fös. 13.2.2009
Lifandi grænn miðbær
Hér fyrir neðan er umfjöllun um væntanlegt miðbæjarskipulag í Mosfellsbæ sem birt var í bæjarblaðinu Mosfellingi.
Lifandi, grænn miðbær þar sem framsækin byggingarlist og hlýlegt umhverfi er í aðalatriði er útgangspunktur í tillögu um nýjan miðbæ í Mosfellsbæ sem kynnt verður Mosfellingum næstkomandi miðvikudag. Hugmyndir, tillögur og óskir bæjarbúa voru hafðar í öndvegi við gerð nýs deiliskipulags miðbæjarins sem verið hefur í vinnslu frá árinu 2005 en nú er komin lokamynd á.
Mosfellsbær þarf miðbæ
Að sögn Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra og Karls Tómassonar forseta bæjarstjórnar má vafalítið ætla að hinn nýi miðbær verði geysileg lyftistöng fyrir bæjarfélagið.
Þarna myndast svæði fyrir nauðsynlega verslun og þjónustu í þeirri stærðargráðu sem bæjarfélagið þarfnast, ásamt tveimur stórum menningarstofnunum," segir Haraldur. Hvort tveggja mun vafalítið gæða miðbæinn lífi og verða vonandi til þess að hér verði sá græni, lifandi miðbær sem við Mosfellingar höfum þurft á að halda."
Að sögn Haraldar var mikið lagt upp úr því að hugmyndir bæjarbúa yrðu fléttaðar inn í hið nýja deiliskipulag. Gerð var viðhorfskönnun meðal Mosfellinga og í framhaldi af því komið á fót rýnihópum sem fjölluðu sérstaklega um þær tillögur sem bæjarbúar settu fram.
Karl sagði það ljóst að bæjarfélagið hafi vafalítið blætt fyrir það að hafa aldrei haft eiginlegan miðbæ, iðandi af mannlífi. Slíkt er öllum bæjarfélögum nauðsyn," segir hann og bætir við að mikill áhugi hafi verið meðal bæjaryfirvalda um árabil að bæta úr því. Nú er það að verða að veruleika. Það metnaðarfulla skipulag sem nú er kynnt og fjöldi bæjarbúa hefur komið að ber vonandi vitni um þann áhuga," segir Karl.
Sjónarmið íbúa fær brautargengi
"Um haustið 2005 lagði skipulags- og byggingarnefnd fram hugmyndir um nýtt deiliskipulag miðbæjarins unnar af Sigurði Einarssyni arkitekt hjá Batteríinu," segir Haraldur. "Þær hlutu umfjöllun í aðdraganda kosninga en ákveðið var að vinna þær ekki frekar fyrr en að loknum kosningum. Í kjölfarið á sveitarstjórnarkosningunum var haldið áfram með verkefnið og þá samkvæmt málefnasamningi meirihlutans ákveðið að gera leita eftir skoðunum og hugmyndum íbúa í meira mæli að verkinu.
Eftir að tillögur íbúa lágu fyrir var unnið frekar með deiliskipulagið og þær hugmyndir sem nú liggja fyrir eru endurskoðaðar tillögur þar sem sjónarmið íbúa hafa fengið brautargengi," segir Haraldur.
Græn svæði fá aukinn sess
Helstu breytingarnar á deiliskipulagstillögunni eru einna helst þær að græn svæði í miðbænum fá aukinn sess frá fyrri tillögu. "Tekið er meira tillit til trjáræktarinnar við Bjarkarholtið og var sérstaklega farið yfir það hvað af gróðrinum væri best til þess fallin að halda sér og mynda gróðurreit í hjarta bæjarins," bendir Karl á. Þannig gerir tillagan ráð fyrir að eins konar skrúðgarður verði í Bjarkarholtinu sem tengist klapparholtinu í miðju svæðisins. Klapparholtið mun jafnframt njóta sín sem áframhaldandi útvistarsvæði.
Báðir eru þeir sérstaklega ánægðir með hversu mikið tillit hafi verið tekið til að vernda svokallað klapparsvæði. Karls bendir á til gamans að umræddar klappir sem einfaldlega hefðu verið nefndar klettarnir í hans barnæsku hafi verið eitt vinsælasta leiksvæðið á meðal barna búsettra á þessu svæði. Það er einstakt að hafa slíkt stórgrýti óhreyft í miðbæ og óhemju frumlegt og skemmtilegt," segir Karl.
