fös. 11.1.2008
Horft um öxl og fram á veg
Nú þegar nýtt ár er gengið í garð langar mig að stikla á stóru um það sem liðið er og hæst ber í bæjarmálunum í Mosfellsbæ. Þegar á heildina er litið er ég mjög sáttur við gang mála hjá okkur Mosfellingum á liðnu ári og það er gaman að hafa fengið tækifæri til þess að vinna að framgangi Mosfellsbæjar með öllu því góða fólki sem þar leggur hönd á plóg. Verkefnin í svo ört stækkandi bæjarfélagi eru mörg og ærin en auðvitað er aldrei svo að ekki megi betur gera en að því er að sjálfsögðu unnið öllum stundum að gera sem flestum til hæfis.
Byggingarframkvæmdir og nýr bæjarstjóri
Því er ekki að neita að byggingarframkvæmdir í þremur nýjum og glæsilegum hverfum gera umhverfi okkar hálftætingslegt um þessar mundir en það er tímabundið ástand og taka þessi hverfi á sig betri mynd með degi hverjum. Bæjarbúar hafa sýnt þessum stórframkvæmdum mikinn og góðan skilning og ber að þakka það.
Eins og allir vita lét Ragnheiður Ríkharðsdóttir af embætti bæjarstjóra á síðasta ári og kvöddum við þar litríka, harðduglega og skemmtilega konu. Ég vil nota tækifærið og þakka Ragnheiði gott og skemmtilegt samstarf og óska henni velfarnaðar í nýju starfi á alþingi. Nýr bæjarstjóri, Haraldur Sverrisson, hefur um árabil starfað að bæjarmálum í Mosfellssbæ og hefur mikla og góða þekkingu á þeim.
Stóru verkefnin
Brátt verður hafist handa við að reisa nýjan og glæsilegan grunnskóla í Mosfellsbæ, Krikaskóla, og einnig styttist í að framhaldsskóli og hjúkrunarheimili verði að veruleika. Þetta eru auðvitað stóru verkefnin hjá okkur og varða hag og velferð flestra íbúa Mosfellsbæjar.
Samstarfið hjá meirihluta okkar vinstri-grænna og sjálfstæðismanna í bæjarstjórn hefur gengið mjög vel. Gagnkvæmt traust og virðing hefur einkennt það allt frá upphafi og hefur ríkt góður andi á meðal allra sem að meirihlutanum standa. Mikill metnaður var lagður í fjárhagsáætlun flokkanna fyrir árið 2008 og eru mörg spennandi verkefni framundan í bæjarfélaginu. Skuldir á íbúa halda áfram að lækka, verja á um 775 mkr. til uppbyggingu skóla- og íþróttamannvirkja, gert er ráð fyrir fjármunum til byggingar menningarhúss, útgjöld til fræðslumála aukast um 275 mkr, leikskólavist fimm ára barna er gjaldfrjáls og með því er áfram stuðlað að lægri kostnaði fyrir barnafjölskyldur, gert er ráð fyrir verulegri hækkun á framlagi til íþrótta- og tómstundafélaga vegna barna- og unglingastarfs sem og að frístundagreiðslur munu hækka. Ekki má gleyma fyrirhuguðum ævintýra- og útivistargarði á milli Varmár og Köldukvíslar. Auðvitað er margt fleira spennandi framundan sem of langt mál er að telja upp í þessari grein.
Umhverfismál fá veglegan sess
Hvað varðar árið sem nú er að líða í pólitíkinni hér í Mosfellsbæ og þunga áherslu bæjaryfirvalda á umhverfismál verður ekki hjá því komist að nefna áberandi og neikvæð skrif um eitt tiltekið mál sem tengdist umhverfismálum á árinu sem er nýliðið. Hér tala ég um fyrirhugaða tengibraut inn í Helgafellshverfi.
Fá mál í Mosfellsbæ hafa fengið viðlíka athygli í fjölmiðlum svo áratugum skiptir og er í raun flestum nóg um. Þessi umræða hefur á köflum farið langt út fyrir öll velsæmismörk og haft á stundum afar neikvæð áhrif á ímynd Mosfellsbæjar. Það segja mér reyndari menn að fá dæmi, ef nokkur, séu til um aðra eins aðför að einstaka bæjarfulltrúum og persónum og sú sem þar hefur verið höfð í frammi af fáeinum manneskjum í nafni umhverfissamtaka en er og hefur í raun verið hrein og klár pólitík allt frá upphafi.
Skrif í jólablöðum beggja minnihlutaflokkanna þar sem sagt var að umhverfismál sætu á hakanum undir stjórn okkar vinstri-grænna í Mosfellsbæ komu mér á óvart. Framundan er stórátak í umhverfismálum hjá bæjarfélaginu og það á m.a. fólkinu sem hélt um pennana í jólablöðum minnihlutaflokkanna að vera fullkunnugt um. Í því sambandi vil ég nefna sérstaklega 160% aukningu til umhverfismála á milli ára. Ráðinn hefur verið nýr starfsmaður, umhverfisstjóri, sem mun m.a. hafa yfirumsjón með Staðardagskrá 21. Áhersla bæjaryfirvalda á umhverfismál er mikil og sönn, ekki einungis fyrir einstaka íbúa bæjarfélagsins eða einstaka hverfi heldur alla Mosfellinga.
Bloggið
Ekki verður hjá því komist hjá mér í þessum pistli að nefna bloggið sem ég hóf að taka þátt í á árinu. Á þeim vettvangi hef ég eignast marga góða vini og hefur verið gaman að taka þátt og fylgjast með hugðarefnum og þankagangi fjölda fólks sem margt hvert hefur haft frá mörgu skemmtilegu og gefandi að segja. Auðvitað leynast svartir sauðir í blogginu eins og annarsstaðar en framhjá skrifum slíkra "snillinga" sneiðir maður einfaldlega. Bloggið er stórmerkilegt fyrirbæri og ég held að þeim fjölgi stöðugt sem taka undir það.
Ég tók strax þá ákvörðun að reyna eftir fremsta megni að nota bloggið mér meira til skemmtunar og afþreyingar heldur en að nota það t.d. eingöngu fyrir pólitískan vettvang og umræðu því tengdu. Mörgum kann eflaust að finnast það skjóta skökku við að bæjarfulltrúi geri slíkt en það verður þá bara að vera svo. Góð vinkona mín sagði við mig í góðlátlegu gríni nýlega að ég þyrfti að fara að hætta að hlæja svona mikið, gantast og grínast, svo ekki sé nú talað um að syngja á opinberum vettvangi, slíkir menn væru og yrðu aldrei teknir alvarlega. Hún sagði að ég þyrfti virkilega að endurskoða mín mál hvað þetta varðaði. Ég á völina og kvölina og það er á hreinu hvorn slaginn ég tek.
Ég óska ykkur öllum kæru vinir nær og fjær gleðilegs ár og vona að nýja árið eigi eftir að reynast ykkur öllum vel.
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.
P.s Vek athygli mína á því að Mosfellingur, bæjarblað okkar Mosfellinga er kominn á netið. Slóðin er mosfellingur.is
Athugasemdir
ég er algjörlega ósammála henni vinkonu þinna, það besta sem maður gerir sem obinber manneskja er að sýna a maður hafi tilfinningar, hitt er gamalt og úrelt. hvað gerðist ekki með hillary c. þegar það komu tár, fékk hún fl. atkvæði
BLESS
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 11.1.2008 kl. 06:54
Ég er líka ósammála vinkonu þinni. Þú sýnir hversu stór þú ert með því að vera þú sjálfur.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 11.1.2008 kl. 07:58
Ég er líka ósammála vinkonu þinni. Því aðeins verður tekið mark á þér að þú haldir áfram að vera þú sjálfur eins og þér er eiginlegt -- og allri alvöru fylgir nokkurt gaman, alveg eins og hinn veginn.
Samhryggist vegna Ragga -- þar fór gamall og góður vinur.
Mbkv.
Sigurður Hreiðar, 11.1.2008 kl. 11:01
Gott yfirlit. Hræddur um að Hlégarður fyllist af mínum flokksmönnum í kvöld. Velgeymdir þar! Syngdu bara lagið -Vertu þú sjálfur- helst á bæjarstjórnarfundi. Myndi vekja athygli - vertu viss.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 13:43
Endilega halda áfram að hlæja og syngja og sem mest opinberlega! Þeir sem eru grínistar meðal vina en niðursoðnir freðhausar í ræðupúlti eru ótrúverðugir. Þeir sem ekki kunna að hlæja eru varhugaverðugir. Og þeir sem ekki hafa tónlist eru beinlínis hættulegir. Shakespear segir þetta best (man ekki úr hvaða leikriti):
For he who hath no music in himself, nor is not moved by concord of sweet sound, is fit for treason, stratagems and spoils. His mind is black as night, his intentions dark as Erebus. Let no such man be trusted!
Brynjólfur Þorvarðsson, 11.1.2008 kl. 23:21
Tek undir tilvitnun Brynjólfs hér að ofan í "Hristispíra" og vona að þú standir keikur við þinn hlut, hér eftir sem hingað til. Bestu kveðjur úr Leirutanganum.
Halldór Egill Guðnason, 12.1.2008 kl. 04:47
Ekki var vinkonan ég ......... og við skrifum a.m.k. undir nafni ... sem er meira en hægt er að segja um suma aðra pólitíkusa .
Herdís Sigurjónsdóttir, 13.1.2008 kl. 14:52
Nei Kalli haltu áfram að vera þú sjálfur það er nóg af fýlupésum í pólítíkinni .En skemmtilegast finnst mér að heyra að gamlir skólafélagar eru farnir að stjórna ´Mosfellsbænum gangi ykkur sem best kveðja að norðan
Laugheiður Gunnarsdóttir, 13.1.2008 kl. 18:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.