Ferðalok - Tvær stjörnur, eða hvað?

 Ferðalok ( Jónas Hallgrímsson)

Ástarstjörnu
yfir Hraundranga
skýla næturský.
Hló hún á himni,
hryggur þráir
sveinn í djúpum dali.

 

Veit ég, hvar von öll
og veröld mín
glædd er guðs loga.
Hlekki brýt ég hugar
og heilum mér
fleygi faðm þinn í.

 

Sökkvi eg mér og sé ég
í sálu þér
og lífi þínu lifi.
Andartak sérhvert,
sem ann þér guð,
finn ég í heitu hjarta.

 

Tíndum við á fjalli,
tvö vorum saman,
blóm í hárri hlíð.
Knýtti ég kerfi
og í kjöltu þér
lagði ljúfar gjafir.

 

Hlóðstu mér að höfði
hringum ilmandi
bjartra blágrasa,
einn af öðrum,
og að öllu dáðist,
og greipst þá aftur af.

 

Hlógum við á heiði,
himinn glaðnaði
fagur á fjalla brún.
Alls yndi
þótti mér ekki vera
utan voru lífi lifa.

 

Grétu þá í lautu
góðir blómálfar,
skilnað okkarn skildu.
Dögg það við hugðum,
og dropa kalda
kysstum úr krossgrasi.

 

Hélt eg þér á hesti
í hörðum straumi,
og fann til fullnustu,
blómknapp þann gæti
eg borið og varið
öll yfir æviskeið.

 

Greiddi eg þér lokka
við Galtará
vel og vandlega.
Brosa blómvarir,
blika sjónstjörnur,
roðnar heitur hlýr.

 

Fjær er nú fagurri
fylgd þinni
sveinn í djúpum dali.
Ástarstjarna
yfir Hraundranga
skín á bak við ský.

 

Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg.
En anda, sem unnast,
fær aldregi
eilífð að skilið.

 

Tvær stjörnur (Megas)

Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér
en ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer
en ég vona bara að hann hugsi svolítið hlýlega til mín
og leiði mig á endanum aftur til þín.

Ég gaf þér forðum keðju úr gulli um hálsinn þinn
svo gleymdir þú mér ekki í dagsins amstri nokkurt sinn
í augunum þínum svörtu horfði ég á sjálfan mig um hríð
og ég vonaði að ég fengi bara að vera þar alla tíð.

Það er margt sem angrar, en ekki er það þó biðin
því ég sé það fyrst á rykinu hve langur tími er liðinn
og ég skrifa þar eitthvað, með fingrinum, sem skiptir öllu máli
því að nóttin mín er dimm og ein, og dagurinn á báli.

Já, og andlitið þitt málað, hve ég man það alltaf skýrt
augnlínur og bleikar varir, brosið svo hýrt
jú, ég veit vel að ókeypis er allt það sem er best,
en svo þarf ég að greiða dýru verði það sem er verst.

Ég sakna þín í birtingu að hafa þig ekki við hlið mér
og ég sakna þín á daginn, þegar sólin brosir við mér
og ég sakna þín á kvöldin þegar dimman dettur á
en ég sakna þín mest á nóttunni, þegar svipirnir fara á stjá.

Svo lít ég upp og sé við erum saman þarna tvær
stjörnur á blárri festingunni sem færast nær og nær
ég man þig þegar augu mín eru opin hverja stund
en þegar ég nú legg þau aftur fer ég á þinn fund


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: HP Foss

Komast hvorugir með tærnar þar sem Bubbi hefur hælana, þegar kemur að ljóðagerð.

"Mér hlakkar rosalega til" sagði Bubbi í morgunútvarpi Rásar 2, er á leiðinni í lax þann 25. nk.

Snillingur!

HP Foss, 20.6.2008 kl. 09:28

2 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Takk fyrir, þetta er stjörnugjöf upp á 5

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 20.6.2008 kl. 21:32

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þó Jónas hafi verið góður, finnst mér "Tvær Stjörnur" Megasar, margir Jónasar.  

Halldór Egill Guðnason, 23.6.2008 kl. 04:27

4 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

kæri kalli, þetta er fallegt, ég held svo mikið upp á tekstan hans megasar.

þú sóttir á mig í nótt hérna í usa, mig dreymdi þig !

vonandi er allt í lagi hjá þér kæri bloggvinur.

knús steina

p.s. ætla nú út að skoða pentagon ! 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 23.6.2008 kl. 14:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband