fös. 25.4.2008
Látum lofta bloggarar
Ekki það að ég sé sérstakur fagmaður í uppsetningu, það er öðru nær. þetta á bara að vera góðlátleg ábending til félaga minna í bloggheimum. Ábending sem góður vinur minn og fagmaður mikill ráðlagði mér fyrir mörgum árum þegar ég fékkst við blaðamennsku.
Láta lofta, láta lofta, það er málið. þá er textinn auðlesanlegri og mun líklegra að hann fái lesningu.
Eins og þið sjáið í textanum hér að neðan að þá loftar hann ekkert og virkar fyrir vikið hreinlega sem ein klessa.
Fjölærar lúpínutegundir hafa verið notaðar sem áburðargjafar í skógrækt erlendis (Gadgil 1971; Mikola o.fl. 1983; Sprent og Sprent 1990). Lúpína hefur, einkum á síðari árum, verið notuð sem hjálpartegund í trjárækt hér á landi. Lítið er þó til af gögnum sem sýna áhrif lúpínunnar á trjáplönturnar. Athuganir Þrastar Eysteinssonar og nemenda hans á vexti sitkagrenis með og án lúpínu sýndu þó að grenið óx yfirleitt betur þar sem lúpína er allsráðandi í undirgróðri en þar sem áhrifa hennar gætir ekki (Þröstur Eysteinsson 1988). Birki er mikið notað í landgræðsluskógrækt og hefur verið önnur algengasta tegundin í íslenskri skógrækt síðustu 50 ár (Jón Geir Pétursson 1999). Birkifræ eru smá og plönturnar eru viðkvæmar fyrir samkeppni frá öðrum gróðri fyrstu árin (Miles og Kinnaird 1979; Pigott 1983; Sigurður H. Magnússon og Borgþór Magnússon 1990; Ása L. Aradóttir 1991; Guðmundur Halldórsson o.fl. 1999). Því gæti birki átt erfitt með að komast á legg í lúpínubreiðum, einkum upp af fræi. Ungar trjáplöntur eiga að öllum líkindum erfiðara uppdráttar í lúpínubreiðum eftir því sem lúpínan er þéttari og hærri. Á fyrsta ári mynda lúpínuplönturnar einn stöngul og ná um 10 cm hæð en á þriðja ári hafa þær myndað 3-5 stöngla og ná um 60 cm hæð. Plönturnar halda svo áfram að fjölga stönglum og stækka framan af ævinni og getur fullvaxin, meðalstór planta haft 30 stöngla og náð yfir 120 cm hæð í lok sumars (Borgþór Magnússon o.fl. 1995; Borgþór Magnússon 1999). Því hækka lúpínubreiður og þéttast meðan plönturnar í þeim eru að ná fullum þroska. Einnig er stærð lúpínuplantna og þéttleiki lúpínubreiðanna háð skilyrðum á vaxtarstað (Borgþór Magnússon o.fl. 1995). Áhrif lúpínunnar á trjáplönturnar hljóta því að vera háð aldri lúpínunnar og vaxtarskilyrðum. Lúpínan er einnig viðkvæm fyrir slætti á ákveðnu þroskastigi og hafa tilraunir sýnt að sláttur á tímabilinu frá miðjum júní og fram yfir miðjan júlí veldur miklum afföllum á lúpínuplöntum og dregur mjög úr stönglafjölda og hæð þeirra plantna sem eftir lifa (Bjarni Diðrik Sigurðsson o.fl. 1995; Borgþór Magnússon 1999). Þetta bendir til þess að nota megi slátt til að draga kraft úr lúpínunni og þannig auka uppvaxtarlíkur birkis í lúpínubreiðum. Árið 1995 hófust rannsóknir er miðuðu að því að kanna áhrif lúpínu á landnám birkis og finna hagkvæmar leiðir til að koma birki á legg í lúpínubreiðum. Verkefnið var unnið í samstarfi Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá, Landgræðslu ríkisins og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Rannsóknirnar fólust m.a. í tilraunum þar sem eftirfarandi vinnutilgátur voru prófaðar: Líkur á að birki komist á legg eru meiri eftir því sem lúpínubreiður eru gisnari. Þar sem þétt-leiki lúpínubreiðanna ræðst m.a. af aldri þeirra og vaxtarskilyrðum eru meiri líkur á að birki komist á legg eftir því sem lúpínan er yngri en minni eftir því sem vaxtarskilyrði henta lúpínunni betur. Hægt er að auka líkur á að birki komist á legg í lúpínubreiðum með því að slá lúpínuna, plægja hana niður eða opna breiðurnar á annan hátt. Hér á eftir verður greint frekar frá tilraununum og nokkrum helstu niðurstöðum þeirra.
Athugasemdir
Ertu að vonast til að einhver nenni að lesa þetta?


Halla Rut , 26.4.2008 kl. 00:44
Áhyggjur forsetans eru eðlilegar þegar haft er í huga hið hrjóstruga land sem Mosfellsbær hefur til afnota. Misvel hefur tekist til við uppbyggingu þar á bæ, til eru svæði sem eru til sóma, t.d. Tangarnir. Afskaplega vel heppnað skipulag þar sem hvert hús fær notið sýn.
Loft.
Svo hefur komið hálf metnaðarlaust tímabil hjá ykkur þegar svæðið frá Reykjalundarveginum upp að Reykjum var skipulagt. Það svæði hefði með réttu átt að vera undir geymslusvæði fyrir ýmiskonar dót sem alltaf fellur til í hverju bæjarfélagi.
Loft
Þar hefði mátt einnig mátt hafa Lúpínumóa, enda ekki um spanderingu á landi að ræða.
Loft
Sem betur fer horfir til betri tíma varðandi byggingasvæði þar sem hið stórfallega hverfi undir Helgafellinu er nú í fæðingu þar sem hver lóð snýr á móti sól.
Loft.
Þar er ræktað land, frjótt og fagurt, sem ekki hefur þurft á erlendum plöntutegundum að halda.
Loft
Það er nefnilega þannig að við verðum að hafa í huga að það er ekki einungis útlendar verksmiðjur sem ógna náttúru Íslands heldur einnig erlendir unglingar í gúmmískóm. Já, í gúmmískóm. Misvel upplýstir eru þeir sendir út um víðan völl með fræ í poka, kastandi til hægri og vinstri undir verksstjórn manna sem í ólund sinni telja alla rækt til bóta. Þar með talda órækt.
Loft.
Nei, látum ekki hrekja íslenskar plöntur af jarðnæði sínu af frekum innfluttum jurtum sem enga miskunn sýna.
HP Foss, 26.4.2008 kl. 14:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.