"Rétt er að benda á að heldur hefur verið dregið úr fjölda íbúða frá fyrri hugmyndum og bílastæði eru flest neðanjarðar að hluta eða að öllu leiti og bílar því ekki áberandi sem er mjög mikilvægt til að skapa þessa hlýju grænu stemmingu sem sóst er eftir," sagði Haraldur.
Lóðin milli Vesturlandsvegar og Bjarkarholts var valin til að hýsa væntanlegan framhaldsskóla sem stefnt er á að verði tekinn í notkun haustið 2011. Haraldur og Karl eru á einu máli um að sá mikli fjöldi fólks, jafnt starfsfólk og nemendur, sem fylgja starfsemi af þessu tagi muni gæða miðbæinn lífi. Hið sama eigi við um menningarhús og kirkju sem stefnt er að byggja við Háholtið.
Miðbærinn mun byggjast upp
Haraldur og Karl eru bjartsýnir á að þrátt fyrir efnahagsástandið geti nýtt miðbæjarskipulag orðið að veruleika á næstu árum.
"Það er mjög mikilvægt að nota tímann nú til þess að vinna undirbúningsvinnuna og að ljúka við deiliskipulag miðbæjarins," segir Haraldur.
Samningur er um að framhaldsskólinn verði tilbúinn eftir rúm tvö ár og í gangi er hönnunarsamkeppni um nýja kirkju og menningarhús í miðbænum. Hvort tveggja er innlegg í þessa skipulagstillögu en það er afskaplega mikilvægt fyrir skipulag til framtíðar að í stað þess að skipuleggja í kring um þessar tvær lóðir verði allur miðbærinn hugsaður sem ein heild. Við verðum að sjá til hversu hratt hinn nýi miðbær mun byggjst upp. Það er hins vegar alveg ljóst að miðbær mun byggjast upp, spurningin er einungis hvenær. Róm var til að mynda ekki byggð á einum degi," segir Haraldur.
---------------------------------
Engar töfralausnir
Sigurður Einarsson, arkitekt miðbæjarskipulagsins, bendir á að hugmyndafræðin í þessu nýja deiliskipulagi sé fyrst og fremst að búa til hæfilega þéttan miðbæ sem hæfi Mosfellsbæ. "Þéttleiki tekur mið af umhverfinu eins og það er í dag. Við notum Kardímommubæinn sem ákveðið viðmið fyrir þéttleika og hæð hæstu bygginga í bænum að Kjarna og væntanlegri kirkju undanskilinni".
Miðbær sem virkar
Spurður hver sé lykillinn að því að búa til nýjan miðbæ sem heppnast vel svarar Sigurður að horfa verði á vel heppnaða miðbæi og skoða af hverju þeir virki svona vel. "Maður verður að spyrja sig af hverju til að mynda Laugavegurinn og Strandgatan í Hafnarfirði virki svona vel. Lykillinn að því, þegar byggja á nýjan miðbæ, er að taka upp þetta gamla góða sem virkar. Það eru engar töfralausnir," segir hann.
Uppbrotnari hús
Sigurður bendir jafnframt á að skipulag Bjarkarholtsins sé til að mynda hugsað út frá því sem þekkist í gömlum miðbæjum. Fjölbýlishús, sem þar er gert ráð fyrir að verði byggð, verði brotin upp," en ekki þessar dæmigerðu svalagangablokkir," eins og hann orðar það.
"Við viljum uppbrotnari hús, þriggja til fjögurra hæða hús sem eru ekki þessi týpísku fjölbýli. Húsunum verður stungið niður beggja megin Bjarkarholtsins þannig að húsgaflarnir nái nánast alveg út að götunum þannig að upplifunin verði dálítið áþekk gömlu götunum með stakstæðu húsunum," segir Sigurður.
Breiðgata með trjágöngum
Þá er markmiðið að styrkja götumynd í Þverholtinu með því að byggja fjölbýlishús nær götunni norðanmegin og að planta trjágróðri sitt hvorum megin við götuna eins og þegar hefur verið gert í hluta hennar. Þannig verði mynduð nokkurs konar trjágöng eftir allri götunni.
"Þverholtið gæti verið eins konar breiðgata frá miðbænum í átt að sjónum," segir Sigurður.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.