mán. 2.12.2013
Trabbinn frábæri
Minn annar bíll og sá fyrsti nýi, var Trabant station. Ég hef aldrei verið jafn hamingjusamur eftir bílakaup eins og þegar ég fékk Trabbann minn. Þetta var árið 1984 og bílinn fékk ég að sjálfsögðu hjá umboðinu sem þá bar nafn stofnandans, Ingvari Helgasyni. Þegar ég náði í Trabbann stóð hann glansandi og glæsilegur og beið eftir mér. Það var búið að líma miða í afturgluggann sem á stóð Klúbburinn skynsemin ræður en það var félag sem starfrækt var af Tabant eigendum. Ég var leystur út með gjöfum og fékk meðal annars þennan fína álf sem ég er búinn að setja á myndasíðuna. Álfurinn hefur alla tíð síðan verið í miklu uppáhaldi hjá mér.
Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim á nýja Trabbanum var að taka öll hurðarspjöld úr honum og troða steinull allstaðar sem mögulegt var að koma henni fyrir. Ég fékk ekta Álafoss ullarteppi hjá Óskari heitnum á Álafossi og sneið það vandlega á gólfið. Þá voru Jensen græjurnar settar í og þá voru allir vegir mér færir.
Trabbinn minn sló ekki feilpúst þau rúmu tvö ár sem ég átti hann. Það eina sem ég þurfti að gera var að kaupa á hann ný þurrkublöð.
Það sem meira er að þegar ég seldi hann fékk ég staðfest að merkingin í afturglugganum, skynsemin ræður, voru orð að sönnu. Ég keypti nefnilega bílinn á 86.000.- og seldi hann eins og áður sagði rúmum tveimur árum síðar á kr. 75.000.- á borðið. Afföllin voru semsagt kr. 11.000.-
Heitir þetta ekki að láta skynsemina ráða?
Síðar eignaðist ég annan Trabba sem ég keypti á 8.000.- krónur og átti hann í ár og sló hann heldur aldrei feilpúst. Þetta eru alvöru vagnar, það vita allir sem hafa átt Trabba. Bílar langt á undan sinni samtíð smíðaðir úr plasti.
Með kveðju Kalli Tomm.
Athugasemdir
Þeir voru smíðaðir úr pappaplasti af því að Rússarnir meinuðu Austur-Þjóðverjum um að fá stál til þess. Einn af bílunum, sem mig dreymir um í "Örbílasafnið" er Traband 91.
Þá var komin gormafjöðrun á öll hjólin og Volkswagen vél og dríflína í bílinn. Dýrðin stóð að vísu í aðeins eitt ár, en svona Trabbi mengar aðeins brot af því sem reykjandi tvígengisvélin gerði.
Ómar Ragnarsson, 2.12.2013 kl. 23:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.