Grumpy old men

Nú ráðlegg ég Varmársamtökunum og talsmönnum þeirra að láta staðar numið. Það er mál að linni í niðrandi skrifum um menn og málefni í Mosfellsbæ. Ekkert lát virðist vera á þessu hjá samtökunum og helstu talsmönnum þeirra og nýjustu dæmin eru ótrúleg skrif í nýjasta Mosfellingi og skrif á heimasíðu varaformans samtakanna í gær. Þeim skrifum hefur nú verið eytt út af einhverjum ástæðum og fagna ég því.

Að varaformaður Varmársamtakanna leyfi sér að kalla tvo embættismenn bæjarins í áraraðir og mikla heiðursmenn grumpy old men vegna skoðana sinna er forkastanlegt. Þessir menn, Oddgeir Þór Árnason og Ólafur Gunnarsson, skrifuðu báðir greinar í Mosfelling sem var samtökunum ekki að skapi og eins og dæmin hafa sýnt svo vikum og mánuðum skiptir þá er ekki von á góðu frá Varmársamtökunum fyrir þá sem leyfa sér að gagnrýna þau.

Hvað mig varðar náðu skrifin miklum hæðum í Mosfellingi og á bloggsíðu varaformannsins í gær. Það er ekki nýlunda að mér sé líkt við Kölska sjálfan af talsmönnum samtakanna en að heimili mínu og fjölskyldu minnar sé líkt við draugabæli og helli er nýr vinkill í umræðum samtakanna. Þessi grein sem um ræðir var með slíkum ólíkindum að engu tali tekur og undir hana var ritað með dulnefni sem áður hefur verið notað úr innsta hring samtakanna.

Aldrei hafa nöfn og persónur verið dregnar inn í þessa dulnefnaumræðu undan farnar vikur og mánuði af minni hálfu þrátt fyrir rökstuddan grun um tíma og að lokum áreiðanlega vissu. Varmársamtökin hafa hinsvegar dregið nöfn óhikað inn í umræðuna án nokkurrar vitundar um hvort fótur sé fyrir ásökunum þeirra eða ekki. Varmársamtökunum er fullkunnugt um að fólk á þeirra vegum og úr innsta hring hefur skrifað fjölda greina úr nokkrum tölvum undir hinum ýmsu leyninöfnum svo vikum og mánuðum skiptir. Það hefur fengist staðfest.

Var ekki búið að gera grein fyrir því sem samtökin skrifa um í Mosfellingi og biðjast velvirðingar á því? Úr tölvu minni hefur aldrei verið skrifuð ein einasta grein á heimasíðu Varmársamtakanna. Greinarnar sem samtökin tala um birtust á allt annarri heimasíðu. Þar var hvorki um að ræða níð, dónaskap eða meiðyrði á nokkurn hátt.

Varmársamtökin eiga enga kröfu á að vita hverjir skrifa á heimasíður sem koma samtökunum ekki við, að ekki sé nú talað um ef ekkert niðrandi eða særandi er að finna í þeim skrifum.

Það vakti athygli mína að í þessari grein samtakanna í Mosfellingi skrifar ekki öll stjórnin undir. Svo virðist sem um klofning hafi verið að ræða í skoðunum stjórnarmanna um birtinguna hennar, rétt eins og með þá ákvörðun samtakanna að hafa samband við DV á sínum tíma. Er ekki lýðræðið í hávegum haft hjá samtökunum???

Sá grunur um að þessi síendurtekni leikur sé gerður til að koma höggi á Vinstri græn nú rétt fyrir kosningar læðist óneitanlega að mér en aðaltalsmenn Varmársamtakanna er flokksbundið Samfylkingarfólk. Frá þeim bænum hafa samtökin einnig fengið mikinn stuðning allt fram að þessu. Hinsvegar hefur lítið heyrst frá Samfylkingunni frá því að hinar kostulegu hugmyndir Varmársamtakanna að vegtengingu inn í Helgafellsland voru gerðar opinberar.

Það er algjörlega ljóst að allt hefur verið gert til að koma til móts við Varmársamtökin til að dempa áhrif tengibrautarinnar inn í Helgafellsland. Það eru fleiri íbúar í Mosfellsbæ en þeir í samtökunum og til þessara íbúa ber bæjaryfirvöldum og mér undirrituðum, sem hef ítrekað verið dreginn til ábyrgðar í þessu máli, einnig að taka tillit til. Ég er lýðræðislega kosinn bæjarfulltrúi og sem slíkum ber mér skylda til að taka tillit til allra bæjarbúa, ekki aðeins einstakra hópa eða félagasamtaka.

Virðingarfyllst Karl Tómasson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Maður hafði þá trú að Varmársamtökin væru ekki pólítisk samtök heldur samtök sem vildu náttúru og mannlífi vel. Sú trú hefur að vísu farið ört minnkandi eftir því sem maður hefur fylgst með þeirra málflutningi og dó nú alveg eftir að hafa lesið þeirra nýjasta útspil í Mosfellingi. Gaf mér loks tíma í gærkveldi til að fara almennilega yfir þessar tillögur allar varðandi Kvosina, bæði á síðu þeirra og bæjarins ásamt hinum ýmsu bloggsíðum og niðurstaðan er bara þessi "þetta má allt saman vera í ljóta garði nágrannans en bara ekki í mínum fallega Álafosskvosargarði"

Þannig er það nú bara.

Örn Franzson

Örn Franz (IP-tala skráð) 10.5.2007 kl. 23:47

2 identicon

Gott kvöld.  Vinsamlegast takið mig út af félagatali Varmársamtakanna.  Ástæðan er sú að mér þykir málflutningur einstakra fulltrúa samtakanna um svonefnda tengibraut beinast um of að ákveðnum bæjarfulltrúa en ekki stjórnmálaflokkum eða bæjarstjórninni í heild. Mér þykir allt of hart vegið að Karli Tómassyni í þessari umræðu en ég hef þekkt hann lengi og ekki nema að góðu einu. Þótt ég sé ekki sammála Karli í pólitík finnst mér aðförin að honum hafa verið allt of harkaleg á undanförnum mánuðum. Minnumst þess að aðgát skal höfð í nærveru sálar.   Virðingarfyllst,  Þóra Sigurþórsdóttir, Hvirfli 270 Mos.

Þóra Sigurþórs (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 00:10

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Verið er að kynda óþarfa elda og snúa út úr. Ég skrifaði stutta grein í Mosfelling sem nefnist "Öldungar ergjast". Þar svara ég stuttlega grein Oddgeirs og Ólafs þar sem þeir hafa flest á hornum sér varðandi Varmársamtökin. Segi að ég þekki þá af góðu og að þeir séu reynslunnar menn. Þrátt fyrir eitthvert ergelsi út í Varmársamtökin í þessum skrifum þá segist ég vænta þess að þeir geti tekið þátt í starfi samtakanna.

Reyndar hringdi ég í Oddgeir í framhaldi af skrifum hans því þau komu mér nokkuð á óvart. Við ræddum umhvefismál, heima og geima á þægilegum nótum. Við Ólafur Gunnarsson höfum oft rætt málin og oftast málefnalega. Því komu þessi skrif eins og þrumur, sem ég áleit vera óþarfa ergelsi. Veit ekki hvort Kalli græðir eitthvað á að snúa út úr því.

Hef margítrekað að ekki nokkur maður úr stjórn Varmársamtakanna hefur sótt að Karli Tómassyni persónulega. Ekki ég, ekki Sigrúnar tvær, ekki Berglind og ekki Agla. Hinsvegar þurftu samtökin að búa við það að vinahópur sem Karl tilheyrir skálduðu upp milli 20-30 nöfn og gerðu skipulagða aðför að Varmársamtökunum sem bloggdólgar. Vonandi ætlar sér engin að verja slíkt háttalag.

Morgunblaðið birti IP tölur og þá varð ljóst að öll þessi dulnefni komu úr fjórum tölvum og jafnframt ljóst hverjir væru eigendur að tölvunum. Við óskuðum eftir fundi til að fara yfir málið, en því var ekki sinnt. Síðan fjallaði Karl um málið á síðu sinni, enn og aftur á þeim nótum að nú eigi að gera persónulega aðför að sér og sinni fjölskyldu og var nokkuð skotharður sjálfur á persónur. Þá ákvað stjórnin að birta tengil á samantekt um þessar færslur. Það var nauðsynlegt svo að almennur lesandi gæti gert sér grein fyrir eðli umræðunnar. Því Karl sagði ekki allann sannleikann, því miður. Við vorum líka hvött til þess af Morgunblaðinu.

Ef Karl og félagar geta birt eitthvað álíka frá Varmársamtökunum, eins og hann heldur fram, þá er mjög eðlilegt að hann láti viðkomandi tölvueigendur vita. Ég skal beita mérr fyrir því að ef það eru einhverjir tengdir Varmársamtökunum þá verði þeir beðnir um að axla ábyrgð og biðjast afsökunar ef um einhver meiðandi ummæli er að ræða.

Í gær var sett eitthvert rugl inn á síðu mína sem athugasemdir og eyddi ég því um leið og ég sá það. Hef ekki hugmynd um hver gerði það og langsótt að tengja það við Varmársamtökin. Miklu frekar að líta til þess og meta að ástæða þess að ég tók þetta strax út var að athugasemdin var ómálefnaleg og undir dulnefni.

Seinast þegar ég hitti Þóru Sigurþórsdóttur var hún sem stormsveipur yfir framgöngu Karls Tómassonar í Kvosarmáli og ákvörðunar hans og fleiri á sínum tíma að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Hún er eina sem ég hef orðið vitni af að væri mjög ósátt við Karl á persónulegum forsendum og persónulegri heift. Ég bara hlustaði en tók ekki undir, enda hef ég aldrei álitið að náttúruvernd og útivist á Varmársvæði snúist um hans persónu. Þó að Þóra vilji nú tryggja friðsæld í kringum Karl Tómasson þá álít ég bara að þau fornvinirnir hafi náð sáttum, sem er bara hið besta mál, en tengist ekki starfi Varmársamtakanna á nokkurn hátt.

Að lokum vil ég árétta að hugmyndum Varmársamtakanna að halda eftir útivistar- og verndarsvæði í Mosfellsbæ, upp með Varmá og leysa tengingar við nýju hverfin með mislægum gatnamótum fylgja miklir kostir fyrir mannlíf og framtíðarþróun Mosfellsbæjar. Það sem er kostulegt í þessu máli er framganga fulltrúa VG í Mosfellsbæ í garð samtaka sem láta fjármagn og tíma í að hámarka gildi náttúruverndar og útivistarmöguleika.

Af því að það er nefnt að einhverjir vilji nota þetta mál í kosningum á morgun, þá er það ekki rétt. Finnst Ögmundur Jónasson hafa sýnt virðingu sína gagnvart opinni og eðlilegri umræðu í tvígang með þátttöku í pallborði á fundum samtakanna. Sama gildir um Guðfríði Lilju og Andreu sem að stjórn samtakanna átti mjög gott spjall við eftir síðasta fund. Andrea sendi reyndar Karli uppeldislegan tón um að hann ætti að sýna því meiri virðingu og þolinmæði að það væru mismunandi viðhorf og hvatti hann til að ræða málin í átt að sátt.

Sama gerðist á Draumakaffi þar sem nokkur fjöldi frá Varmársamtökunum fór á kyningarfund frambjóðenda VG. Þar átti ég og fleiri úr stjórn virkilega gott spjall við Álfheiði Ingadóttur og fleiri. Fundarstjóri ætlaði í upphafi að reyna að koma í veg fyrir að málefni Mosfellsbæjar væru rædd á fundinum.

Af þessu má sjá að við erum ekki að fást við forystufólk í landsmálum hj VG sem er hlynnt náttúruvernd, íbúalýðræði, göngustígum, útivist, aðkomu almennings að skipulagsmálum. Vandinn í Mosfellsbæ er að annarsvegar höfum við Sjálfstæðisflokk sem telur nægjanlegt að gæta hagsmuna landeigenda og verktaka, síðan höfum við fulltrúa VG í Mosó sem að þykir ekki mjög vænt um þátttöku íbúasamtaka í skipulagsumræðunni og vilja helst eyðileggja hana og skemma sem mest má vera.

Varmársamtökin stefna á mikið langlífi, galvösk, hrein og bein, kærleiksrík og óttalaus, víðsýn og fagleg. Samtökin hafa hlotið mikið lof fyrir vinnu sína jafnt innanlands og frá áhugafólki erlendis. Þau hafa auðvitað náð einstæðum árangri í að tryggja vandaðri vinnubrögð í skipulagsmálum til framtíðar. 

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.5.2007 kl. 02:09

4 identicon

Sæll vertu Kalli Tomm.  ÉG hef fylgst með Varmársamtökunum frá byrjun og hef áhuga á því að fylgjast með hvernig spilast úr skipulagsmálunum hjá ykkur í Mosfellsbæ.  Reyndar er ég búsettur í Reykjavík, en er tíður gestur í Mosó og sé í nokkrum hyllingum þá framtíðarmöguleika sem Varmársamtökin vilja halda opnum í Kvosinni.  Störf framámanna samtakanna þykja mér vera til fyrirmyndar og ég tel að þeim verði seint full þakkað fyrir sína óeigingjörnu vinnu.  Ég tel að það sé tímabært fyrir bæjarstjórnina í Mosfellsbæ að snúa við blaðinu gagnvart samtökum.  Þér sem forseta bæjarstjórnar er algerlega ósamboðið að fara í  vörn og snúa því upp í persónulega árás þegar kjósendur kalla þig til ábyrgðar.  Mér finnst líka að þú hefðir þurft að gefa skýrari svör við breytti afstöðu þinni í málum Kvosarinnar.  Margt fagfólk er ósammála því að tengibrautin um Kvosina sé besta leiðin og þegar þú segir að þetta þurfi engra skýringa við (ekki í svofelldum orðum) þá er það einfaldlega ekki rétt að mínu mati.  Dylgjur um ofsóknir af hendi Varmársamtakanna og misjafnan ásetning þeirra verða þér ekki til framdráttar, eins og þú hefur vonandi áttað þig á nú þegar.  Bæjarstjórinn hefur líka skaðað Sjálfstæðisflokkinn, sem ég er flokksbundinn í, með sinni framgöngu í málinu.  Það fer ekki alltaf saman að hafa forystuhæfileika og vilja til þess að ráða, því miður.  ÉG ráðlegg þér að ganga út frá því sem vísu að ásetningur Varmársamtakanna sé einlægur og mun það eflaust verða til þess að efla ímynd þína sem stjórnamálamanns.  Samtökin eru komin til þess að vera.  Ég óska þér og fjölskyldu þinni alls hins besta.   

Ragnar Pálsson (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 10:43

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Eg undirritaður vil hvetja Varmársamtökin að kynna sér gaumgæfilega hvernig tengibrautin upp í Helgafellshverfi hefur tekið mjög róttækum breytingum frá því þarfar ábendingar voru settar fram. Brautin eins og hún er í dag á teikningum er ekki sama brautin og samtök þessi eru nú að berjast gegn.

Svo legg eg eindregið til að Varmársamtakafólk taki stefnuna á lygnari sjó og sætti sig betur við staðreyndir. Við þurfum að taka tillit til margra annarra sjónarmiða en örfárra bæjarbúa, t.d. sameiginleg fjármál okkar. Verðmiði á brú þeirrar stærðargráðu sem Varmársamtökin leggja eindregið til hljóðar á nálægt hálfan milljarð. hvar á að taka þá miklu fjármuni? Ekki vaxa peningarnir á trjánum hvorki við Álafoss né annars staðar. Við viljum ekki skuldsetja bæinn okkar meira en nauðsynlegt er og ekki viljum við heldur strika út önnur mikilvæg verkefni á vegum bæjarins.

