mán. 30.9.2013
Mér hlýnaði sannarlega um hjartarætur að sjá þetta
Það er óhætt að segja að mér hafi hlýnað um hjartarætur að sjá þetta myndband með gömlu snillingunum úr hljómsveitinni Tívolí, þeim Sigurði Kristmanni Sigurðssyni, söngvara og Ólafi Helgasyni trommara, ásamt félögum sem tekið var upp nú nýlega.
Hljómsveitin Tívolí spilar stóra rullu hjá okkur gömlu Gildrufélögunum en þeir félagar leifðu okkur að hita upp fyrir sig á veitingastaðnum Ártúni sem var rekinn um nokkurra ára skeið.
Þetta var um það leiti sem við vorum að stíga okkar fyrstu skref í tónlistinni og ómetanlegt tækifæri fyrir okkur að fá að troða upp með svo vinsælli og þekktri hljómsveit á þeim tíma eins og Tívolí sannarlega var. Hverjir muna ekki eftir lögum eins og Fallinn með 4,9 og Danserína svo eitthvað sé nefnt.
Þetta var árið 1979 og þá kölluðum við okkur Cosinus. Mér er minnisstætt hversu mikið, Hjörtur Howsver, hljómborðsleikari Tívolí og allir þeir félagar dáðust af hljómborðssamstæðu Hjalta Úrsus, menn höfðu ekki séð annað eins hjá byrjendahljómsveit eins og okkur þá.
Hjalti er eins og allir vita engin meðal maður í því sem hann tekur sér fyrir hendur, það er allt gert með stæl og Hammond orgel hans, syntarnir og tvöfalda lesley samstæðan jafnaðist á við það sem John Lord í Deep purple var með.
Þetta er svona eitt af því sem aldrei gleymist og maður er endalaust þakklátur þessum mönnum að hafa gefið okkur þetta tækifæri á sínum tíma.
Tívolí strákarnir voru allir frábærir og með okkur mynduðust tengsl sem hafa varað síðan.
Það eru t.d. ekkert mörg ár síðan ég og Þórhallur tókum Stayrvay too heaven með Sigga söngvara á bar í Reykjavík.´
Siggi kjötsúpa, eins og hann hefur oft verið kallaður, eftir magnaða frammistöðu sína á plötunni Íslensk kjötsúpa, er hreint magnaður söngvari og í raun hafði hann allt til að bera sem heimsklassa rokksöngvarar státa af, virðist engu hafa gleymt og Óli taktur, trommari, eins og hann er oftast kallaður, hefur óborganlegan stíl og úr honum skín ánægja og einbeiting í hverju slagi.
Þetta eru sannir vinir til áratuga og unun að sjá þá alltaf rokka saman eins og engin væri morgundagurinn, bara gleði og gaman.
http://www.youtube.com/watch?v=Wgs61FNRJFc
Athugasemdir
Jóhann G. heitinn sagði í útvarpsviðtali að Siggi væri líkast til einhver besti rokk og blússöngvari sem við höfum átt.
það er sorglega lítið til á youtube af frammistöðu hans
sæmundur (IP-tala skráð) 1.10.2013 kl. 08:26
Sæll Sæmundur.
Já! Siggi er algerlega frábær söngvari og gaman hefði verið ef hann hefði látið meira til sín taka í gegnum árin.
Ég skrifaði færslu ekki alls fyrir löngu sem ég kallaði: Það fer mismikið fyrir snillingum. Hann er gott dæmi um það.
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.
Karl Tómasson, 1.10.2013 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.