17. júní í Mosfellsbæ 2008

Hátíðarhöldin í Mosfellsbæ hófust með messu í Lágafellskirkju og að henni lokinni hófst formleg dagskrá á okkar nýja og fallega miðbæjartorgi. Að lokinni dagskrá á miðbæjartorginu stormuðu allir í skrúðgöngu að okkar gamla félagsheimili, Hlégarði þar sem fram fór dagskrá sem fyrst og síðast var tileinkuð börnum. Að venju var þar einnig glæsilegt kaffihlaðborð.

Hér kemur hátíðarræðan sem ég flutti á torginu.

K. Tomm hátíð 17

 

Kæru Mosfellingar og aðrir gestir.

Fyrir hönd bæjarstjórnar Mosfellsbæjar býð ég ykkur öll hjartanlega velkomin og óska ykkur gleðilegrar þjóðhátíðar.

Að þessu sinni hefjum við hátíðarhöld okkar í fyrsta skipti á þessu  kærkomna og glæsilega torgi sem er jafnframt í raun hið fyrsta eiginlega miðbæjartorg okkar Mosfellinga. Mig rennir í grun að hér eigi um ókomna tíð eftir að verða haldnar margar ræður og skemmtanir af öllu tagi.

Þann 31. maí s.l. fór fram vígsluathöfn á torginu í blíðskapar veðri. Einnig var vígt við það tækifæri þetta útilistaverk sem ber heitið Hundraðþúsundmilljón tonn af sjóðheitu vatniog er eftir Kristin E. Hrafnsson. Einnig voru vígð við sama tækifæri tvö af okkar mörgu og upplýsandi fræðsluskiltum sem þið getið séð hér þar sem þau standa við lítinn bút sem skilinn var eftir af gamla hitaveitustokknum.

Gamli hitaveitustokkurinn var merkilegt mannvirki, ekki einungis vegna hins eiginlega notkunargildi hans. Þ.e.a.s. að flytja hundraðþúsundmilljón tonn af sjóðheitu vatni úr sveitinni okkar til höfuðborgarbúa, heldur var hann einnig einstakt samgöngumannvirki. Hann lá í gegnum mitt bæjarfélagið okkar og oftar en ekki var talað um að fara stokkinn, þegar bregða þurfti sér á milli bæja í Mosfellsbæ. Á hitaveitustokknum var hægt að hjóla og ganga allan ársins hring við kjöraðstæður, því þrátt fyrir kúpt yfirborð hans, sem þykir eflaust ekki heppilegast fyrir slíka hreyfingu, virkaði hið grófa steinda yfirborð þannig að fátítt var að mönnum skrikaði fótur. Ætli gamli góði hitaveitustokkurinn hafi ekki hreinlega verið fyrsta upphitaða samgöngumannvirki í heiminum, það mætti segja mér það.

Um þetta nýja miðbæjartorg get ég ekki látið staðar numið hér öðru vísi en að minnast á fyrirhugaða kirkjubyggingu og menningarhús henni tengdri. Bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar hafa nú um nokkurt skeið átt í viðræðum við Sóknarnefnd Lágafellssóknar um aðkomu bæjarins að byggingunni og hefur mikill og góður hugur einkennt þær viðræður. Það er von mín og trú að kirkjan og menningarhúsið verði til að efla og styrkja en frekar miðbæinn og allt okkar mannlíf hér í Mosfellsbæ.

Þann 9. ágúst síðast liðinn fögnuðum við Mosfellingar 20 ára kaupstaðarréttindum. Í tilefni þess var haldinn sérstakur hátíðarfundur bæjarstjórnar. Á þeim fundi var frú Salome Þorkelsdóttir fyrrverandi forseti alþingis gerð að heiðursborgara Mosfellsbæjar. Salome varð þá þriðji Mosfellingurinn til að hljóta þá heiðursnafnbót. Fyrr höfðu þeir Halldór Laxness og Jón M. Guðmundsson verið útnefndir heiðursborgarar. Einnig var samþykkt á þessum hátíðarfundi að útbúa ævintýragarð í Ullarnesbrekkum á milli Köldukvíslar og Varmár. Mikill áhugi bæjarbúa hefur reynst vera á þeim fyrirhugaða garði og sýndi það sig best í öllum þeim fjölda hugmynda sem bárust til bæjaryfirvalda um útfærslu hans.

Í hátíðarræðu minni fyrir tveimur árum kom ég inn á fegurð sveitarinnar okkar og mikilvægi þess að við skynjuðum hana og bærum virðingu fyrir henni. Á dögunum átti ég þess kost að fljúga yfir bæjarfélagið í lágflugi. Þá varð ég þess var meir en nokkru sinni fyrr hversu sveitin er gróin, græn og falleg. Dugnaður bæjarbúa við að fegra umhverfi sitt og mikið og óeigingjarnt starf skógræktarfólks hefur gjörbreytt allri ásýnd bæjarfélagsins á ótrúlega skömmum tíma. Um þessar mundir standa yfir heilmiklar byggingaframkvæmdir í þremur hverfum og þesskonar framkvæmdum fylgir alltaf óhjákvæmilega rask. Á slíkum stundum er mikilvægt að sýna hvert öðru tillitsemi og þá er gott að hafa það hugfast að ekki líður á löngu þar til hverfin verða orðin gróin, græn og falleg.

Kæru Mosfellingar og aðrir gestir ég óska ykkur enn og aftur gleðilegrar hátíðar og vona að við eigum öll eftir að eiga hér saman yndislegan dag.

Ég ætla að enda þetta á fallegu kvæði eftir Grím Thomsen sem heitir Landslag.

 

Heyrið vella á heiðum hveri,
heyrið álftir syngja í veri:
   Íslands er það lag.
Heyrið fljót á flúðum duna,
foss í klettaskorum bruna:
   Íslands er það lag.

Eða fugl í eyjum kvaka,
undir klöpp og skútar taka:
   Íslands er það lag.
Heyrið brim á björgum svarra,
bylja þjóta svipi snarra:
   Íslands er það lag.

Og í sjálfs þín brjósti bundnar
blunda raddir náttúrunnar:
   Íslands eigið lag.
Innst í þínum eigin barmi,
eins í gleði og eins í harmi
   ymur Íslands lag.

Ég þakka fyrir mig.

17. jún 2008

17. jún 2008 1


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Sendi þjóðhátíðarkveðju í sveitina mína

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 17.6.2008 kl. 19:12

2 Smámynd: gudni.is

Glæsileg hátíðarræða hjá þér Kalli. Ég óska þér og öllum öðrum Mosfellingum til hamingju með þjóðhátíðardaginn í dag.

Mosókveðja - Guðni

gudni.is, 17.6.2008 kl. 20:49

3 Smámynd: HP Foss

Hallasteinn hlýtur að vera sáttur við þessi.

HP Foss, 17.6.2008 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband