þri. 1.4.2008
Hvað fékkstu mikið í peningum?
Nú er tími ferminga og við strunsum öll sem eitt í veislurnar.
"Hvað fékkstu mikið í peningum?" var að sjálfsögðu það fyrsta sem skólafélagarnir spurðu mann að eftir fermingarveisluna.
Ég man ekki hvað ég fékk mikið í peningum en það dugði þó fyrir Kasúka, sambyggðu útvarps- og segulbandstæki og nokkrum óáteknum segulbandsspólum. Frá mömmu og pabba mátti ég velja á milli þess að fara með þeim til Ísrael eða að fá trommusett. Auðvitað valdi ég trommusettið frekar og á mjög sennilega aldrei eftir að fara til fyrirheitna landsins fyrir vikið. Ég fékk forláta Ajax trommusett sem að kennarinn minn frábæri og vinur Reynir Sigurðsson fann fyrir foreldra mína og gerði upp. Myndin af mér er við þetta fyrsta trommusett mitt.
Frá móðursystkinum var það Parker pennasett áritað með nafninu mínu, ég vissi það svo sem fyrirfram hvað ég fengi frá þeim, það var reglan á þeim bænum. Ég vissi líka hvað ég myndi fá frá Klöru Klængs, það var Biblían. Klara gaf okkur systkinunum alltaf jólagjafir fram að fermingu og svo kom Biblían. Þetta voru í raun þær gjafir sem ég var hvað minnst spenntur fyrir að fá enda vissi ég hvað mín beið.
En viti menn í dag held ég svo mikið upp á þessar gjafir. Ragnar heitinn Lár móðurbróðir teiknaði kort til mín með mynd af Bogga blaðamanni, teiknimyndafígúru sinni sem var þjóðhetja á þessum tíma. Ég geymi kortið alltaf í Biblíunni frá Klöru. Kasúka-tækið sem ég keypti fyrir alla peningana er því miður ekki lengur til en Biblían og pennasettið er á sínum stað. Ajax trommusettið frá mömmu og pabba hefur vaxið og dafnað í margskonar trommusett af öllum stærðum og gerðum í gegnum árin.
Hvað fékkst þú mikið í peningum?
Athugasemdir
Ekki fannst mér nú mikið varið í trommusettið við hliðina á útvarpinu með innbyggða segulbandstækinu, þetta var bara flottasta græjan sem ég hafði séð. Það tók mig nokkra mánuði að fatta hvað trommusettið var mikil snilli.
steinimagg, 2.4.2008 kl. 16:45
Sæl Anna. Á maður að segja til lukku við fólk sem sleppur við fermingarveislur? ég veit það ekki.
Sæll frændi. Ég man eftir hrifningu þinni á Kasúka tækinu. Þú ert alltaf sami tækjadellukallinn og virðist lítið skána með aldrinum.
Sæl Hjördís. Auðvitað hafðir þú vit á því að bregða þér í ferðalag. Ég vildi frekar trommusett. Svona getur það verið.
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Tungunni.
Karl Tómasson, 2.4.2008 kl. 18:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.