Maríulaxinn

Ég á mjög létt með að fá dellur af öllu tagi en sem betur fer, þá hef ég vit á því að reyna ekki allt til að forðast slíkt.

Í sumar vaknaði upp af áratuga löngum blundi ein della í mér sem nú verður ekki aftur snúið með, veiðidella. Þökk sé Trausta, mínum yndislega frænda. Trausti kom í heimsókn til okkar Línu í sumar í Kjósina og fékk mig með sér í veiði í Meðalfellsvatn, sá veiðitúr bar ekki nokkurn árangur en annað átti eftir að koma á daginn áður en sumar leið.

Skömmu síðar bauð hann mér í Sogið í Laxveiði og þar vorum við í holli með Eggerti Skúlasyni fréttamanni og veiðimanni, það var í fyrsta skipti sem ég fór í laxveiðiá. Eggert og hans félagi sögðu okkur þegar við hittum þá á bakkanum að það væri fiskur spriklandi um allt en hann tæki ekki. Viti menn í fjórða kasti hjá mér beit stórlax á og Trausti tók á videó í 15 mínútna viðureign mína við hann sem endaði með því að laxinn sleit allt draslið mitt til fjandans. Ég get ekki lýst með orðum hversu svekktur ég var og það var Trausti frændi reyndar líka. Þetta hefði verið svooooo flott að ná að landa þessum laxi, ég með gersamlega glataðar græjur og múnderingin á mér eftir því í samanburði við veiðifélagana. Eftir þetta urðum við ekkert varir í Soginu.

Þá var komið að Hólsá og þá kom Maríulaxinn minn á land, við veiddum 7 væna laxa í frábærri veiðiferð, Trausti 3 og ég 4. Hálfum mánuði síðar fór ég með vinum mínum, Halla Sverris, syni hans og Bigga Haralds í sömu á og þar veiddi Sverrir sinn Maríulax á nákvæmlega sama stað og ég. Eftir daginn höfðum við landað 6 löxum og einum urriða. Biggi missti einn mjög stórann efir langa viðureign og hann var bókstaflega kominn upp á land þegar hann slapp. Við fylgdumst allir spenntir með þeirri viðureign.

Í nýliðnum mánuði fór ég svo aftur með Trausta og vinnufélaga hans, Svavari, í Hólsá en við komum heim með öngulinn í rassinum. Það var engu að síður sérlega skemmtileg veiðiferð með frábærum strákum. Mikið hlegið. 

Næstu helgi er ferðinni haldið í Affallið og aftur með Trausta, Svavari og tveimur öðrum veiðimönnum og ég get vart beðið.

Hér koma nokkrar myndir og videó af Maríulaxinum mínu.

Sogid-Alvidra

Sogið

Sogid-Alvidra1

Sogið

Hólsá 1

Glímt við Maríulaxinn í Hólsá

Hólsá 2

Hólsá að loknum góðum degi með Trausta

http://youtu.be/GmQB9tR9vEY


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta vídeó verður seint toppað.

Þú ert líklega eini veiðimaður landsins sem þarft að taka aðstoðarmann með þér Affallið til að þræða maðkinn á öngulinn.

Næsta skref hjá þér er flugan ;)

Trausti (IP-tala skráð) 2.10.2011 kl. 19:42

2 Smámynd: HP Foss

Þetta hefur heldur betur verið dagurinn hjá þér þótt mér finnist þetta frekar óspennandi sport.

HP Foss, 7.10.2011 kl. 08:42

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Eina dellu þarf eg að koma á þig Kalli:

Stundum er eg spurður hvað eg geri. Auðvitað svara eg því til að sem stendur geri eg ekkert neitt, og þó, - jú eg blogga og safna birkifræjum! Það finnst mörgum einkennilegt, sumum jafnvel fyndið.

Nú býð eg þér í birkifræjasöfnunarferð einhvern góðan veðurdag og þegar við höfum safnað góðum slatta ökum við austur og dreifum á Mosfellsheiðina. Þær fáu rjúpur sem þar eru munu ábyggilega verða glaðar við að finna æti. Eitthvað af fræinu spýrar og enn færri kunna að vaxa upp sem birkihríslur.

Hvernig líst þér á þessa dellu?

Góðar stundir

GJ (Mosi)

Guðjón Sigþór Jensson, 19.10.2011 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband