sun. 1.6.2008
Þegar ég seldi UAZ, þá glæsi bifreið
Ég hef í gegnum árin nokkrum sinnum fengist við sölumennsku og alltaf haft jafn gaman af. Hápunkturinn hjá mér í því starfi var þegar Halldór, heitinn, Snorrason stofnandi Aðalbílasölunnar réði mig til starfa á sinni gömlu og þekktu bílasölu.
Sérstaklega er mér minnisstætt atvinnu viðtalið sem ég átti við Halldór og margar þær spurningar sem hann lagði fyrir mig, rokkarann, með hárið niður á mitt bak. Ein þeirra var t.d. sú afhverju ég væri með svona sítt hár og hvort til greina kæmi hjá mér að láta klippa það. Ég sagði strax við Halldór að það kæmi ekki til greina. Hann sagði að loknu viðtalinu við mig að hann myndi hringja í mig og láta mig vita á hvorn veginn sem færi varðandi umsókn mína um starf hjá honum. Nokkru síðar hringdi Halldór í mig og bauð mér að koma til reynslu og mikið var ég spenntur að fá að spreyta mig hjá þeim gamla, ég sem var og er bókstaflega forfallinn bíladellu karl.
Við Aðalbílasöluna starfaði ég í rúm tvö ár og mikið óskaplega var það ógleymanlegur og skemmtilegur tími. Halldór var sölumaður engum líkur og með ótrúlega hæfileika sem slíkur. Mannþekkjari, sálfræðingur, ótrúlega minnugur á nöfn viðskiptavina og allt sem við kom sínu starfi. Hann vissi nákvæmlega hverjir voru í kauphugleyðingum og hverjir ekki og benti mér oft á það ef honum fannst ég vera að eyða óþarfa tíma í einhverja sem voru ekki líklegir á meðan aðrir biðu.
Mér er sérstaklega minnisstætt þegar sá gamli skammaði mig fyrir eitt slíkt atvik. Þá var ég í nokkurn tíma búinn að gera allt sem í mínu valdi stóð til að koma gömlum UAZ Rússajeppa í gang með startköplum á bílasöluplaninu og ekkert gekk. Hann sagði við mig þegar ég kom inn og spurði hvort ekki væri til kaðall til að draga drusluna í gang "Kalli minn, hættu að eyða tíma í þessa vitleysu, þennan bíl selur þú ekki" Til að gera langa sögu stutta hrökk gamli Rússajeppinn ekki í gang, þrátt fyrir endalausan drátt um alla borg en mikið ósköp var Halldór stoltur af síðhærða rokkaranum þegar hann gekk frá sölusamningnum og nýi eigandinn af Rússanum dró bílinn heim til sín.
Halldór sagði við mig að honum hefði ekki þrátt fyrir langan tíma í faginu tekist að selja bíl sem þurft hefði að draga út af bílasölunni eftir marg ítrekaðar gangsetningar tilraunir.
Ekki fylgir sögunni hvort gamli Rússinn komst nokkru sinni í gang. Af þessu sölu "afreki" mínu var ég alltaf jafn stoltur og montinn. Ég vildi samt sem áður óska þess að ég ætti þennan forláta UAZ húsbíl í dag.
Á dögunum fékk ég einn besta sölumann Íslands í heimsókn, söngvarann og tónlistarmanninn góðkunna, Herbert Guðmundsson. Þvílíkur sölumaður og snillingur í faginu er maðurinn. Það rifjuðust upp fyrir mér svo margir taktar frá Halldóri gamla í þann stutta tíma sem Herbert dvaldi hjá mér.
Já fátt er skemmtilegra en að heyra góða sölumenn spreyta sig.
Athugasemdir
Ég dáðist líka að sölumanninum hér í den (líklega hefur þetta verið 1975) sem tókst að selja Volkswagen-bjölluna mína manni sem gekk í kringum bílinn og spurði: Er ekki í lagi með boddýið? um leið og hann bankaði létt með fætinum í frambrettið og fóturinn fór í gegnum brettið. Ég veit ekki enn hvernig hann fór að þessu en datt helst í hug dáleiðsla.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 21:53
Góð saga Kalli -- og það eru fleiri en þú sem gætu hugsað sér að eiga UAZ- húsbíl nú til dags.
Sigurður Hreiðar, 2.6.2008 kl. 10:47
Hann bankaði uppá hjá félaga mínum og sagði " Bleeeeesssaður, þú dast í lukkupottinn" Nú af hverju? spurði þá félagi minn. " Nú, ég er kominn til þín" " Skulda ég þér eitthvað" spurði félagi minn Herbert og koolið fór dálítið af Hebba sem sagði: " Eee... nei" "Gott, vertu þá blessaður" sagði minn maður og skellti hurðinni.
Synir hans höfðu staðið á bak við pabba sinn, stýfir af spenningi yfir komu Herberts Guðmundssonar á tröppurnar. " Þetta var nú ljóti vitleysingurinn" sagði hann. "Hva, hentirðu Herbert út" spurðu þeir pabba sinn, forviða af undrun og hneykslan. " Herbert hver?"Sagði siggi og rölti aftur inn í stofu án þess að hafa minnstu hugmynd um hver þetta var.
HP Foss, 2.6.2008 kl. 13:47
Baldursheimur
steinimagg, 5.6.2008 kl. 21:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.