Hann hafði sannarlega rétt fyrir sér

Kæru bloggvinir og aðrir lesendur.

Þá er bókstaflega frábærri ferð fjölskyldu minnar til Köpen lokið. Við erum komin heim á skerið.

Alltaf verð ég jafn snortinn þegar vélin er lent og í hátalarakerfi vélarinnar er sagt: „Velkomin heim til Íslands“. Ég veit að þetta er svakalega væmið en ég veit líka að þetta hefur svo mikil áhrif á mig vegna minnar slæmu flughræðslu. Léttirinn er óbærilegur þegar vélin er lent.

Einu sinni gerði okkar frábæri grínisti Jón Gnarr það að umtalsefni sínu í uppistandi til hvers við værum látin læra dönsku í grunnskóla. Hann hafði sannarlega rétt fyrir sér að það væri með öllu tímasóun og tómt rugl. Ég komst endanlega að því í ferðinni að þetta eru orð að sönnu.

Í gamla daga talaði ég dönsku upp á tíu enda bjó ég í landi frænda vorra í eitt ár. Auðvitað gerði ég mínu fólki grein fyrir því áður en upp í ferðina var lagt að þau gætu algerlega treyst á mína dönskukunnáttu ef eitthvað kæmi upp, þessum orðum treysti fjölskylda mín að sjálfsögð og hafði engar áhyggjur. Þegar við vorum lent í Köpen var ákveðið að fá sér hressingu og auðvitað sá ég um að panta fyrir mannskapinn.

Ég byrjaði á því að panta tvo kaffi. Þá sagði kellan á flugstöðinni: „Ha?!“, „Já“ sagði ég, „to kaffi“ og aftur sagði hún: „ha?“. Það var ekki fyrr en ég sagði kaffeeee að hún áttaði sig. Mínu fólki var skemmt.

Verra var þegar ég pantaði í ferðinni einn pakka af Kent sígarettum. Auðvitað bað ég bara um Kent. „Va mener du?“. „Kent síkaretten“ sagði ég. „Va mener du“ sagði kall fíflið aftur. Þá reyndi ég að breyta framburðinum og sagði Kunt, ekki gekk það, þá sagði ég Kint, ekki gekk það, þá sagði ég Kunte. Aldrei fattaði kallinn neitt og fólkið fyrir aftan mig orðið pirrað og ég líka, ekki síst vegna hlátraskallanna í kellu minni og börnum sem glumdu um alla búð. Hvernig í fjáranum á að bera Kent fram á dönsku? Getið þið sagt mér það? Ég átti bara eftir að segja Kunta Kinte. 

Það er gersamlega óþolandi að fara til Köpen og telja sig frábæran dönskukunnáttumann og vera nýbúinn að gera öllum fjölskyldumeðlimum grein fyrir því en geta ekki pantað kaffi, sígarettur, brauð eða beðið um reikninginn öðruvísi en að enda á því að tala táknmál með alla hlæjandi í kringum sig.  

Ég mæli samt með Köpen, þangað er alltaf jafn gaman að koma.

Eigið góðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Elsku karlinn minn þú rúllar þessu þá upp á vinabæjarmótinu á næsta ári ... kære nordiske venner! he he

Herdís Sigurjónsdóttir, 20.7.2007 kl. 19:43

2 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

já og velkominn heim

Herdís Sigurjónsdóttir, 20.7.2007 kl. 19:43

3 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

æææ kæri bloggvinur, bara segja það með flötu kái ! og hvar þú leggur áhersluna í lok þessa stutta orðs !

en þetta er ekki auðvelt. þegar við fluttum hingað fyrir mörgum mörgum árum lenti ég oft í vandræðum ! að finna leið til IKEA var stórvandræði ! þú segir ekki bara IKEA, nei þú segir IIIKea

gaman að lesa þig aftur, og gott að heyra að ferðin hafi verið góð. 

Alheimsljós til þín

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 20.7.2007 kl. 21:06

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Köben er hin borgin mín.  Elska hana af öllu .  En kæri maður hver reykir Kent nuförtiden?  Hehe.  Velkominn heim.

Jenný Anna Baldursdóttir, 20.7.2007 kl. 23:29

5 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

 Velkomin heim á Frón. Það er gott að tala íslensku eftir svona ferðir.

Jóna Á. Gísladóttir, 21.7.2007 kl. 01:17

6 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Mér finnst alltaf svolítið erfitt að fá það til að ríma saman, þegar menn segja, að þeim þyki vænt um landið sitt,en kalla það svo "skerið".

Eiður Svanberg Guðnason, 21.7.2007 kl. 10:19

7 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Ég held að Jón Gnarr mætti vara sig.

Rósa Harðardóttir, 21.7.2007 kl. 16:56

8 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

Danir eru ákaflega furðulegir með það að skilja einungis nákvæmlega sama framburð og þeir nota á orðum. Svo er framburðurinn mismunandi eftir landshlutum. Þetta er eins og Reykvíkingur myndi ekki skilja útlending sem hefði lært íslenskur á Norðurlandi. Útlendingurinn myndi reyna að segja t.d. skipta með hörðu t hljóði en Reykvíkingurinn myndi ekki skilja fyrr en útlendingurinn kæmi með d hljóð í stað t hljóðsins.

Ég er búinn að búa í landi Bauna í 4 ár og ég lendi oft í þessu, er að reyna að segja eitthvað á dönsku en fólk segir mörgum sinnum ha og alltaf reyni ég að breyta framburði. Skyndilega fattar viðkomandi hvað ég er að segja og segir það á sinn hátt og aldrei get ég heyrt mun a´því sem ég segi.

En ég held að það sé gott fyrir Íslendinga að læra grunn að dönsku í skólum. Síðastliðinn vetur voru 1250 Íslendingar í lánshæfu námi í Danmörku, þá vantar fjölskyldur sem fylgja þeim og svo alla hina sem búa í Danmörku og vinna eða eru bara á socialnum.

Þó ég hafi ekki verið altalandi á dönsku þegar ég flutti út þá hafði ég grunn til að byggja á.

Rúnar Birgir Gíslason, 27.7.2007 kl. 21:05

9 identicon

Sæll Kalli.

Ég er spenntur að heyra hvernig hafi verið á Löven

Þorsteinn Sigvaldason (IP-tala skráð) 29.7.2007 kl. 17:48

10 Smámynd: Karl Tómasson

Einu er þér óhætt að trúa Steini minn.

Ég hugsaði oftar en einu sinnu og oftar en tvisvar til þín þegar ég var á Löven.

Við fengum okkur morgunmatinn á staðnum fyrir neðan sem þú bentir mér á. Þetta var frábær ferð og okkur leið ljómandi vel á Löven.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm.

Karl Tómasson, 29.7.2007 kl. 22:51

11 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Hahahahaha   ...bíddu, þarf að þurrka tár.

Anna Einarsdóttir, 31.7.2007 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband