Meyjan hrein

Gildran og Jethro tull

Gildran og Jethro tull eftir frábæra tónleika í höllinni á Akranesi.

Nú stendur yfir sem hæst undirbúningur okkar Gildrufélaga, vegna fyrirhugaðra tónleika í tilefni af 30 ára samstarfi okkar sem haldnir verða í Mosfellsbæ þann 1. maí.

Eins og ég skrifaði um hér á síðu minni fyrir skömmu síðan, munum við taka öll okkar gömlu lög. Eitt þeirra verður vissulega það lag sem kom okkur á kortið eins og sagt er. það er lagið Mærin.

Mærin kom út á okkar fyrstu hljómplötu, (Huldumenn) Lagið sló í gegn og hefur verið eitt af okkar vörumerkjum alla tíð síðan. Á bakvið lagið er skemmtileg saga.

Þannig er, að þegar við vorum í Stúdíó Stemmu með Didda fiðlu og Gunnari Smára, upptökumönnum okkar, kíkti Pétur, vinur okkar Kristjáns í stúdíóið til að hlýða á plötuna. Pétur heitinn, var þekktur fyrir næmni sína á það, hvaða lög næðu í gegn hjá landanum og væru líkleg til vinsælda, enda stofnaði hann vart hljómsveit öðruvísi en að hún slægi í gegn á landsvísu.

Við félagarnir vorum búnir að raða plötunni upp og öll lög búinn að fá sinn stað á vínylnum þegar Pétur mætti í stúdíóið. Eftir að hann var búinn að hlusta á plötuna sagði hann við okkur " Strákar mínir" þið veðjið á kolrangt lag sem upphafslag plötunnar. Þið eigið að láta Mærina vera lag númer eitt. Það er Mærin sem á eftir að slá í gegn og vekja á ykkur athygli.

Viti menn. Eins og venjulega, hafði hann rétt fyrir sér. Lagið okkar gamla góða, Mærin hefur alltaf virkað og það sem meira er, elst vel.

Oftar en ekki þegar við vorum beðnir um að spila Mærina var alltaf sagt við okkur, spilið meyjan hrein en á þeim orðum hefst textinn í laginu.

Sú hreina mey sem við fjöllum um í laginu virðist af mörgum hafa verið misskilin hjá okkur.

Það var ekki sú sama og Madonna söng um á sínum tíma.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hrikalega flott lag !!

Eitt af þeim sem er alveg geggjað að hlusta á alveg í botni og syngja hástöfum með:)  En samt svo svakalega flott líka að hlusta á það og njóta í botn þegar þið hafið spilað það í kirkjunni

Magnað

sérstakt knús til ykkar allra á upphafsdegi kærleiksvikunnar

Hanna Sím (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 22:29

2 identicon

ja flott skal það vera, alveg eins og Árbæingar eiga Tappa Tíkarrass, Akureyringar eiga Bara Flokkinn og við í Vogunum eigum Eika Hauks, þá eiga Mosfellingar Gildruna og er það nú heldur betur menningararfur.

Mér finnst eins og það hafi verið í gær þegar við skiptumst á helgum á 5-unni í Hafnarstræti sællar minningar!! Gildran lengi lifi segi ég bara og gratulera ég Mosfellingum til handa með afmæliskonsert.

Flott skal það vera-bestu kveðjur Kalli minn!

sandkassi (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 23:12

3 Smámynd: Karl Tómasson

Kæru vinir Hanna og Gunnar.

Takk fyrir góðar kveðjur.

Hanna mín, þú átt stórt pláss í huga okkar félaga. Þú skipulagðir ásamt öðru góðu fólki eina flottustu og eftirminnilegustu tónleika sem við höfum nokkru sinni haldið. Risatjaldstónleikana við Álafoss föt bezt.

Ég gleymi aldrei þegar ég leit út um dyrnar rétt fyrir tónleikana ásamt Eika Hauks til að tékka á stemningunni og við sáum röðina svo langt sem augað eygði. Þú ert engri lík og allt sem þú tekur þér fyrir hendur virkar alltaf, alla leið.

Gunnar Waage, minn gamli og kæri félagi. Mikið er gaman að heyra frá þér. Við brölluðum ýmislegt saman í tónlistinni á unglingsárum, m.a. hjá Reyni Sigurðssyni okkar einkakennara.

Þú ert mikill slagverks snillingur sem ég man vel eftir og fagna að hafa verið samferða.

Ég man vel eftir þessum skiptum okkar félaga á Fimmunni í gamla daga.

Hanna og Gunnar þið eruð velkominn á tónleika Gildrunnar, ég get jafnvel haft ítök á sæti í fremstu röð.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.

Karl Tómasson, 14.2.2010 kl. 23:45

4 identicon

þakkir fyrir hlý orð Kalli minn!

sandkassi (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 01:09

5 identicon

Miriam hét meyjan sú er hreinust var og sveininn bar, þann er frelsaði heiminn.

Pétur Kristjánsson var hress og skemmtilegur maður með mikla innsýn í tónlist. Heyrði einhverntímann þá sögu að faðir hans hefði sagt við hann þegar pétur hefði tjáð honum að hann hyggðist leggja tónlistina fyrir sig; Tónlistin er fögur en hún er mögur. Sjálfsagt hafa fáir efnast hér á landi af því að spila í hljómsveit en pétur Kristjánsson gerði okkur hin svo miklu ríkari.

Mærin er yndislegt lag og ég man svo vel hvernig það varð til á æfingu í Rjóðri hér forðum daga. Húsið hituðum við upp með kertaljósum í tugatali og fóðruðum hagamýsnar með pripps og sykurmolum. Það þurfti fjóhjóladrifin trukk til að drífa þarna uppeftir og Vígmundur lét ekki sitt eftir liggja og hellti gjarna steinolíu á dekkin til að auka drifið og þræddi vegslóðann í kolniðamyrkri eins og flugmaður í blindflugi. Prippsinn var stöku sinnum bólusettur og þá urðu æfingarnar með lengra móti á heiðinni fjarri mannabyggðum undir stjörnubjörtum himni. Er hreint ekki frá því að augu Frelsarans hafi hvílt á þeim æskumönnum sem sömdu lagið um hina heilögu Guðsmóður.

Þórir Kristinsson (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 01:23

6 identicon

Ofboðslega hlakka ég til að mæta á Gildruna LIVE. Ég hef verið svo mikill aðdáandi alveg frá því ég var smápolli. Gildran var hætt að spila saman þegar ég var orðinn nógu gamall til að mæta á tónleika. Núna mæti ég pottþétt og flestir vinir mínir eru mjög spenntir.  Íslensk tónlist er nefnilega ekki eins góð og hún var fyrir 20 eða 30 árum síðan. Gildran er einstök hún líkist engu sem maður hefur heyrt áður. Frændi minn sagði mér að Gildran hef'i aldrei verið í þessu hallærislega dægurlaga poppi og aldrei verið hampað sem slíkum en aðrar hljómsveitir þorðu ekki að stíga á svið með þeim því þá litu þær út fyrir að vera lélegar. Nánast allar stórsveitir sem komu til landsins meðan Gildran var starfandi vildu fá Gildruna sem upphitunarband aðrar hljómsveitir hljómuðu eins og bílskúrsbönd miðað við Gildruna á þessum tíma. Uriah Heep, Status Quo, Jethro Tull, ofl. hrifust af færni ykkar. Ég er alveg á tánum núna. BIG TIME.

Kjarri (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 18:46

7 Smámynd: Jens Guð

  Glæsilegt framtak að halda upp á þrítugsafmæli Gildrunnar!  Þetta mun takast vel.

Jens Guð, 15.2.2010 kl. 20:47

8 Smámynd: steinimagg

Ég kem sko.

steinimagg, 16.2.2010 kl. 21:50

9 identicon

Takk fyrir Kalli minn,  þetta var alveg hreint frábær tími,  öll tjaldböllin sem þið hélduð og styrktuð fótboltastarfið svo myndarlega :) ógleymanlegt alltsaman og jafnframt upphafið að því öfluga foreldrastarfi sem enn er í gangi. 

Ég er farin að hlakka svakalega til vorsins, fyrst tónleikarnir og svo fer Íslandsmótið á fullt :-)

Hanna Sím (IP-tala skráð) 16.2.2010 kl. 22:35

10 identicon

Ekki gleyma Huldumönnum á heiðinni þar sem er að finna magnaðar lýsingar Þóris á tilkomu plötunnar ,O)

Hjördís Kvaran Einarsdóttir (IP-tala skráð) 17.2.2010 kl. 23:05

11 Smámynd: Karl Tómasson

Kæru vinir. Takk fyrir komuna til mín, það verður gaman að sjá ykkur öll í Mosó 1. maí.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm.

Karl Tómasson, 19.2.2010 kl. 19:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband