Lítil saga um Gildruna og Sigstein gamla á Blikastöðum

Árið 1991 hringdi ég í Sigstein Pálsson bónda á Blikastöðum og óskaði eftir fundi með honum. Hann spurði mig hvert erindið væri, ég sagði honum að það væri áhugi minn og félaga minna í hljómsveitinni Gildrunni, að fá hjá honum leigða aðstöðu fyrir hljómsveitina í gamla fjósinu.

Sigsteinn tók erindi mínu vel og bað mig að hitta sig á heimili sínu. Þangað fór ég nokkrum dögum síðar og voru allar móttökur einhvernvegin svo virðulegar og vinalegar. Helga Magnúsdóttir eiginkona Sigsteins var búin að leggja bakkelsi á borð og nú var ekkert að vanbúnaði að fundurinn hæfist.

Helga heitin og pabbi minn störfuðu heilmikið saman í bæjarmálum Mosfellssveitar á sínum tíma og man ég oft eftir því sem barn og unglingur að hafa heyrt pabba tala um þeirra góða samstarf. Þarna hitti ég þessa konu og Sigstein í fyrsta skipti sem fullorðin maður og þarna var tekið á móti mér sem fullorðnum manni.

Eftir að hafa gætt mér á dýrindis bakkelsi sagði ég Sigsteini að við félagar í Gildrunni hefðum haft augastað á húsnæði í gamla fjósinu á Blikastöðum. Sigsteinn tók vel í erindið en sagði mér að koma síðar í vikunni og skoða aðstæður betur. Ég gerði það og leyst vel á, reyndar var frekar kalt inni í húsnæðinu en ég hugsaði með mér að það væri auðvelt að bjarga því með rafmagnsofni.

Sigsteinn

Sigsteinn þegar hann fagnaði aldarafmæli sínu í Hlégarði árið 2005 ásamt fjölda góðra gesta.

Að lokinni þessari skoðunarferð spurði Sigsteinn mig hvort ég væri ákveðinn að taka þetta pláss og ég svaraði rakleiðis að það væri engin spurning. Hann spurði mig þá hvort við réðum við húsaleiguna sem hann setti upp og ég sagði að það væri lítið mál, enda var hún sanngjörn í meiralagi.

Sigsteinn sagðist tilbúinn að leigja okkur plássið og sagðist myndu hringja í mig þegar hann gæti afhent það. Rúmlega mánuði síðar hringdi Sigsteinn í mig og bað mig um að koma á Blikastaði, nú væri hann tilbúinn að afhenda okkur húsnæðið til leigu. Ég fór með gamla manninum til að skoða plássið sem ég hafði gert mánuði áður og verið alsæll með þá.

Ég gersamlega missti andlitið á þessum tímapunkti. Hann var búinn að láta leggja og steypa nýtt gólf, leggja nýtt rafmagn og hita og skipta um gler og glugga og útihurð. Að þessari skoðunarferð lokinni rétti hann mér lykilinn af þessu 360 fermetra húsnæði og óskaði eftir að greiðslan fyrir leiguna yrði lögð inn á reikning hans mánaðarlega og með þeim orðum kvaddi hann mig.

Ég hringdi í strákana og sagði þeim að koma að skoða nýja æfingarhúsnæði okkar, þeir komu um hæl og misstu eins og allir aðrir sem síðar áttu eftir að sjá aðstöðu okkar málið um stund. Þetta var flottasta og stærsta æfingahúsnæði sem nokkur hljómsveit gat hugsað sér. Það var ekki óalgengt að hljómsveitir bæðu okkur um að fá að æfa hjá okkur ef eitthvað sérstakt stóð til og oftast reyndum við að verða við þeirri bón.

Pelican

Gömlu félagarnir úr Pelican á æfingu á Blikastöðum. Frá vinstri: Björgvin Gíslason, Pétur Kristjánsson, Jón Ólafsson, Sigurður Reynisson og Sigurgeir Sigmundsson.

Pel Gil

Hljómsveitirnar saman komnar á Blikastöðum.

Á Blikastöðum átti Gildran fjögur góð ár og samdi þar m.a. sína vinsælustu plötu. Seinna fékk bróðir minn Björgvin húsnæði við hlið okkur fyrir orgelverkstæði sitt og tók svo við okkar húsnæði einnig fyrir starfsemi sína þegar við fórum þaðan.

Í minningu minni eru Blikastaðir mér einstakur staður, þar eignaðist ég einn af mínum bestu vinum, Helga Pálsson, þegar við unnum saman við að byggja sumarbústaði, þar átti Gildran góð ár og þar vann ég um tíma við orgelsmíði hjá Bögga bróðir.

Á dögunum var haldið jafnréttisþing í Mosfellsbæ sem ég skrifaði um á bloggsíðu minni nýlega. Þingið var haldið á afmælisdegi Helgu Magnúsdóttur frá Blikastöðum og verður nú um ókomna framtíð gert á þeim degi. Helga lést árið 1999.

Sigsteinn Pálsson býr nú í hárri elli á dvalarheimili aldraðra í Mosfellsbæ. Sigsteinn er elsti núlifandi karlmaður á Íslandi fæddur 16. febrúar 1905 og er því 103 ára.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: gudni.is

Skemmtileg saga hjá þér Kalli.

gudni.is, 4.10.2008 kl. 08:58

2 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Skemmtilegg saga og gaman ad tví tegar handabandid var í gildi.

Góda helgi

Gudrún Hauksdótttir, 4.10.2008 kl. 15:15

3 Smámynd: HP Foss

Já, ég get tekið í sama streng,  ég vann að viðhaldi hjá Sigsteini hluta úr sumri fyrir mörgum árum, eða sumarið  1990. Var þar í fæði og tók bókstaflega ástfóstri við Helgu. Hún var þessi sérstaklega góða gamla kona og svona eftir á séð , þá sé ég að hún hefur haft sérlega gott lag á ungu fólki. Í hverju hádegi vorum við´Helga í hrókasamræðum, hún bryddaði upp á umræðuefninu, oft tengt sveitinni. Við spáðum ekkert í hvort Sigsteinn gamli var að hlusta fréttirnar og eftir því sem við töluðum meira, hækkaði Sigsteinn í útvarpinu. Var það yfirleitt komið í mikinn styrk þegar við Helga gáfum okkur.

Allt var upp á punkt og prik hjá Sigsteini, hann greiddi mér samviskusamlega kaupið á hverjum föstudegi, skrifaði ávísun á gamla skrifborðinu sínu, sem Sveinn á Fossi gerði upp fáum árum áður. Hann var ánægður með okkur Fossmenn, enda Sveinn hinn mesti maður og ég gat ekki annað en reynt að sýna á mér mínar skástu hliðar í viðkynningu við þetta sómafólk.

1. apríl, 1989 hóf ég störf á Blikastöðum hjá Hrólfssonum við sumarbústaðasmíð. Þennan sama dag hóf þar störf  Karl nokkur. Ég heyrði þennan fyrsta morgun á tal þeirra bræðra, þeir ræddu um að best færi á því að þeir Helgi og Karl ynnu saman .
Ég var kvíðinn. Ég hafði aldrei áður þekkt mann með þessu nafni, Karl.

HP Foss, 4.10.2008 kl. 16:14

4 Smámynd: Laugheiður Gunnarsdóttir

það var gott að vinna hjá Helgu og Sigursteini eins og þau ættu í manni hvert bein

Laugheiður Gunnarsdóttir, 4.10.2008 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband