sun. 17.6.2007
Gaman í Mosfellsbæ
Kæru bloggarar. Gleðilega þjóðhátíð.
Hátíðarhöldin í Mosó gengu vel, þau hófust með hátíðardagskrá í bæjarleikhúsinu okkar. Þar flutti ég hátíðarræðuna og læt ég hana fylgja með hér að neðan. Álafosskórinn söng og stóð sig að vanda vel undir öruggri stjórn Helga Einarssonar, fjallkonan var glæsileg og að lokum var bæjarlistamaður Mosfellsbæjar heiðraður. Það var að þessu sinni myndlistarkonan Ólöf Oddgeirsdóttir. Ólöf er sérlega vel að sæmdarheitinu komin. Hún hefur látið mikið til sín taka í menningarlífi okkar Mosfellinga undanfarin ár. Innilegar hamingjuóskir Ólöf.
Að hátíðardagskrá lokinni var fjölmenn skrúðganga að Hlégarði þar sem fram fór fjölbreytt og skemmtileg dagskrá.
Hér kemur hátíðarræðan:
Ágætu Mosfellingar og aðrir þjóðhátíðargestir.
Fyrir hönd bæjarstjórnar Mosfellsbæjar óska ég ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og vona að við eigum eftir að eiga saman ánægjulegan dag. Enn á ný erum við saman komin til að halda hátíð, þjóðhátíð í bænum okkar sem var sveit fyrir örfáum áratugum - en:
Munum öll að Mosfellssveitin
mótar enn sín fósturbörn.
Sundin fríðu, fellin, leitin
furðugil og heiðartjörn.
Manstu kvöld í mánabliki,
morgunglóð við fjörusand
hörpu slegna í vatnaviki
vafið töfrum griðaland.
Þannig orti Pétur Þorsteinsson kennari og síðar sýslumaður Dalamanna. Hann byggði sér hús á sínum tíma við Lágholt sem var önnur þéttbýlisgata sveitarfélagsins. Þá var ljóst að ör byggðaþróun varð ekki umflúin og árið 1987 lauk Mosfellshreppur aldalangri sögu sinni og Mosfellsbær fagnar 20 ára afmæli sínu í ágústmánuði næstkomandi.
Tvítugt bæjarfélag þarf ekki að líta langt um öxl til að sjá hér kýr reknar í haga, brúsapalla við sérhvern bæ og þá var Mosfellsheiði hvít á sumrin - ekki af snjó heldur sauðfé. Þessi tími er liðinn og nú er svo komið að einungis eitt kúabú er starfrækt í sveitarfélaginu en bankaútbúin eru hins vegar helmingi fleiri en kúabúin í dag. Og iðjagræn tún og beitarhagar hafa sum hver breyst í götur og blómum prýddar lóðir sem ekki þarf að reka sauðfé úr á miðri nóttu eins og algengt var á þeim tíma.
Í Dal og Hverfi, Holti og Túnum
heimilið ég byggja vil.
Í þessum faðmi fagurbúnum
finnst mér best að vera til
Undur vors og angan seiða,
einnig haust með hrímgan svip.
Sakna mundi hafs og heiða
hér bý eg mitt draumaskip.
Í Mosfellsbæ hafa fjölmargar fjölskyldur smíðað sín draumaskip á síðustu áratugum. Þessi skip hafa orðið að fríðum skipaflota sem við köllum íbúðahverfi. Og enn er verið að smíða ný draumaskip því um þessar mundir eru miklar byggingaframkvæmdir hér í bænum. Þegar slík umsvif standa yfir er mikilvægt að við sýnum hvert öðru þolinmæði og tillitssemi. Vissulega hafa slíkar framkvæmdir í för með sér ónæði á meðan á þeim stendur en allt hefur sitt upphaf - og endi.
Góðir þjóðhátíðargestir.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar hér í Mosfellsbæ frá því að haldið var fyrst upp á 17. júní. Það var árið 1964 og þá var Varmárlaug vígð, Klara Klængsdóttir fyrrverandi kennari þreytti vígslusundið og nú rúmum 40 árum síðar vígði Klara einnig hina stórglæsilegu Lágafellslaug. Klara iðkaði einnig og kenndi sund í fyrstu innisundlauginni í Mosfellsbæ sem var að Álafossi þar sem hljómsveitin Sigurrós hefur nú hreyðrað um sig. Einnig tók Klara sundspretti í stýflunni sem Sigurjón Pétursson á Álafossi lét úbúa í Varmánni á sínum tíma. Já Klara er en að.
Við hin fyrstu þjóðhátíðarhöld kom nýstofnuð skólalúðrasveit fram undir stjórn Birgis D. Sveinssonar og hefur hún allar götur síðan verið órjúfanlegur hluti af hátíðarhöldum í sveitarfélaginu. Þennan dag var efnt til víðavangshlaups á hátýðarhöldunum og einn liðsmaður lúðrasveitarinnar var svo önnum kafinn að hann þreytti hlaupið í hvítri skyrtu með slaufu sem var fyrsti einkennisbúningur lúðrasveitarinnar.
Ágætu Mosfellingar.
Í dag minnumst við sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar. Hún virðist vera langt í burtu en samt er hún nútímalegri en margan grunar því í raun er hún sígild. Sjálfstæðisbarátta getur verið bundin við annað en þjóðir, einnig sveitarfélög eða manneskjuna sjálfa. Og hvort sem sveitarfélagið heitir sveit, bær eða borg kunnum við vel að meta hana Mosfellssveit sem breyttist í bæ á undraskömmum tíma. Hér viljum við iðka okkar víðavangshlaup í guðsgrænni náttúrunni í sátt við menn og dýr, jafnvel í stuttbuxum og hvítri skyrtu - með slaufu.
Gleðilega þjóðhátíð!
Hér kemur Bretinn viðkunnanlegi.
Að verða fyrir áhrifum tónlistar og tónlistarflutnings er einstaklega notaleg tilfinning. Ég varð fyrir þessum áhrifum í morgun áður en ég hélt út í veðurblíðuna til að taka þátt í hátíðarhöldum okkar Mosfellinga. Þetta var góður innblástur fyrir daginn. Þessi viðfeldni og magnaði söngvari vann hug minn allan. Hann hefur undanfarin ár fengist við símasölu.
Já, þeir leynast víða snillingarnir.
Ég læt þetta flakka með þó þetta tengist ekki beint þjóðhátíð okkar Íslendinga.
Góðar stundir kæru félagar.
Karl Tómasson.
Athugasemdir
Til hamingju með daginn og glæsilega hátíðarræðu. Söngvarinn er náttúrlega náttúrutalent og kallar fram tár á hvarmi.
Jóna Á. Gísladóttir, 17.6.2007 kl. 23:55
Blessuð sértu sveitin mín......
Falleg hátíðarræða hjá þér, sendi fyrrum sveitungum mínum bestu kveðjur og vona að afmælishátíðin í ágúst verði glæsileg að "við" fyrrum íbúar sveitarinnar flykkjumst á gamlar "breyttar" slóðir
Kv Hulda Bergrós Litlagerði
Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 18.6.2007 kl. 10:02
fallegt !
ljós til þín
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 18.6.2007 kl. 14:41
Váááá þvílíkur söngur, ég bara grét !!!!
s
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 18.6.2007 kl. 14:46
Var staduur á Akureyri um helgina, illu heilli, en sá þennan símasölumann á netinu og fékk einn mesta "gleðihroll" sem ég hef lengi fengið, við að sjá hann og heyra. Átti von á einhverju "Hong dæmi" en stóð síðan stjarfur, með tár á vanga að flutningi loknum. Bara fallegt.
17. júní "eyði" ég ekki aftur á Akureyri í bráð. Oj bara. Kveðja úr Leirutanganum
Halldór Egill Guðnason, 18.6.2007 kl. 22:47
Já kæru vinir.
Það er stutt í tárin þegar maður heyrir fallegan tónlistarflutning og söng. Það hef ég svo oft upplifað og það er svo notalegt.
Símasölumaðurinn bræddi mig gersamlega, karakterinn og manneskjan sem skín í gegn, allt svo einlægt. Þetta var upplifun.
Góðar stundir kæru vinir.
Kalli Tomm.
Karl Tómasson, 18.6.2007 kl. 23:30
kalli, skiptu yfir í þágufall og skrifaðu: Mér varð það á... Eyddu síðan þessari athugasemd minni. Eins og þágufallssýki er vond þá er eignafallssýki verri.
Einkum vegna þess að þú skrifar að öllu jafna góða íslensku.
Jens Guð, 19.6.2007 kl. 01:16
Ég fór ekki að grenja, visi ekki að ég ætti að gera það, fæ reyndar kjánahroll yfir öllum þessum útgáfum af Idol/ facor, rugli öllu.
Gef ekki mikið fyrir svona þætti.
HP Foss, 19.6.2007 kl. 10:10
Takk fyrir ábendinguns Jens. Þetta var hálf klúðurslegt orðalag hjá mér í textanum.
Hvernig er hægt að ætlast til að maður sem hefur verið með jarmandi rollur og baulandi kýr yfir hausamótunum á sér frá fæðingu hafi fullkomna heyrn. Þar að auki er hávaðinn frá fossinum slíkur að vart er hægt að tala saman á hlaðinu. Það er ekkert skrítið þó eitthvað gefi sig.
Það er málið Óli, það var allt sem vann þarna saman. Það er spurning hvað bóndadurgurinn frá Vest Skaft þarf til að fara að grenja í gröfinni.
Kær kveðja frá Kalla Tomm.
Karl Tómasson, 19.6.2007 kl. 14:13
Það er ekki hægt að halda áfram á þessari braut, að gera hlutina að íslensku máli bara ef menn gea ekki lært rétt mál. Þágufalssýki er sjúkleiki sem ber að útrýma! það er nú nógu slæmt að þurfa að lesa Vinstrigrænaruglið í forsetanum þó ekki bætist við ambögur og stafsetningavillur. Þar að auki er hann sonur skólastjórans! Synir skólastjórans í minni sveit voru prúðir og stilltir drengir sem fóru alltaf með rétt mál, eingaföll og þolföll voru rétt sniðin að nefnifalls fornöfnum í eigin þolmynd, hvort heldur var núliðin eða þátíð'.
Hana nú!
HP Foss, 20.6.2007 kl. 09:06
Það er háttur manna með lítið sjálfstraust að ráðast strax að þeim sem þeim stendur ógn af, þekkt í eineltinu. Þannig var með XB/ XV
Mér er nokkuð sama þótt þú, Hjössa mín, jarmir til mín, tek það ekki illa, mjálmið í ykkur hljómar í mín eyru sem stanslaust jarm, gef ekki mikið fyrir svona málflutning.
HP Foss, 20.6.2007 kl. 09:11
Hjössa mín, þú ert alveg ga ga. Þú verður að vera róleg, þú æsir upp öl hin. Það verður að vera ein alvöru landsbyggðarflokkur, það er ekki hægt að lepja bara kaffi úr Krús, enda fór sem fór þar. framsóknarflokkurinn hefur aldrei verið höfuðborgarflokkur og þetta fólk sem hefur verið í framsóknarflokknum í bænum er ekkert frasóknarfólk. Framsóknarfólk á ekki samleið með grútlinum höfuðborgarbúanum, sem getur ekki gert upp við sig hvort það við tros eða kvos í mos.
HP Foss, 20.6.2007 kl. 17:08
Það er ekki kappsmál hjá mér Hjördís Hvaran, að verða eins og þið.
HP Foss, 20.6.2007 kl. 22:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.