mán. 19.1.2009
Skemmtilegar fréttir úr Mosfellsbænum
Íþróttamenn Mosfellsbæjar
Tveir golfíþróttamenn, Nína Björk Geirsdóttir og Kristján Þór Einarsson, bæði úr Golfklúbbnum Kili í Mosfellsbæ, voru á sunnudaginn valin íþróttakona og íþróttamaður ársins 2008 í Mosfellsbæ. Íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar velur verðlaunahafa eftir tilnefningar frá íþróttafélögum í Mosfellsbæ.
Í umsögn nefndarinnar segir um Nínu Björk:
"Nína hefur verið einn sigursælasti kvennkylfingur landsins seinustu ár. Nína varð klúbbmeistari Kjalar 2008 þar sem hún setti vallarmet. Einnig endaði hún í öðru sæti á Íslandsmótinu í höggleik eftir æsispennadi keppni þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en eftir fimm holu bráðabana. Nína lék stórt hlutverk í kvennasveit Golfklúbbs Kjalar í sveitakeppni golfsambandsins, en sveitin endaði í 3ja sæti."
Í umsögn nefndarinnar segir um Kristján Þór:
"Kristján keppti fyrir Íslands hönd á Evrópumótinu í sumar þar sem Kristján lék gott golf. Hann lék einnig á heimsmeistaramótinu í Ástralíu og átti góða spretti þar. Stærsti sigur Kristjáns á árinu var þegar hann landaði Íslandmeistaratitlinum í höggleik á eftirminnilegan hátt. Kristján var einn af lykilmönnum silfurliðs Kjalar í Sveitakeppni Golfsambands Íslands . Kristján endaði í öðru sæti á stigalista Kaupþingsmótaraðarinnar og þykir það mikið afrek fyrir svo ungan leikmann."
Hugmyndasamkeppni um ævintýragarð í Mosfellsbæ
Mosfellsbær efnir til hugmyndasamkeppni um hönnun á ævintýragarði fyrir alla fjölskylduna í Ullarnesbrekkum í Mosfellsbæ.
Markmið hugmyndasamkeppninnar er að fá fram raunhæfar og spennandi tillögur um hönnun og innihald ævintýragarðs.
Ævintýragarðurinn skal nýtast allri fjölskyldunni til fjölbreyttrar útvistar og ánægju allt árið um kring. Aðgangur að svæðinu skal vera öllum opinn og ókeypis.
Verðlaunafé nemur alls 4 milljónum króna.
Keppnislýsing verður látin í té endurgjaldslaust frá og með 19. janúar á skrifstofu Arkitektafélags Íslands. Keppnislýsinguna er einnig að finna á vefsíðu Arkitektafélagsins, ai.is og vefsíðu Mosfellsbæjar,www.mos.is.
Keppendur skrá sig til þátttöku á skrifstofu Arkitektafélags Íslands frá og með 19. janúar og fá þar með aðgang að öðrum keppnisgögnum gegn greiðslu endurkræfs skráningargjalds að upphæð kr. 10.000.
Skilafrestur tillagna er 1. apríl 2009. Nánar á mos.is
Mosfellingur ársins 2008
Mosfellingur ársins 2008 er athafnamaðurinn og hóteleigandinn Albert Sigurður Rútsson. Á árinu opnaði Albert glæsilegt hótel í Mosfellsbæ, Hótel Laxnes. Alli Rúts, eins og hann er oftast kallaður er landskunnur skemmtikraftur og rak á árum áður eina þekktustu bílasölu landsins. Hótel Laxnes er með glæsilegri byggingum í Mosfellsbæ en hótelið opnaði í byrjun septembermánaðar. Hótelið er búið 25 herbergjum og getur tekið á móti allt að 50 næturgestum. Það var Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings sem afhenti Alberti viðurkenninguna. Þetta kemur fram í síðasta tbl. Mosfellings.
Hér til hliðar má sjá slóð á blaðið og lesa þar að venju fjölda frétta úr Mosfellsbænum.

Athugasemdir
Það er ekkert lítið um að vera hjá ykkur í Mosó. Ekki slæmt að hafa Alla Rúts á svæðinu. Ætli Narfi sé þá ekki í gestamóttökunni. Hann vann alltaf með Alla á bílasölunni. Keypti nokkra bíla af þeim félögum í fornöld.
Dunni, 19.1.2009 kl. 22:47
Gott að fá svona jákvæðar, uppbyggilegar og skemmtilegar fréttir Kalli minn mitt í öllum hrunadansinum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.1.2009 kl. 09:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.