Viðurstyggð

Lesningin í DV um fólkið sem gerði sér að leik að aka trekk í trekk yfir kríur og ósjáfbjarga unga þeirra á dögunum fyllti mig óhug.

Það skemmti sér m.a. við að binda fuglana við stuðara bílanna og aka með fuglana í eftirdragi. Að því loknu var ekið yfir þá. Hvað er að??? 

Menn sem meiða dýr og kvelja þurfa á svo mikilli hjálp að halda. 

Mannfólkið getur lært svo mikið af dýrunum.

Þetta ljóð hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Sörli átti hug minn allan, traustið, tryggðin og dugnaðurinn.

Grímur Thomsen

Skúlaskeið


Þeir eltu hann á átta hófahreinum
og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar
en Skúli gamli sat á Sörla einum
svo að heldur þótti gott til veiðar.

Meðan allar voru götur greiðar
gekk ei sundur með þeim og ei saman,
en er tóku holtin við og heiðar
heldur fór að kárna reiðargaman.

Henti Sörli sig á harða stökki,
hvergi sinnti hann gjótum, hvergi grjóti,
óð svo fram í þykkum moldarmekki,
mylsnu hrauns og dökku sandaróti.

Þynnast bráðum gerði fjandaflokkur,
fimm á Tröllahálsi klárar sprungu,
og í Víðikerum var ei nokkur
vel fær nema Jarpar Sveins í Tungu.

Ei var áð og ekkert strá þeir fengu,
orðnir svangir jóar voru og mjóir,
en - þótt miðlað væri mörum engu,
móðurinn þó og kraftar voru nógir.

Leiddist Skúla, leikinn vildi hann skakka,
ljóð við Ok úr söðli fastar gyrti.
Strauk hann Sörla um brjóst og stinnan makka,
sté á bak og svo á klárinn yrti:

?Sörli minn! Þig hef ég ungan alið
og aldrei valið nema besta fóður.
Nú er líf mitt þínum fótum falið,
forðaðu mér nú undan, klárinn góður.?

Það var eins og blessuð skepnan skildi
Skúla bæn því háls og eyru hann reisti,
frýsaði hart - og þar með gammurinn gildi
glennti sig og fram á hraunið þeysti.

Á kostum Sörli fór í fyrsta sinni,
furðar dverga hve í klungrum syngur.
Aldrei hefur enn í manna minni
meira riðið nokkur Íslendingur.

Tíðara Sörli en sendlingur á leiru
sinastælta bar í gljúfrum leggi,
glumruðu Skúla skeifurnar um eyrum,
skóf af klettunum í hófahreggi.

Rann hann yfir urðir eins og örin
eða skjótur hvirfilbylur þjóti.
Ennþá sjást í hellum hófaförin,
harðir fætur ruddu braut í grjóti.

Örðug fór að verða eftirreiðin,
allir hinir brátt úr sögu detta.
En ekki urðu fleiri Skúla skeiðin,
skeið hans fyrsta og síðasta var þetta.

Hann forðaði Skúla undan fári þungu,
fjöri sjálfs sín hlífði klárinn miður -
og svo með blóðga leggi, brostin lungu
á bökkum Hvítár féll hann dauður niður.

Sörli er heygður Húsafells í túni,
hneggjar þar við stall með öllum tygjum,
krafsar hrauna salla blakkurinn brúni,
bíður eftir vegum fjalla nýjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

Í siðfræði er talað um það að kvelja dýr sé skaðsamlegt gagnvart eigin sál. Viðkomandi verður dofinn fyrir tilfinningalegum þjáningum og ef viðkomandi heldur áfram slíkri hegðun þá mun hann verða tilfinningalega dofinn.

Nasistar notuðu þess aðferð til að þjálfa upp böðlana sem unnu í Auswich og öðrum útrýmingarbúðum.

  1. var talað við mennina um þessa slátrun.
  2. síðan voru þeim sýndar myndir.
  3. síðan upptökur af þessu.
  4. síðan voru þeir látnir horfa á í gegnum gler á aftökurnar.
  5. að lokum voru þeir látnir taka aðra af lífi.

Þannig náðist að bæla niður allar tilfinningar þeirra og gera þá dofna fyrir eigin verknaði og gjörðum.

Fannar frá Rifi, 14.6.2007 kl. 12:19

2 Smámynd: HP Foss

það verða alltaf til svona aumingjar, fólk sem er í raun ekki á vetur setjandi.

Svona fólki verður ekki hjálpað, þar er hægt að messa eitthvað yfir þeim en þetta verða alltaf aumingjar.

HP Foss, 14.6.2007 kl. 17:37

3 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Kolbrún moggabloggari var í viðtali út af þessu á Bylgjunni um daginn. Hún sagði einmitt að einstaklingar sem fremji svona verknað hljóti að þjást mikið á sálinni eða vera siðblindir.

Jóna Á. Gísladóttir, 14.6.2007 kl. 23:30

4 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Já, þessir einstaklingar eiga sannarlega bágt. Hugsa sér, að skemmta sér við að kvelja og drepa saklausa fugla! 

En er hugsandi að þessir óvitar (ekki ætla ég að kalla þá fávita) kunna ekki skil á kríu og máv? Er hugsandi að þeir telja sig gera góðverk að útrýma þessa vargfugla eins og þeim er sýnt við Tjörnina í Reykjavík. Fyrirmynd borgaryfirvalda í þeim efnum er slæm.

Ég er ekki að grínast. Í áralanga reynslu minni sem farastjóri hef ég oft heyrt frá ferðamönnum að "Þá komu mávar og ætluðu að gogga í hausinn á mér" og auðvitað voru þetta kríur. 

Íslensk borgarbörn vita nefnilega núorðið mjög lítið um náttúru og dýralíf, því miður. 

Úrsúla Jünemann, 15.6.2007 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband