Var Trabantinn eftir allt meistaraverk?

Af fáum bílum hefur verið gert jafn mikið grín og Trabant. Stórfróðlegur þáttur í sjónvarpinu í gær vakti upp ýmsar spurningar um sögu þess bíls og ágæti hans.

Góður bloggvinur minn og sveitungi og einn fróðasti Íslendingur um bíla, Sigurður Hreiðar, skrifaði fyrir nokkrum árum stórmerka bók um sögu bílsins á Íslandi og væri gaman að heyra frá honum um þennan þátt og hvort Trabbinn hafi í raun verið meistaraverk og jafnvel langt á undan sinni samtíð.

Ein af mínum fyrstu bloggfærslum var um Trabant og hversu hamingjusamur ég var þegar ég eignaðist hann. Sennilega hef ég aldrei verið ánægðari þegar ég hef eignast nýjan bíl eins og þegar ég eignaðist Trabbann minn og er ég búinn að eiga þá nokkra síðan.

Ný skoðanakönnun

Ég vek athygli á nýrri skoðanakönnun um besta bílinn hér til hliðar á síðu minni. Það skal tekið fram að úrtakið samanstendur af bílum sem ég hef átt í gegnum tíðina og því bæti ég við möguleikanum á einhverju öðru neðst í skoðanakönnuninni.

Ekki ætla ég að vera með áróður á kjörstað frekar en fyrri daginn en ekki er ég í nokkrum vafa um hvað stendur uppúr og tel ég mig nú hafa reynt ýmislegt í bílamálum um dagana. Allt hjal um verð er ekki hlustað á í þessari könnun, þetta snýst um að allt sé tekið með í reikninginn.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég var einn af þeim sem gerði grín af þessum bílum...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 18.1.2008 kl. 09:20

2 Smámynd: HP Foss

Varla hægt annað en brosa af þessum bílum, enda held ég menn hafi keypt þetta með húmorinn í farteskinu, voru fullkollega meðvitaðir um að tæplega voru þeir að kaupa bíl.

HP Foss, 18.1.2008 kl. 12:25

3 Smámynd: Kjartan Pálmarsson

Trabbinn ! Alltaf flottur

Kjartan Pálmarsson, 18.1.2008 kl. 15:45

4 Smámynd: steinimagg

Já ég er nú bara hálf orðlaus, snilldar bíll. 601 Trabbinn var framleiddur óbreittur í 30 ár og geri aðrir betur. Minningarnar eru að hrúast upp og eru allar magnaðar. Allar ferðirnar sem ég fékk með þér voru skemmtilegar og annsi margar ógleymanlegar. Það eru bara þrír bílar sem koma reglulega upp í mínum haus og eru ógleymanlegir en það eru Trabbarnir þínir og Bjúkkinn minn.  Þegar við vorum aðeinns yngri og bjuggum í Markholtinu voru tveir Trabbar þar. Níels á vorboðanum og Pétur á hundraðinu. Ekki brást það að þegar Pétur setti í gang eftir veturinn var farið að vora, og hann stoppaði ekki fyrr en næsta haust. Annað mál var með Pétur, hann stoppaði ekki allt árið. Eitt sinn þegar Pétur á hundraðinu var á leið suður til Rekjavíkur lenti hann í því að klessa aftan á stærðar vörubíl. Pétur kastaðist á rúðuna og mælaborðið og marðist hressilega, hann var heppinn að brotna ekki. Pétur var fljótur að jafna sig að mestu á slysstað og setti Trabbann í gang og brunaði heim, vörubíllinn var alvarlega skemmdur og  dreginn af slysstað.

steinimagg, 18.1.2008 kl. 23:09

5 Smámynd: HP Foss

Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi, slasaðist í dag er sæti hennar losnaði í flugvél á milli Reykjavíkur og Egilsstaða, í aðflugi til Egilsstaða. Fékk hún vont höfuðhögg og var flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur, en heilsast vel miðað við allt, ef marka má heimildir.

HP Foss, 19.1.2008 kl. 13:01

6 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Reyndar er þetta bara upptalning á framleiðendum sem hafa framleitt margar gerðir bíla - þannig að spurningin ætti kannski frekar að vera hver er besti bílaframleiðandinn

Markús frá Djúpalæk, 19.1.2008 kl. 13:11

7 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Já, Trabbinn -- hann var kannski skólabókardæmi um hve einfaldleikinn getur stundum komið sér vel. Eini bíllinn sem hefur getað sagt nafnið sitt!

Tvennum sögum fer af áreiðanleika hans og ágæti. Sjálfur slapp ég við að eiga svona bíl en sonur minn fékk nýjan Trabant úr síðustu sendingunni sem kom af honum hingað til lands. Glaður var hann þá (það er að segja þegar hann hafði af að koma honum upp á götu frá Rauðagerðinu, en til þess þurfti nýi bíllinn fyrst að fara í viðgerð) en ennþá glaðari var hann rúmlega hálfu ári síðar þegar honum tókst að selja hann aftur eftir vægast sagt stormasama sambúð.

En það má margt segja um Trabant bæði gott og slæmt, þó nú tíðkist að hefja hann til skýjanna. Etv. tek ég það upp á mínu bloggi e-n tíma síðar. Læt þetta duga núna en minni á að þegar innrásin til Vesturlanda koma austan yfir járntjaldið sáluga var hún ekki á skriðdrekum og orrustuflugvélum, eins og kommagrýlan hafði löngum spáð -- hún kom á Trabant!

Sigurður Hreiðar, 19.1.2008 kl. 14:03

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þegar fréttist um að gos hefði hafist í Heklu rétt upp úr hádegi þann 17. ágúst 1980 var Mosi ásamt spússu sinni staddur í Vík í Mýrdal. Þar var hádegishlé hóps á vegum Ferðafélags Íslands. Vorum við á síðasta degi ævintýralegrar ferðar hringinn í kringum Vatnajökul og voru tvær litlar fjallarútur fararkostirnir. Annar bílsstjórinn var á vakt og hlustaði á Gufunesradíó sem þá var aðalfjölmiðill þeirra sem voru á ferðinni fyrir utan Ríkisútvarpsins. Allt í einu heyrir hann á öldum ljósvakans frá flugstjóra hjá Flugleiðum að hann tilkynnti mikla bólstramyndun með stefnu í átt að hálendinu, sennilega Heklu fremur en Kötlu. Nokkrum mínútum síðar var dagskrá útvarpsins rofin og greint frá jarðskjálftahrinu og sennilegt væri aðdraga eitthvað til tíðinda við Heklu.

Eðlilega var ferðahópurinn í Vík mjög spenntur yfir þessum nýjustu fregnum. Ákveðið var að leggja lykkju á leiðina og aka sem leið lág beint í áttina að Heklu framhjá Gunnarsholti og inn að Næfurholti. Á Hólum næsta bæ við Næfurholt var fólkið að keppast í heyskap, snúa og þurrka hey og yfir drundi í eldfjallinu. Það var kostuleg sjón og sýnir æðruleysið hve við Íslendingar erum tengdir landinu okkar og látum helst ekkert trufla okkur! Það var tilkomumikil sjón frá brúnni yfir Rangá að horfa til fjallsins sem eg og spúsa mín höfðum gengið á sumarið áður. Á Rangánni flaut mikil aska og viku. Við ungu kærustupörin ákváðum að verða eftir þarna, tókum okkar hafurtask, tjald, svefnpoka og það litla sem eftir var matarkyns: ein dolla af Bíldudals grænum baunum og nokkrir tepokar. Það var allt of sumt. Í Galtalækjarskógi fundum við nokkra birkisveppi (kúalubba) og létum við það nægja sem kvöldmáltíð. 

Um kvöldið fylltist allt af bílum og fólki. Átti lögreglan fullt í fangi með að hemja óstýriláta Íslendinga sem sumir vildu jafnvel ganga á fjallið!

Við sváfum lítið um nóttina enda mátti heyra drunurnar frá fjallinu ótt og títt. Í birtingu ákváðum við að pakka pjönkum okkar saman, hituðum vatn í te og lögðum síðan af stað. Mikil var undrun okkar að af öllum þessum fjölda af bílum var ekki einn einasta að sjá! Nú voru góð ráð dýr enda átti spúsa mín far til Lúxemborgar daginn eftir! Gengum við niður Landmannaveg, framhjá Galtalæk, Leirubakka, Skarði og Skarðsfjalli án þess að nokkur bíll væri á ferðinni utan mjólkurbíl sem kom á móti okkur. Vorum við komin langleiðina niður að Pulu þegar heimsins besti bíll kom á eftir okkur og dró okkur skjótt upp þó ekki væri hraði hans mikill. Þar var bóndakona á ferð í gömlum Trabba sínum á leið til Reykjavíkur í kaupstaðaferð. Fengum við far og er okkur sérstaklega þetta ferðalag mjög minnisstætt. Síðan hefur Trabbi verið í sérstöku eftirlæti okkar enda ekki gott að segja hvenær við hefðum komist ella til Reykjavíkur! 

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 19.1.2008 kl. 14:51

9 Smámynd: Karl Tómasson

Það eru ekki margar bílvélar teknar upp með spotta eins og Arnþór talar um. Það muna flestir eftir þessum snillingum Hallsteinn og Bjúkkinn þinn var svakalegur. Það er rétt Markús þetta er í raun upptalning á bílaframleiðendum. Ég sem stóð í þeirri meiningu að þú værir aðdáandi Trabbans Sigurður Hreiðar. Takk fyrir skemmtilega sögu Mosi. HP Foss. Game over Land Rover.

Karl Tómasson, 20.1.2008 kl. 12:24

10 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Ekkert að þakka. Gleymdi aðsegja að nokkrir bílar óku framhjá þessum puttalingum sem síðar áttu eftir að setjast að í gömlu Mosfellssveitinni. Það voru jafnvel glæsivagnar af dýrustu sortinni. En Trabbinn sem stansaði til að kippa þessum náttúrubörnum hefur ætíð verið í miklu uppáhaldi síðan. Eiginlega hugðumst við alltaf fjárfesta í Trabba sem var næsta stig fyrir ofan reiðhjólin. En hann mengaði svo skelfilega ef hlutföllin á bensíni og tvígengisolíu voru ekki rétt blönduð.

Svo féll Járntjaldið og kommúnisminn fór á öskuhauga sögunnar - og Trabbinn eiginlega með því sama. Það leið vel á annan áratug uns viðákváðum að  festa okkur kaup á notuðum bíl, rauðri Toyota Corolla Touring sem hefur reynst okkur ákaflega vel. Nú er gamli Rauður að nálgast fermingaraldurinn og ekinn nær 200.000. Rauður er enn frár á fæti eins og fimm vetra foli og engu skiptir þó hann sé troðfullur af fólki og varningi ásamt stútfullri kerru aftan í, áfram á hann sjálfsagt eftir að skrölta með okkur nokkur ár enn.

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 20.1.2008 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband