fös. 26.3.2010
Vígsla Krikaskóla í Mosfellsbæ
Mosfellingum og öðrum áhugasömum er boðið á opnunarhátíð Krikaskóla næsta föstudag kl. 15-17 í nýju húsnæði skólans við Sunnukrika.
Krikaskóli er frábrugðinn öllum öðrum skólum á Íslandi að því leyti að í honum verður boðið upp á nám fyrir eins árs til níu ára gömul börn allan ársins hring.
Skólaárið og skóladagurinn verður miðað við það sem þekkist í leikskólum því boðið verður upp á samfelldan skóladag frá hálf átta til rúmlega fimm allt árið um kring fyrir öll börnin. Með því er komið til móts við þarfir foreldra í nútímasamfélagi sem undantekningalítið vinna bæði fulla vinnu utan heimilis. Tekið er mið af skóladagatali leikskólans er varðar skipulag því verður um að ræða 200 daga skóladagatal í stað 180 daga sem þekkist í hefðbundnum grunnskólum. Börnin fá að sjálfsögðu lögbundið kennslumagn í grunnskólanum en því er dreift yfir lengra tímabil, sem gefur meira svigrúm fyrir leik, útivist og skapandi starf á degi hverjum.
Haldin var samkeppni um þróun skólastefnu skólans á árinu 2007 og fyrsta skóflustunga var tekin 25. september 2008. Vinningstillagan, sem unnin var af hópi sem kallar sig Bræðingur, gengur út á grunnhugmynd skólans um lýðræðisleg vinnubrögð, einstaklingsmiðað nám og að efla reynslu og virkni barnsins með því að bjóða því upp á verkefni og viðfangsefni úr umhverfi sínum og veruleika. Krikaskóla opnaði sumarið 2008 með leikskóladeild í Brekkukoti í Helgafellslandi og eru nú börn frá 2ja til 7 ára í skólanum.
Miklar væntingar eru til hins nýja skóla, bæði frá skólafólki sem foreldrum. Þá er starfsfólkið spennt að fá tækifæri til þess að fara nýjar leiðir í skólastarfi. Frétt af mos.is
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.