lau. 19.5.2007
Hernaður gegn landinu sagði Össur
Þessa færslu sem lesa má hér að neðan skrifað Össur Skarphéðinsson fyrrverandi umhverfisráðherra á heimasíðu sína í febrúar s.l. Nú er stóra spurningin sú hvort það sé ekki rétt hjá Össuri að taka aftur við umhverfisráðuneytinu til að bjarga landinu frá hervirkjum gegn náttúrunni. Það skal ég viðurkenna að ég grét úr hlátri þegar ég las þessa færslu Össurar á sínum tíma enda er hann skemmtilegur penni og örugglega skemmtilegur karl líka.
Á meðan hinir iðjagrænu vinir okkar í VG að taka á sig til skiptis hami Dr. Jekylls og Mr. Hyde í verndarmálum. Meðan Dr. Jekyll með glampandi skalla ættaðan af Gunnarsstöðum norður berst einsog vitlaus maður fyrir náttúruvernd á Alþingi er hann með Mr. Hyde með umhverfistagl lafandi úr hnakkagrófinni í stóli forseta bæjarstjórnar í Mosfellssveit. Þar hamast Mr. Hyde Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs einsog laminn þræll íhaldsins sem hann situr með í meirihluta í Mosfellsbæ og hafnar á báðar hendur sanngjörnum óskum um umhverfismat á veglagningu um viðkvæmustu svæði sveitarinnar á bökkum Varmár.
Oddviti VG í sveitinni er semsagt orðinn umskiptingur og virðist sérstakt kappsmála að eyðileggja umhverfisperluna sem Varmárbakkar eru og ég flutti um innblásna ræðu í Hlégarði 1994 hjá náttúruverndarsamtökum í sveitinni. Nöturlega var að lesa um að oddviti VG hefði hímt bak við gluggatjöld meðan fólkið mótmælti og þorði ekki að láta sjá sig. Er semsagt nóg að rífa kjaft á Alþingi - en leyfa flokknum í meirihlutanum í Mosfellsbæ að fremja hernað gegn landinu?
Eru hervirki VG gegn náttúrunni í Mosfellssveit dæmi um hamskipti flokksins þegar - og ef - hann kemst í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn?
Já þetta er skemmtileg færsla hjá Össuri og nú er bara að vona og treysta því að undir hans stjórn og Samfylkingarinnar verði ekki unnin önnur eins hervirki gegn náttúru landsins og gert hefur verið í Mosfellsbæ.
Ég vona einnig satt að segja að 500 metra vegakaflinn í Mosfellsbæ verði viðmið Össurar og Samfylkingarinnar í umhverfismálum næstu fjögur árin.
Það má að lokum geta þess að náttúruverndarsamtökin sem Össur vitnar í í grein sinni og hann hélt innblásna ræðu um í Hlégarði hétu Mosi. Þessi náttúruverndarsamtök börðust mjög hart gegn því á sínum tíma að Varmá yrði brúuð við Álanes fyrir neðan Reykjalundarskóg.
Það er sú tillaga sem Varmársamtökin leggja nú til að farin verði inn í Helgafellsland en bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar hafa afskrifað.
Ég vona að Össurar vegna að hann þurfi ekki að svara fyrir þá tillögu Varmársamtakanna.
Karl Tómasson.
Athugasemdir
HA BAUGSSTJÓRN ?
leeds (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 23:30
Ég hef satt að segja sama og ekkert fylgst með málefnum ykkar þarna í Mosfellsbæ og veit því ekki hvort það er rétt hjá Össuri að þú hafir eitthvað farið gegn vilja VG (geri ráð fyrir að hann eigi við þig þarna?) en ég verð nú bara að segja að ég ber alltaf meiri virðingu fyrir þeim þingmönnum sem af og til þora að vera á móti forustu sinni. Það pirrar kannski forustuna, og stundum kjósendur, en það sýnir að viðkomandi stjórnmálamaður þorir að berjast fyrir hugsjónir sínar. Össur aftur á móti, greiddi á sínum tíma (þegar hann var í stjórn) atkvæðum með því að setja vexti á námslán, þótt allir vissu að hann væri á móti því. Þar laut hann vilja sinnar forustu en missti virðingu margra. Ég veit alla vega að ég mun aldrei fyrirgefa honum það, enda var ég ein þeirra sem truflaði þing þegar þetta gerðist, þegar við stóðum öll upp og lásum yfir texta þar sem lýst var frati í ríkisstjórnina. Hefðum getað verið handtekin fyrir en það var vel þess virði.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.5.2007 kl. 00:31
Vildi bæta við að þú hefur góðan smekk á tónlist, ef marka má tónlistarspilara þinn hér til hliðar.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.5.2007 kl. 00:32
Ef ég þekki Össur rétt, líður honum alveg ágætlega í hlutverki umskiptingsins enda er pólitískur ferill hans varðaður hafvillum þar sem seglum er hagað eftir vindi frá degi til dags burtséð frá því hvert átti að sigla þegar lagt var úr höfn.
Jóhannes Ragnarsson, 20.5.2007 kl. 10:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.