þri. 17.4.2007
Hundrað athugasemda greinin!!!
Ég skrifaði á dögunum grein sem bar yfirskriftina Varmársamtökin og Vinstri græn. Nú er svo komið að hátt í eitt hundrað athugasemdir hafa verið færðar á bloggsíðu mína vegna hennar.
Sennilega slagar það í Íslandsmet. Þessi umdeilda tengibraut sem allir hafa skoðun á og því miður einnig fólk sem hefur ekki kynnt sér málavöxtu hefur fengið mikla athygli í fjölmiðlum. Á myndinni má sjá legu hennar. Þar sem hvítu punktarnir eru mun tengibrautin taka við af gamla Álafossvegi. Fyrir neðan hvítu punktana er Álafosskvosin þar sem svo margir álíta, fyrir einhvern misskilning, að tengibrautin fari í gegnum. Eins og sjá má er það víðs fjarri. Tengibrautin liggur fyrir ofan Álafosskvosina eins og glöggt má sjá. Bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar hafa gert allt til að milda áhrif hennar, m.a. með því að lækka hana til muna og færa fjær Kvosinni. Einnig má sjá þar sem rauðu punktarnir eru að gert er ráð fyrir vegi. Nú er fyrirhugað að leggja þann veg af og tengja Álafosskvosina með vegstubb þar sem hvítu punktarnir með svarta dílnum eru. Þetta er málið.
Þetta er stóra umhverfismálið. Þetta er stóra umhverfisslysið í Mosfellsbæ sem Samfylkingin og Framsókn hafa róið öllum árum til að koma höggi á Vinstri græn í Mosfellsbæ. Það ótrúlega er að flokkarnir báðir hafa aldrei greitt þessari tillögu á legu brautarinnar mótatkvæði sitt og hafa þeir nú haft mörg tækifæri til.
Athugasemdir
Hér blasa við við ódæðis og hryðjuverk vinstri grænna í Mosfelsbæ ekki satt!
Það myndu margir segja "er allt þetta vesen út af þessu !"Já það má þvera Varmánna og bryggja hana, búa við hana en það má ekki keyra fram hjá henni á tengibraut.Magnað ekki satt
Högni
Högni (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 22:58
Hvernig væri að leiða fólk í sannleikann um ástæðurnar fyrir þessum breytingum en þær eru eins og alþjóð veit baráttu Varmársamtökunum að þakka en ekki umhverfisstefnu VG í Mosó að þakka.
Hér á eftir fer úttekt VS á kostum og göllum tengibrautarinnar:
Varmársamtökin hafa undanfarið ár unnið að því hörðum höndum að afstýra þeirri ráðagerð bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ að leggja tengibraut úr Helgafellshverfi um Álafosskvos. Samtökin telja að bæjaryfirvöld hafi ekki upplýst íbúa um varanleg neikvæð áhrif af legu hennar heldur miklu fremur reynt að slá ryki í augu almennings með gerð myndbanda og útlitsteikninga sem birta mynd sem er víðsfjarri öllum raunveruleika. Til að meta áhrifin sem lega tengibrautarinnar hefur fyrir bæjarfélagið gerðu fulltrúar Varmársamtakanna samantekt á kostum hennar og göllum:
GALLAR:
· Umferðaröngþveiti myndast á álagstímum við hringtorg við þjóðveg 1 og langar biðraðir bíla þegar helgarumferð er í hámarki á sumrin
· Slysahætta eykst til muna við gatnamótin vegna aðlíðandi brekku sitthvoru megin hringtorgsins
· Umferð er beint ofan í kvos þar sem heilsuspillandi útblásturs- og svifryksmengun sest fyrir í stillum. Heilsu skólabarna er með þessu stefnt í voða þar sem helsta íþróttasvæði Mosfellsbæjar liggur í aðeins nokkurra metra fjarlægð frá hringtorgi
· Lega tengibrautarinnar frá Auga að Vesturlandsvegi eykur slysahættu og torveldar umferð barna og fótgangandi milli hverfa.
· Tvískipting bæjarfélagsins í byggð vestan og austan Vesturlandsvegar verður áþreifanlegri en áður
· Bílaumferð um tengibrautina veldur viðvarandi umferðarhávaða, loft- og sjónmengun í Kvosinni sem er vinsælasta útivistarperla bæjarfélagsins. Mengunin rýrir með afgerandi hætti lífsgæði íbúa á svæðinu
· Mosfellsbær tapar dýrmætasta menningarsögulega sérkenni sínu sem er þorpsstemning á gömlum grunni í Álafosskvos
· Viðvarandi umferðarhávaði og útblástursmengun skaðar atvinnu- og listastarfsemi í Álafosskvos og kemur í veg fyrir að hægt verði að nýta einstakt umhverfi hennar fyrir útimarkaði, leikhús og tónlistarflutning. Náttúruhljóð hverfa í umferðarnið
· Lífríki spillist og vatnsmagn minnkar í Varmá, þ.m.t. í Álafossi sem stendur til að friðlýsa
KOSTIR:
· Bílaumferð úr og í Helgafellshverfi verður greið - utan álagstíma
Af þessari upptalningu má ráða að gallar skipulagsins vega mun þyngra en eini kosturinn sem kom til álita eftir umfangsmikla leit. Það blasir við að fórnarkostnaðurinn sem þessar löngu úreltu skipulagshugmyndir hafa í för með sér er of hár. Sú byggð sem nú er fyrirhuguð í Helgafellslandi á lítið sameiginlegt með upphaflegum áætlunum sem bæjaryfirvöld þó nota til að réttlæta legu tengibrautarinnar. Íbúafjöldi hefur 15-20 faldast og flatarmál hverfisins þrefaldast síðan 1983. Stefnuleysi í umhverfismálum setur mark sitt á skipulagsgerð og þvermóðska einkennir viðbrögðin við vísbendingum íbúa og eftirlitsstofnana í umhverfis- og skipulagsmálum. Einstefna bæjarstjórnarmeirihlutans í samskiptum við íbúa er farin að valda Mosfellsbæingum skaða. Við í Varmársamtökunum segjum að nú sé mál að linni. Finna þarf Helgafellsbraut stað sem lágmarkar skaða samfélagsins af legu hennar. Það verður hér eftir aðeins gert í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila s.s Vegagerð ríkisins.
Blog Varmársamtakanna: www.varmarsamtokin.blog.is
Sigrún Pálsdóttir
stjórnarmaður í Varmársamtökunum
Sigrún P (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 23:14
Heil og sæl Sigrún.
Er þetta huglætt mat?
Kær kveðja frá Kalla Tomm.
Karl Tómasson, 17.4.2007 kl. 23:17
Öll vinna Varmársamtakanna hefur verið á faglegum nótum. Við höfum leitað eftir áliti skipulagsfræðinga, líffræðinga, fiskifræðinga, arkitekta, verkfræðinga, lögfræðinga, jarðfræðinga, sagnfræðinga, Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlitsins og Vegagerðarinnar.
Ég mæli eindregið með að fólk kynni sér mjög upplýsandi umsögn Umhverfisstofnunar um tengibraut um Álafosskvos og Leirvogstungu. Eins umsögn Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis og Náttúrufræðistofnunar. Þeir sem vilja fá send eintök hafi samband við Varmársamtökin: varmarsamtokin@gmail.com
Sigrún P (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 23:58
Heil og sæl Sigrún.
Heldur þú virkilega að vinna Bæjaryfirvalda Mosfellsbæjar hafi ekki einnig verið á faglegu nótunum???
Karl Tómasson, 18.4.2007 kl. 00:05
Heill og sæll Kalli
Vandamálin eru einkum þrjú. 1. Þrengir að svigrúmi Álafosskvosar. 2. Þrengir að útivist, bæði göngustígum og reiðstígum. 3. Hringtorg með aðliggjandi brekkum sitthvoru megin mun í besta falli verða skammtímalausn. Tengibrautin er sýnd undir Vesturlandsveg á aðalskipulagi og því er þetta bara tímabundið yfirklór til að fást ekki við nema ein vandræði er tengjast málinu í einu. Þarna þurfa að vera mislæg gatnamót og þá er málið fyrst orðið alvarlegt umhverfisslys. Með Brúarland upp á umferðareyju. 10.000 bíla á dag brunandi inn í miðbæinn. Vesturlandsveg efstan, tengibraut þar undir sem liggur í beygju þvert á vinsælar göngu og reiðleiðir, sem þá væntanlega eiga að koma undir tengibrautina?
Þetta hljómar slæmt mál, en hafðu ekki áhyggjur Kalli minn, við erum búin að leysa þetta fyrir ykkur. Við munum kynna byltingarkennda nýja og græna hugsun í málinu á laugardaginn í Þrúðvangi undir yfirskriftinni Heildarsýn; Vesturlandsvegur- Mosfellsbær. Það er leiðinlegt að heyra að yfirlýsingin um "að þetta væri allt til endurskoðunar" á Draumakaffi hafi bara verið einhver vinstri grænn draumur, en svo hafi tekið við hin gráa steypukennda handleiðsla samstarfsflokksins.
Þú veist vonandi að deiliskipulagið var afturkallað og því er þetta formlega "allt opið til endurskoðunar". Málið er á vissan hátt aftur á byrjunarreit varðandi tengslin við hverfið, umræðu og athugasemdir. Ég lofa þér því líka að umræðan er bara að byrja og það mun trúlega magnast krafa bæjarbúa um að fá að kjósa um tillögur Varmársamtakanna og núverandi lausn bæjarstjórnar. Væri það ekki vínkill á málinu sem allir gætu sætt sig við og í anda stefnuskrár vinstri grænna um íbúalýðræði?
Með kærri kveðju,
Gunnlaugur B Ólafsson, 18.4.2007 kl. 00:36
Þessi umræða er að verða með hreinum ólíkindum. Ég hef aldrei upplifað annað eins moldviðri út af nokkrum hlut eins og þessum. Rök með og á móti á báða bóga, illsakir troðnar við menn og málefni að fornum sið, hræddur um að sveitungi okkar fyrr á öldum Egill Skallagrímsson hefði farið og vegið mann og annan fyrir minni sakir, minnstakosti danglað lítilsháttar í einhvern með hokkíkylfu sinni.
Þetta hverfi er staðreynd hvort sem fólki líkar það eða ekki.
Ekki minnist ég þess að stofnuð hafi verið samtök um að friða Leifsbrekku þegar Tröllateigurinn var byggður, þar tóku mörg börnin sín fyrstu spor á skíðum. Leifur þessi var hagleiksmaður á járn og rak til margra ára járnsmiðju í húsi sem bar nafnið Brún. Þar hefði mátt hugsa sér safn á verkfærum hans sem hann smíðaði að mestu sjálfur. Húsið er nú búið að rífa með öllu og stendur ekkert eftir sem minnir á það. Leifur var einstaklega barn góður maður og hafði endalausa þolinmæði fyrir stráka sem komu reglulega til hans með brotin hjól eftir allskonar tilraunir með þau. Einnig var gott að fara og tala við Leif ef eitthvað þurfti að uppfæra og breyta fararskjótana til þess að þeir þyldu betur þá meðferð sem þeim var ætlað. Ekki voru stofnuð samtök um að friða Lágafellið þegar Krikahverfið fór í byggingu. Mörg ævintýrin áttu börn á árum áður þar.
Ekki voru stofnuð samtök um að friða hitaveitustokkana sem lágu hér þvers og kruss um bæinn, leifi mér að fullyrða að það hafi verið fyrstu göngustígar með snjóbræðslu á landinu alltaf auðir og hægt að komast á þeim um allt bæjarfélagið.
Ekki minnist ég þess að stofnuð hafi verið samtök um að vernda skurðinn við stokkinn fram af Asparteignum, þar fraus á veturna þannig að hægt var að fara á skauta og margir sem stigu sín fyrstu skref á skautum.
Til þess að þetta fólk sem kemur til með að búa í þessu hverfi komist að og frá húsum sínum þarf að liggja einhver vegur þarna. Varðandi þau rök um að umferð um hringtorgið við Brúarland verði lífshættuleg vegna umferðar langar mig til þess að bera fram þá spurningu um hvernig því verður háttað þegar lagning Sundabrautar verður lokið hvort það muni ekki létta á Vesturlandsveginum? Einnig væri áhugavert að vita hvort hugað hafi verið að því að leggja slitlagið á tengibrautina með öðrum efnum en malbiki? En það mun vera stór þáttur í tískufyrirbrigðinu svifryki sem alla er að drepa núna hin síðari misseri.
Ég fæ ekki betur séð en að komið hafi verið til móts við flest það sem raunhæft getur talist við lagningu þessarar brautar. Leifum réttkjörnum fulltrúum þessa bæjar að stjórna honum í umboði okkar, svo friður skapist um hann og þær framkvæmdir sem hér eru unnar.
Í landinu Helga
skála skal byggja.
Vegastæði skal því
með góðu tryggja.
Farskjótar upp og niður
engan styggja.
Virðingarfyllst
Guðmundur St. Valdimarsson
Guðmundur St. Valdimarsson, 18.4.2007 kl. 01:08
Ef marka má atburðarrás undanfarinna mánaða og umsagnirnar sem ég benti á áðan vantar mikið upp á að undirbúningur við lagningu tengibrautarinnar geti talist fullnægjandi. Dæmi um ófagmannleg vinnubrögð er m.a. að hunsa skoðanir íbúa. Aldrei hefur verið haft samráð við fólkið og aldrei verið unnin fagleg úttekt, þ.e. skýrsla byggð á rannsóknarvinnu á öðrum valkostum. Bæjarstjórn hefur ætíð komið fram með fullmótaðar tillögur sem íbúar hafa ekki fengið að hafa neina aðkomu að. Íbúafælni meirihlutans endurspeglast svo ekki verður um villst í svari þínu og sjálfstæðismanna til Varmársamtakanna í síðustu viku. Við fórum í byrjun febrúar þess á leit við bæjarstjórn Mosfellsbæjar að við skoðuðum í sameiningu hvort hægt væri að finna leið út úr Helgafellshverfi sem hefði skaðminni afleiðingar fyrir bæjarfélagið. 11. apríl var því samstarfi hafnað á þeirri forsendu að það væri bæjarins ekki íbúa að vinna umhverfisskýrslu, - sem átti reyndar lögum skv. að vinna samhliða gerð deiliskipulagsins á síðasta ári.
En kemur gerð umhverfisskýrslu íbúum ekki við fyrr en búið er að fullvinna hana? Í leiðbeiningum Skipulagsstofnunar um gerð umhverfisskýrslu segir m.a. á bls. 10, undir yfirskriftinni: "Kynning og samráð við umhverfismat áætlana
Einn af lykilþáttum umhverfismats áætlana er aukin aðkoma almennings og þeirra stjórnvalda sem sinna umhverfismálum, að áætlanagerð um ráðstöfun lands. Við umhverfismat áætlana er æskilegt að kynning og samráð eigi sér stað snemma í mótunarferli áætlunar þannig að ábendingar og athugasemdir sem fram koma frá samráðsaðilum og almenningi um umhverfisáhrif áætlunar geti haft áhrif á mótun endanlegrar áætlunar."
Fagleg vinnubrögð felast í því að kynna sér hlutina. Það hafið þið í þessu tilviki augljóslega ekki gert. Ég mæli með að þið gluggið líka í Skipulagsreglugerðina til frekari fróðleiks um þátttökurétt íbúa. Ekki væri heldur úr vegi að kíkja í Græna framtíð svona bara til að kynnast stefnu flokksins sem þú ert fulltrúi fyrir.
Þú kvartaðir sáran undan valdníðslu bæjarstjórnarmeirihluta sjálfstæðismanna fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar:
"Bæjaryfirvöld mega ekki gera slík mistök sem vegurinn inn í Helgafellslandið er. Það er ótrúleg skammsýni að ráðast í þessa framkvæmd en í raun samt talandi dæmi um yfirganginn, þröngsýnina og smekkleysið sem einkennir svo margar framkvæmdir, bæði hér og á landsvísu. Græðgi, yfirgangur og tillitsleysi gagnvart einu og öllu virðist því miður allsráðandi."
Ég sé ekki betur en að hinn hneykslaði borgari sé orðinn fullgildur félagi í þessu kompaníi.
Sigrún P (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 01:55
Ef þetta mál er svo lítilfjörlegur stormur í vatnsglasi Karl, af hverju er bæjarstjórnin ekki búin að leysa það fyrir löngu? Hér logar allt yfir þessu smámáli? Ég býð ekki í úrlausnir ykkar á stórum málum. Ég er reyndar ekki sammála því að íbúalýðræði og umhverfis- og skipulagsmál séu smámál. Ég veit að þú metur mitt álit mikils þannig að ég get deilt því með þér að aðferðirnar sem þið notið eru ekki fallnar til þess að leysa neitt. Útkastarar á kynningarfundum, að tala niður til fólks, að troða öllum í samfylkinguna eða framsókn sem leyfa sér að gagnrýna vinnubrögðin og ýja að því að annarlegar hvatir búi að baki áhuga borgaranna á umhverfi sínu hafa ekki virkað vel til þessa.
Ert þú kannski ekki fylgjandi flokkslínunni varðandi mikilvægi íbúalýðræðis?
Kvos er dæld, dalverpi, bolli í landslagi fjalli. Þá er ekki bara átt við neðsta hluta dalverpis, dældar eða bolla. Það að bærinn hafi ákveðið í deiliskipulagi að skilgreina kvosina öðruvísi breytir ekki þeirri staðreynd að kvosin er ekki bara húsin í Álafosskvosinni.
Að lokum þá hafa Varmársamtökin safnað saman miklu af gögnum sem eru niðurstöður rannsókna fjölda fólks á ýmsu varðandi umhverfismál. Mér vitandi hafa samtökin ekki haft kost á að fjármagna frumrannsóknir enda er það hlutverk sveitarfélagsins og umhverfisyfirvalda.
KIP (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 11:01
Held að vinstri grænir séu full fljótir að yfirgefa sínar hugsjónir og baráttumál bara ef þeir komast til valda. Mosfellsbær sýnir okkur hversu vel "heppnað" er að hafa vinstri græna í meirihluta. Guð forði okkur frá þvi að þeir komist í ríkisstjórn.
þetta er mitt huglæga mat.
kveðja,
Páll Einarsson, 18.4.2007 kl. 11:57
Skipulagsmál eru í miklum ólestri síðan á seinni heimsstyrjöld. Kerfið er fast í stöðnun sem á sér engann líka. Þessi vegaspotti er bara ein dellan af hundruðum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið.
Karl, þú mættir lesa þér til í borgarskipulagsfræðum. Það eru til aðrir möguleikar en að byggja botnlangagötur uppi í (fv.) sveit og skella hraðbraut utanum.
Þar fyrir utan mun tengibrautin dóminera ofanvið rými Álafosskvosar. Að fá svona hraðbraut nokkra metra frá kvosinni er auðvitað tóm eyðilegging, hvort sem menn eru að goggast í VG eða Sjálfstæðisflokknum. Dæmigert að gera svona mál að flokksríg. Kvosin mun verða UNDIR tengibrautinni. Hér á Manhattan hafa menn verið að losa sig við svona dóminerandi fyrirbæri.
Hér er svo smá grein sem ég skrifaði um þetta mál: http://veffari.blog.is/blog/veffari/entry/124413/
Kveðjur.
Ólafur Þórðarson, 18.4.2007 kl. 14:25
Sæll vert þú Guðmundur, forni skipsfélagi.
Þú telur upp fjöldan allan af hlutum sem ekki voru stofnuð samtök um, og sjálfsagt hefur þú rétt fyrir þér í þeim efnum. Ekki þekki ég nema hluta af þessu, enda ekki búið í Mosó nema í nokkur ár.
En er það einhver ástæða til að efast um réttlæti einna samtaka, þó ekki hafi verið stofnuð samtök í kringum eitthvað annað mál? Ég get ekki séð annað en að allt það sem þú taldir upp hefði átt að fá séns. Hvað með Torfuna? Átti bara að sleppa því að stofna þau samtök, af því að það tókst ekki að stöðva voðaverkin í miðbænum þar á undan (og reyndar á eftir líka). T.d. viðbygginguna á Landsbankahúsinu, Moggahöllina, eða ófreskjuna sem var sett niður á milli listaverka Guðjóns Samúarssonar (Apótekið og Hótel Borg)?
Með kveðju úr landi Tígranna, Kristján Guðmundsson.
Kristján Guðmundsson (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 05:07
Sæll Kristján í landi Tígranna!
Það var ekki meining mín að taka á nokkurn hátt þátt í þessari umræðu sem er farin að snúast um eitthvað allt annað en þennan nokkurhundruð metra vegstubb sem þarna á að leggja. Fáránleikinn í kringum þetta mál er orðinn slíkur að rólegheitamenn eins og ég tel mig vera, ofbýður sá ofsi sem farinn er að einkenna þessa umræðu alla.
Það er hið besta mál að að skiptast á skoðunum sínum á heilbrigðum nótum um málefnið sjálft. Ég er algerlega á móti því að einstaklingar og persónur séu lagðar í einelti með ljótum orðum og tala nú ekki um þegar farið er að leggjast á fjölskyldur viðkomandi með svo ljótum orðum að undan svíður.
Það veist þú vel með löngum samræðum sem við höfum átt í gegnum tíðina að ég met umhverfi mitt mikils og vil gjarnan að náttúran fái að njóta vafans og vera í friði. Hitt er svo annað mál að fólk ætti einnig að fá að njóta vafans líka.
Þótt ekki fylgi ég þessari bæjarstjórn heilshugar, enda alltaf verið mín skoðun að í bæjarstjórnarkosningum eigi að kjósa fólk en ekki flokka, og þá það fólk sem að maður treystir best til þess að stjórna, byggja upp og halda utan um málefni viðkomandi bæjarfélaga.
Eins og þetta mál kemur mér fyrir sjónir sé ég bara því miður ekki að þessi vegur skaði Varmána neitt enda verður hann ekki lagður nálægt henni samkvæmt því sem ég fæ best séð. Búið er að breyta þessari braut fram og til baka til þess að reyna að sætta ólík sjónarmið. Ég vona að fólk fari að sættast í þessu máli og snúa sér að einhverju uppbyggilegra en að leggja hvort annað í einelti, en það er jú bannað samkvæmt lögum.
Guðmundur St. Valdimarsson, 20.4.2007 kl. 15:45
Sæl verið þig hjónakorn
Ég gæti ekki verið meira sammála þér með að þessi umræða sé komin út á tún, hól eða til andskotans (nema þetta sé all sami staðurinn) og ég ætla ekki að taka þátt í henni. Ekki síst í ljósi þeirrar heiftar sem í henni er. En ég fylgist með samt sem áður.
Hvað varðar það sem ég sagði, þá var það bara að benda á að það hefðu sennilega verið betra að stofna fleirri samtök en færri. Það hefði mögulega haldið aftur af misvitrum stjórnmála- og embætismönnum.
Með kveðju úr Kisulandinu, Kristján Guðmundsson (Stjáni Guð.).
Kristján Guðmundsson (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 15:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.