fös. 13.9.2013
Ég elska, elska, elska þessa mynd
Ég held að hvorki fyrr né síðar hafi bærst í mér eins sterkar tilfinningar og þegar ég horfði á þátt Ómars Ragnarssonar, Stiklur, um Gísla á Uppsölum. Ég varð gersamlega heillaður af þessum manni.
Ég las allt um hann sem ég komst yfir og sagði börnum mínum frá honum.
Nú um síðustu jól kom út metsölubók um hann sem Birna mín gaf mér í jólagjöf og við lásum hana saman.
Við töluðum oft um að heimsækja Gísla á Uppsölum og það var endanlega ákveðið eftir lestur bókarinnar. Birna var full eftirvæntingar að sjá heimahagi hans eins og við öll.
Heimahaga manns sem var, eins og Ómar Ragnarsson sagði, svo réttilega í þætti sínum, sennilega mesti hippi Íslandssögunnar.
Þegar við ókum af stað yfir alla þessa fjallvegi var endalaus þoka og súld og vart sáum við nema nokkra metra útundan okkur. Öll fjalladýrðin og sjórinn fyrir neðan okkur var á kafi í þoku, við sáum ekkert.
Vonbryggði mín voru endalaus þrátt fyrir að ég hafi reynt að láta á engu bera. Ég hugsaði með mér, erum við virkilega komin alla þessa leið og sjáum ekkert.
Til að gera langa sögu stutta, þegar við vorum komin í Selárdal og gengum upp að húsi Gísla á Uppsölum opnuðust allar himnagáttir. Við gengum um túnin og virtum fyrir okkur heimahagi einsetumannsins í þvílíkri kyrrð og fegurð.
Myndin hér að neðan er tekin við Uppsali af Birnu og eins og sést eru undurfallegir sólstafir allt í kringum Birnu mína sem var uppnumin eins og við öll af fegurðinni og einhverju ólýsanlegu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.