Þessi stormur í vatnsglasinu er eins og hvert annað fjölmiðlaþvaður sem  tíðkaðist fyrr á tímum. Við erum uppi á öld skynseminnar en ekki trúarofsókna fyrri alda eins og þessi deila ber öll einkenni af.

Fyrir nokkrum áratugum þegar Flosi Ólafsson bjó við Tjarnargötuna í Reykjavík og skrifaði fræga pistla í Þjóðviljann, lagði hann eitt sinn til að kannski mætti flytja Tjörnina í Reykjavík upp í Árbæ. Var þá mikið rifist um drullu og skít í Tjörninni og slæma lykt í umhverfi Tjarnarinnar.

Vonandi þarf aldrei að koma til að lagt verði til að flytja Álafoss og umhverfi hans í Árbæ ásamt öllu þrasinu sem þessari kvos hefur fylgt.

Mosi alias

Guðjón Sigþór Jensson, 11.5.2007 kl. 11:43

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll Guðjón

Hagsmunagæsla fyrir Varmársvæðið er ekki þras, þar er allavega unnið af heilindum fyrir náttúruvernd og útivist á vegum Varmársamtakanna. Vona að ég hafi náð að útskýra fyrir þér kosti tillögu Varmársamtakanna í síðasta pósti.

Varðandi kostnað þá er Vesturlandsvegur á ábyrgð ríkisins. Fyrirhugað er að byggja á Þingvallaafleggjara hringtorg á næstu misserum sem áætlað er að muni kosta um 200 milljónir og Vegagerðin sjálf segir að sé bráðabirgðalausn.

Mislægu gatnamótin í hugmynd VS eru áætluð á um 500 milljónir og væru varanleg lausn bæði fyrir Þingvallaafleggjara og Helgafellshverfi. Lausnir munu alltaf kosta eitthvað. Ef verið er að framkvæma og byggja fyrir marga milljarða í Mosfellsbæ um þessar mundir þá má ekki velta fyrir sér óverulegum aukakostnaði sem gæfi góða lausn fyrir bílaumferð og tryggði tilvist "Varmárdals" sem verndar- og útivistarsvæði upp úr og niður úr.

Þú veist að líkt og við Kárahnjúka þá er æskilegt að setja líka verðmiða á náttúruna sem að er fórnað, ekki satt?

                           Með kærri kveðju,

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.5.2007 kl. 12:22

7 Smámynd: Laugheiður Gunnarsdóttir

Sem gamall mosfellingur er ég agndofa yfir þessum látum um kvosina og deilum um þetta svæði.Reynið að fullorðnast og tala saman eins og fullorðið fólk.Já og það eru fleirri í Mosfellsbænum  en þarna í kvosinni Góðar kveðjur til ykkar allra og fari nú vel með gömlu sveitina mína.

Laugheiður Gunnarsdóttir, 11.5.2007 kl. 17:42

8 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þakka ábendingu, hér fyrir ofan, um nauðsyn þess að efla heilbrigða og málefnalega samræðu. Það er mikilvægast að geta staðið að ferli ákvarðana, skoðanaskipta, sem skynsamt og fullorðið fólk. Til dæmis sýnist mér nú að farsælast væri að kjósa um þessi mál sem skipta svo miklu fyrir þróun bæjarins. Ef Mosfellinagar vilja tengibrautirnar tvær með öllum þeim slæmu afleiðingum sem þeim fylgja þá verður að virða það en það er líka gagnkvæmt, að ef meirihluti bæjarbúa vill vernda og taka frá verndar- og útivistasvæði upp með Varmá, frá ósum upp fyrir Reykjalund, í sífellt þéttari byggð, þá ber að virða það.

Varmársamtökin hafa boðið Karli Tómassyni og vinum hans að ræða málin og stíga skref út úr allri lágkúru. Það boð stendur enn. Við höfum boðið að kynna tillögur Varmársamtakanna fyrir stjórn VG og bæjarstjórn. Það boð stendur enn. Varmársamtökin eru til í að efla alla umræðu sem getur aukið heilbrigði í ákvarðanatöku og að móta leiðir sem gætu reynst heilladrjúgar í átt að auknu íbúalýðræði.

                            Kjósum það besta!

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.5.2007 kl. 22:24

9 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Smáathugasemd:

Gerð hringtorgs við núverandi gatnamót Vesturlandsvegar við Mosfellsdalsveg/Þingvallaveg hefur þegar verið boðin út fyrir nokkrum vikum. Ekki er ljóst hvort samningar við verktaka hafi verið lokið en athugasemdir við fyrirhugað útboð bárust engar!! Verklok eru áætluð í lok júli n.k. ef Mosa minnir rétt. Annars má lesa sig til á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Gleymdu Varmársamtökin sér gjörsamlega í því að hengja bakara fyrir smið? þ.e. Kalla okkar Tomm? Alltaf er auðvelt að finna einhvern  til að tengja glæpinn við þó svo hann reynist vera blásaklaus við nánari athugun.

Mér finnst að þessi ágætu Varmársamtök mættu fylgjast betur með hvað sé að gerast í næsta nágrenni við þau og einnig að við erum stödd í nútímanum en ekki 19. öldinni eins og þau virðast vera föst í.

Kannski mótmælin öll og gassagangurinn sé meira og minna tímaskekkja af verstu tegund.

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 11.5.2007 kl. 22:52

10 identicon

Ég er sammála Laugheiði það heyrist ekki í þeim þúsundum Mosfellinga sem er ekki svona heitt í hamsi um Álafosskvosina eins og sumum.Þeim finnst þetta vera stormur í vatnsglasi og það fólk er ekki sammála þeim neikvæðustu svartsýnis spám Varmársamtakanna að allt muni fara til helvítisí kvosinni.                                                    Þið í samtökunum eigið líka að virða skoðanir þeirra sem eru búin að gera upp hug sinn og eru hjartanlega sammála þeim breytingum sem Vinstri grænir í Mosfellsbæ eru búin að gera til batnaðar á þessum veg.

Högni Snær

Högni Snær (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 22:53

11 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Er ekki lausnin að kósa um málið? Íbúalýðræði er 21. öldin. Þá kemur í ljós hversu glasastormurinn út af 500 m veglagningu  er mikill eða réttara sagt vilji íbúa til útivistar- og verndarsvæðis bæjarins. Finnst rétt að íhuga undirskriftir þar sem beðið er um slíka kosningu.

Kalli, Hjördís, Guðjón, Högni þið þungavigtarfólk í VG. Hvernig viljið þið útfæra íbúalýðræði sem er eitt af helstu áherslum Vinstri grænna í kosningunum í dag? Í Hafnarfirði er boðið upp á kosningu ef 20% íbúa óska þess. Gæti það ekki verið ágætt viðmið í bænum okkar líka. Eflum lýðræðið er besta leiðin til að eyða ílldeilum og átökum.

                                 Kjósum það besta!

Gunnlaugur B Ólafsson, 12.5.2007 kl. 09:34

12 Smámynd: Guðmundur St. Valdimarsson

Íbúalýðræði virkar þannig að íbúar bæjarinns fara á kjörstað á fjögura ára fresti og kjósa um það hverjir skulu stjórna bænum næstu fjögur árin. Þeir sem flest athvæði fá mynda svo bæjarstjórn náist um það málefnasamningar og þá MÁLEFNAsamningar, ekki rifrildi um stóla, eða þeir sem geta komið sér saman um mál með marktækan meirihluta. Sé um stór hagsmunamál að ræða sem snerta alla íbúa bæjarinns og þá meina ég ALLA mætti hugsa sér að boða til íbúakostningu um málið. Ég hugsa að 10 - 20 manns dugi ekki til þess, og þó að þeir væru 100.

Þetta er sett fram til fróðleiks og skemmtunar fyrir þá sem ekki virðast skilja hvernig stjórnhættir og lýðræði virkar árið 2007.

Svo vona ég að mitt fólk sigri í þessum kostningum í dag. Til hamingju Ísland a la Silvía Nótt.

Kærar kveðjur úr Langtburtistan

Guðmundur St. Valdimarsson, 12.5.2007 kl. 10:51

13 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll Guðmundur

Sendi svona fyrirspurn á VG fulltrúa um hvernig þeir sjá fyrir sér að útfæra íbúalýðræði hér í bænum sem er ein af megináherslum flokksins fyrir kosningarnar. Vona að þú sérst ekki að svara fyrir þeirra hönd.

Bæði finnst mér þú setja litla vigt á verndar- og útivistarsvæði upp með Varmá, sem mér finnst vera mikið hagsmunamál allra íbúa. En svona þér til fróðleiks og skemmtunar, þá eru stjórnarhættir meirihlutans ekki að virka vegna skorts á lýðræðisvitund og viðleitni til að taka tillit til sem flestra sjónarmiða. Já, það meira að segja þó komið sé árið 2007.

                                 Kjósum það besta! 

Gunnlaugur B Ólafsson, 12.5.2007 kl. 15:56

14 Smámynd: Guðmundur St. Valdimarsson

Sæll og blessaður Gnnlaugur

Það væri útilokað fyrir mig að svara fyrir þeirra hönd, í fyrsta lagi þar sem ég er yfir 500 sml frá ykkur og veit ekkert um hvað málið snýst í dag, enda aldrei það sama sem verið er að ræða um dag frá degi. Í öðru lagi svara þeir sem  spurningunum er beint til, en ekki ég, ég segi bara eins og mér finnst. Mér er alveg sama hvað þér finnst um um mína náttúru vigt enda ert það ekki þú sem á hana stígur, aldrei sem betur fer, mér fynnst meira vænna um landið mitt en svo. Ég hef ekki enþá séð hvað það er sem kemur þér til þess að svara öllum komentum sem byrtast á netinu, virðist sama á hvaða síðum það er. Alstaðar ert þú að svara. Ert þú þessi samtök? Ég er mjög almennur umhverfissinni, en ekki öfgvafullur bókstafstrúarmaður svo að jaðri við ofstæki. Ég vil lifa í sátt og samlindi við umhverfi mitt og það fólk sem í kringum mig er. Þú skalt átta þig á því strax og ekki seina en strax að ég er EKKI VG maður og hef aldrei verið og mun aldrei verða, það breytir því ekki að ég á mikið af góðum vinum sem eru þar í flokki. Ég get ekki stjórnað því hvað annað fólk gerir eða hugsar, en það þarf ekki að vera slæmt fyrir því. Þú segist hafa spurt VG fólk sérstaklega spurninga, gott og vel, en af hverju þorir þú ekki að spyrja D lista fólk sömu spurninga.

Ég hef fulla trú á meirihlutanum sem stjórnar bænum, þeir virðast alla vegana taka sínar ákvarðanir og standa og falla með þeim, en ekki standa í svona þrasi eins og þú við fólk sem hefur ekkert með þetta að gera á netinu. Góður maður í Reykjavík fer á hverjum degi niður í bæ með mótmælaspjaldið sitt, þér væri nær að taka þér hann til fyrirmyndar heldur en að stunda þessar netnjósnir um hver segir hvað við hvern og afhverju. Kanski gætir þú bara tekið við af Helga Hó.

 Kveðja frá enþálengraenímorgun Langtburtistan

Guðmundur St. Valdimarsson, 12.5.2007 kl. 18:26

15 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Guðmundur minn

Þú ert ekkert sérlega kurteis ...... en gangi þér vel í túrnum

Gunnlaugur B Ólafsson, 13.5.2007 kl. 03:59

16 Smámynd: Guðmundur St. Valdimarsson

Sæll og bless öll

Þú getur ekki ímyndað þér hvað ég þurfti að breyta þessu oft, einmitt til þess að ná svona hógværð í þetta. Ég þyki með eindæmum kurteis og hógvær maður, er mér sagt af þeim sem mig þekkja. Á stundum svolítið tilfiningaríkur. Ég er ekkert fyrir málskrúð og fagurgala og segi hlutina bara umbúðarlaust, stundum á kjarnyrtu sjóaramáli þar sem sum orð hafa bara ekki sömu merkingu og hjá öðrum. En förum ekki nánar út í það. Ef að ég segði allt sem mig langar til og skreytti texta minn með brosköllum og kærleiksbjörnum væri ég þá kurt.....? Held ekki. En svona er þetta nú bara. Ég nenni ekki að Þrasa meira um þetta.

Kalli til hamingju með stórsigurinn í nótt. Greinilegt að sú skipulagða aðför að ykkur hefur ekki haft nein áhrif nema þá síður sé ykkur til bóta. Nú verður spennandi að fylgjast með því sem framundan er. Þótt ekki hafi mínum flokk gengið neitt sérstaklega vel er ekki öll von úti enn.

 Kærleikskveðjur frá töluvertmikiðlengra Langtburtistan

Guðmundur St. Valdimarsson, 13.5.2007 kl. 10:55

17 Smámynd: Guðmundur St. Valdimarsson

Það slitnaði á mig sambandið áður en ég gat klárað síðustu færslu. En að sjálfsögðu eins og kurteisum mönnum sæmir, þakka ég Gunnlaugi fyrir hlýjar kveðjur til mín á sjóinn, alltaf vinarlegt að fá góðar kveðjur takk fyrir mig.

Hérumbileinslangtíburtuogáðan Langtburtistan

Guðmundur St. Valdimarsson, 13.5.2007 kl. 13:21

18 Smámynd: HP Foss

Ja, hérna, eða eins og sagt var Hvurslags er þetta? Það rann upp fyrir mér ljós áðan. Stend fyrir utan "Varmármálið" nema hvað Kalla er ég vel kunnugur. Hef verið að lesa skrif Gunnlaugs og ekki alveg áttað mig á þeim en gerði það áðan yfir fréttunum.  Er hann ekki jógaleiðbeinandi?  Ef konan mín ætti pantaðan tíma hjá svona jógamanni, myndi ég fá hana til að afpanta tímann. Þvílikt kast!

Kveðja úr sauðburðinum
Helgi

HP Foss, 14.5.2007 kl. 22:16

19 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Aðalbrandarinn á mínu heimili er um hinn "ævareiða varaformann" því það var ég alls ekki. Opnaði leið fyrir fólkið að gröfunum í gegnum þennan "Berlínarmúr" sem settur hafði verið upp. Það er hverjum nauðsynlegt að geta verið fylginn sér og þannig er ég ekki skaplaus, en aldrei mun ég nú verða talin árásargjarn maður. Múrinn var tákn um ofbeldi og svik. Stjórn Varmársamtakanna var á fundi niður í bæ hjá ráðgjafafyrirtækinu ALTA, sem er að vinna umhverfisskýrslu fyrir Mosfellsbæ. Á meðan fara þeir af stað áfram með veglagningu undir þeim formerkjum að verið sé að leggja lagnir. Skora á fólk að fara og skoða aðstæður. Það er kominn 5 metra malarpúði undir veg sem að komin er að skógarlundinum og  er ekkert deiliskipulag fyrir. Er stoltur af því að hafa tekið þetta víravirki niður sem svona táknræna aðgerð.

Þú ert svolítið eins og Síðu-Hallur (sem reyndar bjó fyrst á Þvottá). Hann lét fyrst skíra tvær kerlingar til kristni og athuga hvort að þær hefðu verra af, áður en hann myndi skírast til skírni. Þú nefnir það hinsvegar að þú myndir ekki senda konu þína til mín í jógatíma. Get sagt þér í fullri einlægni að þú myndir meira að segja lifa það af sjálfur.

                          Með kærleikskveðju,

Gunnlaugur B Ólafsson, 15.5.2007 kl. 00:04

20 Smámynd: Guðmundur St. Valdimarsson

Húrra fyrir bakaradrengnum húrra Múhhhhaaaa

Guðmundur St. Valdimarsson, 15.5.2007 kl. 02:29

21 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ráðlegg nú Karli að fara að setja inn eitthvað uppbyggilegra innlegg heldur en útúrsnúning á ummælum mínum í Mosfellingi. Karl og tölvuvæddir vinir hans hafa farið mikinn í að verjast einhverrri persónulegri aðför að honum en því miður ekki verið mikill metnaður í að koma með áhugaverða punkta inn í skipulagsumræðuna sem brunnið hefur á fólki síðustu misserin.

Fannst ég verða að setja inn hér útskýringar þar sem skeytum og skotum er beint persónulega að mér. Um rúmt mánaðarskeið hef ég þó ekki svarað Hjördísar Kvaran, sem eins og ég hef áður sagt er drifin áfram af einhverjum allt öðrum hvötum heldur en áhuga á skipulagsmálum, Varmársvæðinu eða framtíðarmöguleikum Mosfellsbæjar. Hún er nú farin að vera bökkuð upp af manni sínum, en ekki leynipennum. Það er fagurt í sjálfu sér. "Húrra fyrir bakaradrengnum húrra Múhhhhaaaa".

Nú hef ég ákveðið að setja algjört bindindi á þátttöku á þessum vef Karls. Ég get ekki séð að hann hafi orðið umræðu hér í bæjarfélgainu til nokkurs gagns, nema ef síður væri. Merkilegt að verða aftur og aftur fyrir persónulegu skítkasti frá fólki sem telur sig vera að verja persónu manns, sem ég hef ekki lagt neikvætt orð til í minum skrifum. Svo mikið er víst. Sú regla að halda sér á málefnalegu plani, en sleppa persónulegum niðrandi ummælum, hlitur að gilda um fleiri en Karl. Virðist þó hér sannast hið fornkveðna að það er betra að kenna heilræðin en halda þau.

                      Megi góðir andar efla fólk til góðra verka,

Gunnlaugur B Ólafsson, 16.5.2007 kl. 00:47

22 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Var ekki viðtalið í sjónvarpinu í kvöld við formann Varmársamtakanna, eða hvort hún er bara félagi, ekki bara nóg til að sjá hve ´"málefnalega" er barist á þeim vígstöðum. Eða menn sem ganga fram og klippa niður girðingar þar sem verið er að vinna samkvæmt fullu leyfi. Það er alltaf vont þegar leggja þarf vegi gegnum byggð og er þessi blessaði vegarspotti engin undantekning frá því. Það þarf hins vegar að leggja veg og þó það svíði sumum, er þetta bláköld staðreynd. Hluti af sambýli við annað fólk og vaxandi bæjarfélag, sem þrátt fyrir snautlegar athugasemdir aðfluttrar fyrrum hundrað eins elítu, er alveg hreint frábær bær að búa í. Álafosshvosin tilheyrir öllum íbúum bæjarins, alveg eins og önnur svæði hans. Vonandi að þrasinu um þetta fari nú að linna og fólk að slíðra sverðin. 

Halldór Egill Guðnason, 16.5.2007 kl. 00:54

23 Smámynd: Guðmundur St. Valdimarsson

Sæll Gunnlaugur

Seint verð ég nú talin verða leynipenni þar sem ég í skrifum mínum hef alltaf komið fram undir nafni mínu, utan einu sinni á síðu eiginkonu minnar er ég var að óska henni til hamingju með sína nýju síðu, taldi mig ekki þurfa að kinna mig heima hjá mér fyrir öðrum fjölskyldumeðlimum. Það dugði til þess að komast á á þennan meinta IP tölu lista þinn yfir meinta netdólga, uppbyggileg umræða ekki satt? Maður má ekki einu sinni óska sinni eigin fjölskyldu til hamingju heima hjá sér undir gælunafni "Gummi" án þess að netnjósnarar pikki mann út og úthrópi mann sem netdólg. Mig rekur ekki mynni til þess að hafa skrifað athugasemdir á þína síðu eða síðu þeirra samtaka sem þú ert í forsvari fyrir öðru vísi en undir nafni, þannig að mér er það algerlega óskiljanlegt hvað þú ert að munnhöggvast við mig á síðum annars fólks. Mér barst þessi IP tölulisti í tölvupósti sem "gekk á netinu". Ekki veit ég hvernig ástandið er heima hjá þér, en við hjónin erum mjög samrýnd og bökkum hvort annað upp þegar þurfa þykir. Í gegnum aldirnar er hefð fyrir því að karlmaðurinn á heimilinu ver fjölskyldu sína fyrir utanaðkomandi árásum og áreiti, það geri ég. Ef að ég og mín fjölskylda meigum ekki hafa aðrar skoðanir á hlutunum en þóknast þykir verður svo að vera. Ég er sammála mörgum af baráttumálum samtakana, en ekki þeirri aðferðarfræði sem notuð er til þess að að ná þeim fram. Það þarf alltaf tvo til að deila og málamiðlanir nást oftast ef báðir aðlar gefa lítilega eftir af kröfum sínum. Ég tel að bærinn sé búinn að gefa mikið eftir og breyta þessari braut þannig að sátt ætti að nást, þannig að nú er kannski spurningin um hvað þið viljið gefa eftir til þess að svo megi verða. Látum ekki þessa náttúruperlu sem kvosin er líða frekar fyrir þessar deilur og verða stríðsminnismerki um þau átök sem orðið hafa í þessu máli.

Kveðja frá Langtburtistan

Guðmundur St. Valdimarsson, 16.5.2007 kl. 12:48

24 Smámynd: Guðmundur St. Valdimarsson

Auðvitað er það aumkunarvert. Ég talaði hins vegar undir rós þar sem, net njósnarinn 86.122.1.007 með leifi til að rífa niður girðingar, er búinn að segja að ég sé ekki kurteis maður og á stundum dóni, svo hef ég líka ekki réttar skoðanir og þá væntanlega er ég þar með orðin nátúru-hriðjuverkamaður og engin vill stíga á vogina mína. Fyrir stuttu fór ég í bíltúr niður í kvos sem ég geri oft til þess að njóta þess sem hún hefur upp á að bjóða, með einn vin minn. Hann spurði mig, á að rífa öll þessi fallegu hús til þess að leggja þessi tengibraut hérna í gegn og yfir allt? Nei það á ekki að gera það svaraði ég honum eftir bestu getu. Ég fór með hann og sýndi honum hvað það væri sem ætti að gera, fór á netið þegar heim var komið og sýndi honum hvað til stæði. á myndum sem þar er hægt að ná í. Hann átti ekki til orð yfir þetta stríð sem búið er að vera í ljósi þess að tengibrautin kemur ekki í gegnum kvosina og því síður yfir hana og að auki búið að færa hana eins langt frá áni og kostur er. Svona getur málflutningur verið villandi ef ekki er rétt farið með staðreyndir eins og í þessu máli. Þessi vinur minn er sveitarómantíker og mikill náttúru unanndi, meira að segja hann breytti afstöðu sinni þegar hann var búinn að sjá þetta brúnt á grænu.

Guðmundur St. Valdimarsson, 16.5.2007 kl. 14:30

25 Smámynd: HP Foss

Jæja, ekki er ég nú vanur að sparka í liggjandi mann og því síður ef hann hefur misst málið í þokkabót en nú held ég að komið sé að lokum hjá samtökunum, atburði dagsins geta þeir ekki þvegið hendur sínar af, það er augljóst. Útúrsnúningar í þá átt eiga ekki við. Afsökunarbeiðni til handa verktakanna og íbúa í grenndinni, væri þeim til bóta, afsökunarbeiðni fyrir að hafa með geðsýkiskasti rutt í burt girðingu og þar með gefið tóninn til fólks sem ekki veit hvar stöðva skal. Hvað er næst? Verða eigur manna sem ekki þóknast hugmyndafræði Varmársamtakanna næstar? Ég vona ekki og mættu forsvarsmenn samtakanna gera betur í að róa þann hóp sem þau hafa æst til slíkra verka.

Ég færi ekki rólegur í sveitina mína frá minni konu, með slíkan lýð í bakgarðinum mínum.

Kv
Helgi Pálsson

HP Foss, 16.5.2007 kl. 19:54

26 identicon

ja.......ég á eftir að sakna þín Gunnlaugur minn ,ég verð að viðurkenna að ég hef verið hrifin að mörgum þínum skrifum hér á þessari síðu þannig að það verður söknuður frá mér.    Enda hafa þessi skrif verið ansi oft verið reifarakengd og ótrúleg....ótrúlega skondin og furðuleg.

En ég virði skoðanir fólks og mér finnst aðdáunarvert að fólk sé tilbúið að berjast svo langt fyrir sínum skoðunum,svo lengi sem það fari ekki út fyrir nein skinsamleg mörk sem því miður þú hafa farið út fyrir að mínu mati.Og ég vona að þið virðið okkar skoðanir sem ekki eru sammála ykkur í Varmársamtökunum,því ykkar orð og skoðanir eru ekki heilög lög.

Það eru þúsundir íbúa Mosfelssbæjar sammála staðsetningu þessarar brautar þó svo að þau láti ekki í sér heyra og rífi niður öryggisgirðingar sem ætlaðar eru til öryggis fyrir börn og fólk.

Högni Snær

Högni Snær (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 19:56

27 identicon

Hafðu ekki áhyggjur Helgi minn ég kann ráð við slíkum líð og ef þú vilt spígspora um okkar fallegu sveit jafnvel koma til okkar að versla lopa í kvosinni eða ket úr fjósinu þá skal ég vera þér til verndar,gegn vægu gjaldi að sjálfsögðu.Enda kann ég ráð við að hrista af mér umhverfisamtök,móðursjúka Herbolife sölumenn og ölvaða nágranna,sem ég hef þurft að gera í gegnum árin.

Högni Snær

Högni (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 20:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband