minn, Ólafur Vilhjálmsson aðeins tveimur dögum síðar þann 4. mars. 

Mikið var gott og lærdómsríkt að kynnast þeim feðgum.

Blessuð sé minning þeirra.

 

Þegar ég kom í fyrsta skipti á heimili fjölskyldunnar að Stórateigi 27, fyrir tæplega tuttugu og fimm árum síðan, fann ég strax notalega strauma.

Fjölskyldan hennar Línu minnar var lítil; mamma, pabbi og Ragnar bróðir. Allt við fjölskylduna og heimilið heillaði mig frá fyrstu tíð. Glaðhlakkaleg tengdamamma, stóísk ró tengdapabba og notalegt viðmót Ragnars.

Allt voru þetta mannkostir sem ég átti eftir að kynnast miklu betur og nánar eftir því sem árin liðu.  Tengdapabbi átti nánast, hvern nagla og hverja skrúfu á sínu gamla heimili í Mosfellsbæ. Allt var gert á þeim hraða sem hentaði og eftir því sem efni leifðu. Í öllum hlutum, innan dyra sem utan, var sál.

Snúrustaurarnir sem Óli smíðaði úr járni og settir voru út í garð voru hannaðir eins og fallegt tré. Þeir prýða gamla garðinn enn í dag. Útibekkirnir og borðin voru listasmíð, útiljósin sem enn prýða götuna, eru engu lík. Jólaskrautið sem Óli hófst handa við að útbúa og hanna mörgum mánuðum fyrir hver jól og var sjaldnast eins, ár frá ári, gladdi vafalítið alla nágranna og þá sem sáu. Natni og metnaður var lagt í allt sem hann tók sér fyrir hendur.

Hæfileikar tengdapabba við meðhöndlun á tré og járni voru miklir. Einnig virtist honum alltaf takast að koma gömlum tækjum og tólum til að verða að gagni að nýju.

Eitt áttum við Óli tengdó sannarlega sameiginlegt, það var áhugi okkar á tónlist. Óendanlegur áhugi okkar á tónlistinni sendi sálir okkar oft saman í heilmikil ferðalög. Óli tengdó kenndi mér að hlusta á óperutónlist og fallegar aríur. Í dag nýt ég fárra hluta betur. Fyrir aðeins fáeinum vikum síðan áttum við saman einstaklega notalega kvöldstund og hlýddum á fjöldann allan af fallegum óperuaríum.

Af Óla, tengdaföður mínum, var margt hægt að læra. Með sinni hægversku ró miðlaði hann fallega af öllu því sem hann átti til allra þeirra sem honum kynntust. Eftir því sem árin og þroskinn hafa yfir mig færst, verð ég meðvitaðri um hversu fallegur, góður og réttsýnn maður hann var. Það var eins og Óli þyrfti aldrei að mæla orð af munni til að fanga athygli og virðingu allra þeirra sem honum kynntust. Það sá ég og áttaði mig á alla tíð og ekki síst nú undir lokin, í hans erfiðu veikindum, þegar hann var hættur að geta tjáð sig. Hann vann hug og hjörtu allra sem honum kynntust.

Mikið er um það rætt í dag að nú sé tími breyttra gilda. Óli tengdapabbi þurfti aldrei að breyta neinum gildum. Hann vissi alltaf hvað stóð sér næst og hvað það var sem skipti öllu máli. Hann var alltaf sáttur við sitt og sína. Samband hans við börn sín og eiginkonu og síðar barnabörnin tvö, Óla og Birnu var fallegt, sérlega fallegt. Tengdaföður minn, Ólaf Kristján Vilhjálmsson, kveð ég með miklum söknuði. Samband okkar var alla tíð einstaklega náið og gott, á það bar aldrei skugga.

Um leið og ég kveð tengdaföður minn hinstu kveðju get ég ekki látið hjá líða að minnast á einstaka ástúð og umhyggju tengdamóður minnar, Millýjar Birnu, til eiginmanns síns, allt til hins síðasta dags. Það var aðdáunarvert að upplifa. Blessuð sé minning Ólafs Vilhjálmssonar. 

Karl Tómasson.

 

Ragnar Ólafsson, mágur minn, lést í bílslysi sunnudaginn 1. mars.  Ragnar var engum líkur. Líf hans og lífsganga einkenndist aldrei af göngu um troðnar slóðir. Slík ganga getur oft verið torfær fyrir þá sem hana fara, um leið og hún getur einnig opnað nýjar víddir slíkum göngugörpum og einnig þeim sem fá tækifæri til að njóta samvista við og kynnast slíkum mönnum. 

Ragnar mágur, var í blóma lífs síns þegar kallið kom. Þrek hans, kraftur og dugnaður hin síðustu ár til að öðlast betra líf hafði skilað honum góðum árangri. Fjallmyndarlegur, stæltur og í betra jafnvægi hafði Ragnar ekki verið í mörg ár. Hann var einstakt ljúfmenni, bráðvel gefinn, víðlesinn, tilfinninganæmur og skemmtilegur.

Við hann var hægt að ræða um allt á milli himins og jarðar, allt virtist hann vita. Með fáum mönnum gat ég hlegið jafn mikið og innilega.  

Við Ragnar áttum einstakt samstarf við upptökur og gerð fjögurra breiðskífa með hljómsveit minni. Á þær samdi Ragnar texta sem höfðu margir djúpstæða merkingu og segja svo margt um hans fallega og einstaka hjartalag. 

Þær eru margar ógleymanlegar stundirnar sem við áttum saman, ég og mín fjölskylda með Ragnari. Samband hans og Línu minnar, systur hans, var engu líkt, algerlega tilgerðarlaust og afslappað. 

Söknuður okkar allra er mikill og hefur söknuður frændsystkina hans, barna okkar Línu, Óla og Birnu, verið sérlega mikill og sár. Ragnar frændi var þeim allt. Sannur vinur, frændi og félagi. Hann gaf þeim allan sinn tíma og alla sína sál, allt frá barnæsku þeirra til hinsta dags.

Minningin fallega um Ragnar frænda á eftir að fylgja þeim og okkur öllum sem kynntumst Ragnari um ókomna tíð. Blessuð sé minning Ragnars Ólafssonar. 

Karl Tómasson.         

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku Lina og Kalli, innilegar samudakvedjur med ykkar mikla missir.  Eg nadi ad kynnast Ragnari vid upptokur i Hvarfi a 66 plotunum og thar var godur drengur sem eg atti margar godar og djupar samraedur vid.  Blessud se minnnig Ragnars og Olafs.

Afsakid stafsetningu en eg er staddur i midir Pilagrimagongu fra Frakklandi Til Santiago a Spani og hef verid undanfarnar 2 vikur og kem ekki heim fyrr en i enda April enda um 800 km leid.

Eg heyri i ykkur thegar eg kem heim.

Kvedja,

Oli i Hvarfi

Olafur Ragnarsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 16:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband