mið. 12.12.2007
Krikaskóli, spennandi verkefni
Í Mosfellsbæ verður bráðlega reistur nýr skóli (Krikaskóli) fyrir börn frá 1-9 ára. Haldin var samkeppni um útfærslu skólans og hönnun og hér má lesa niðurstöðu dómnefndar um sigur tillöguna.
ÞÆTTIR SEM DÓMNEFND LAGÐI MAT Á
Samkvæmt útgefinni samningskaupalýsingu lagði dómnefnd mat á eftirfarandi þætti og var skipting þeirra sem hér segir: v Stefna skólans í uppeldi og kennslu og tillögur um framkvæmd hennar. Vægi: 20 %v Tillögur um gerð þróunarverkefnis eða skólanámsskrár, samstarfssamnings um skólastarf og ráðgjöf um framkvæmd hennar til framtíðar. Vægi: 10%v Útlitsmótun og innra skipulag húss, samþætting við uppeldis- og kennslustefnu. Vægi: 30%v Tæknilega lausnir og rekstrarleg sjónarmið. Vægi: 20%v Byggingarkostnaður, sem metinn er af óháðum aðilum og verður kostnaðarmarkmið verkkaupa. Vægi: 13%v Tilboð í þóknun fyrir ráðgjafarstörf. Vægi : 7%UMSÖGN DÓMNEFNDAR OG RÁÐGJAFA TILLAGA 1 - BræðingurHöfundar: Einrúm, Arkiteó, Suðaustanátta, VSB, Helgi Grímsson, Andri Snær Magnason og Sigrún Sigurðardóttir. I. Skólastefna: Vel hefur tekist til hjá höfundum tillögunnar að samþætta skólastefnu og hús. Hugmyndafræðin rímar þannig einkar vel við bygginguna. Skólastefnan er kenningarlega vel undirbyggð og setur skóla og einstaklinga í eftirtektarvert samhengi við nærsamfélag og samfélagið yfirleitt, með skírskotun til veruleika nútíðar og framtíðar og áherslu á að litlar pollagallamanneskjur í litlum skóla geta breytt heimsmynd mannanna, ef umgjörðin býður upp á það. Áhersla er lögð á einstaklingsmiðað, lýðræðismiðað og merkingarbært nám, þar sem virkni nemenda sé forsenda þess að nám verði merkingarbært og áhersla lögð á að þekkingarleit sé verklegt ferli. Sú mikla áhersla sem lögð er á að börnin kynnist lýðræðislegum vinnubrögðum er jákvæð og telur dómnefndin að hugmyndir s.s. varðandi heimaþingin, útikennslu og áherslu á notkun náttúrunnar spennandi. Áherslan á virkni einstaklingsins, sköpun, tjáningu, traust, kærleika, samskipti og samræður sem leið til aukins þroska og þekkingar styður vel við lýðræðishugmynd tillögunnar og fellur vel við Skólastefnu Mosfellsbæjar og er til þess fallinn að efla félagsauð í hverfinu og bænum. Skólastefnan er sannfærandi og heildstæð sýn á grunnskóla og leikskóla er góð. Hugmyndir í skólastefnu Bræðingsins, sem lúta að þjónustu við leik- og grunnskólabörn allt árið um kring, í frístund og heilsdagsskólaumhverfi eru framsæknar. Þær eru til þess gerðar að koma til móts við flóknar uppeldis-aðstæður í íslenskum veruleika í dag og eru verðugar hugmyndir fyrir Mosfellsbæ að móta í samstarfi við foreldra og heimili. Hugmyndir um að skólinn fléttist við landslagið og að byggingin vaxi upp úr landinu, eins og tré á sléttu, og myndi skjólgóða laut um leiksvæði barnanna er sérstaklega barnvæn og námshvetjandi umgjörð fyrir útivist og útinámi. Tillagan þykir vel til þess fallin að gera Krikaskóla einstakan í sinni röð, bæði skólastefna og speglun hennar í skólahúsi og lóð. II. Útfærsla húss og lóðarByggingin er á tveimur hæðum. Heimarými árganga á 2. hæð og sérgreinarými, matsalur og stjórnunarrými á 1. hæð. Inngangar eru tveir á neðri hæð fyrir eldri nemendur, en á efri hæð er inngangur fyrir yngstu börnin. Við innganga er flórinn - skemmtileg útfærsla á fatahengjum og skógeymslum. Inngangar eru í skjóli undir skyggni. Hæðirnar tengjast um miðrými þar sem er lyfta og stigi - trjástofninn - sem að hluta til getur þjónað sem áhorfendapallur við matsal. Rými undir stiga er nýtt undir stóra geymslu. Huga þarf að því hvort matsalur sé nógu stór fyrir t.d. jólaskemmtanir. Eldhús og matsalur eru ekki nógu vel tengd þar sem ganga þarf niður skábraut til að komast í sæti. Efnisval er spennandi, steyptir fletir í bland við timburklæðningu og gras á þaki. Útfæra þarf betur handrið, sérstaklega m.t.t. leiks barna á þaki. Einnig þarf að ganga úr skugga um að ekki skapist of mikill skuggi af skyggnum við suðurhliðar. Byggingin er staðsett innan byggingarreits. Hún tengist lóðinni um skábrautir sem tengjast yfirbyggðu leiksvæði á þaki 1. hæðar á tveimur hliðum. Yngstu börnin hafa þannig afmarkað leiksvæði og vagnasvæði á vestanverðu þaki, en eldri börnin hafa austanvert þakið og lóðina alla sem sitt yfirráðasvæði. Lóðin er skemmtilega útfærð í takt við hugmyndir um útikennslu, könnunarferðir og náttúruskoðun. Útisalerni er sniðuglega komið fyrir með aðgengi frá lóð. Grunnhugmynd tillögunnar líkja hönnuðir við tré, þar sem stofninn, ræturnar og jörðin eru neðri hæðin og lóðin, en krónur trésins með hreiðrum endurspeglast í útfærslu efri hæðar þar sem heimasvæði barnanna eru. Leikskóla- og grunnskóladeildin mynda einn stofn og stefnu. Framsetning tillögunnar er einkar skýr og lífleg. III. Tæknilegir þættir:Um er að ræða hús sem um margt er hefðbundið í uppbyggingu. Ekki kemur fram hvort veggir verða einangraðir að utan eða innan. Þak er viðsnúið, þ.e. einangrað að utan og því væri hentugra að hafa útveggi einnig einangraða að utan. Tillagan ber það með sér að vel hafi verið hugsað um lausnir með tilliti til nýtingar. Töluverð fjölbreytni er í útliti og útfærslum húss en engu að síður gott samræmi. Gerð er þokkaleg grein fyrir efnisvali innanhúss og lögð áhersla á hljóðdempun, þó ekki sé farið náið í kröfur um hljóðvist. Góð lýsing er á tæknikerfum og er í þeim lögð áhersla á hagkvæman rekstur með stýringum á kerfunum, endurvinnslu varma og þess háttar. Miðað er við náttúrulega loftræsingu í kennslurýmum en þörf er á að skoða það betur. Raf- og smáspennukerfum eru gerð góð skil í tillögunni og eru þar á ferð metnaðarfullar nútímalegar hugmyndir með það að markmiði að sem best verði búið að nemendum, kennurum og öðrum þeim sem nýta mannvirkið. IV. Mat á rekstrarþáttumTillaga Einrúms/Arkitéo er að mörgu leyti góð út frá rekstrarlegu tilliti, bæði hvað varðar innra skipulag, tæknilegar lausnir sem miða að hagkvæmni í rekstri sem og efnisval. Mikil áhersla hefur verið lögð á það í lausnum að rekstur mannvirkis og lóðar verði sem þægilegust, vistlegust og umhverfisvænust. Fyrirhuguð skyggni gefa starfseminni aukna nýtingarmöguleika og hlífir börnum að leik sem og ytra byrði húss við sunnan stormum. Huga þarf vel að gerð rampa þar sem um kalda veggi er að ræða, það er þó vel leysanlegt.
Athugasemdir
Já, þetta er aldeilis áhugavert og verður gaman að fylgjast með framvindu þessarar tilraunar og verður reyndar að verða meira tilraun.
Gangi ykkur vel með þetta!
HP Foss, 13.12.2007 kl. 00:02
Þetta er virkilega áhugaverð grein...
en svona í alvöru talað, hvenær ætlið þið Biggi að semja Riddaralagið?
Hvíti Riddarinn, 14.12.2007 kl. 00:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.