fim. 4.2.2010
Stiklað á stóru
Bæjarmálin hafa gengið vel í Mosfellsbæ, þrátt fyrir að hér, líkt og í öðrum bæjarfélögum, hafi þurft að grípa til ráðstafana í kjölfar efnahagshrunsins. Margar af þeim ákvörðunum voru erfiðar og í slíku árferði skiptir öllu máli að forgangsraða rétt og það hafa bæjaryfirvöld kappkostað að gera. Fyrst og síðast hefur verið reynt að standa vörð um skóla, fjölskyldu- og velferðarmál.
Birna með fjallkonunni á miðbæjartorginu fallega
* Bygging glæsilegs Krikaskóla
* Framhaldsskóli hóf störf í Mosfellsbæ
* Undirritun viljayfirlýsingar um byggingu sjúkrahúss og hótels
* Nýtt og vandað miðbæjarskipulags kynnt
* Ævintýragarðurinn og hugmyndir um hönnun hans kynntar
* Nýtt hjúkrunarheimili í burðarliðnum
* Verðlaunatillaga á byggingu nýrrar kirkju og menningarhúss kynnt
* Ný reiðhöll tekin í notkun
Vígsla miðbæjartorgs og útilistaverksins sem þar er
Hér nefni ég nokkur verkefni sem rísa hátt hjá okkur Mosfellingum. Fyrst nefni ég nýjan og glæsilegan Krikaskóla, sem er óðum að taka á sig mynd. Framhaldsskólann okkar langþráða sem tók til starfa í gamla Brúarlandshúsinu síðastliðið haust.
Fyrsta skóflustunga Krikaskóla
Nýlega samþykkti menntamálaráðherra að fram færi samkeppni um hönnun skólans á nýjum stað svo ljóst er að ríkistjórnin mun ekki fresta áformum um byggingu hans. Í haust var undirrituð viljayfirlýsing um uppbyggingu sjúkrahúss og hótels sem mun sérhæfa sig í mjaðma- og hnjáliðaaðgerðum. Þar er um að ræða verkefni og starfsemi af þeirri stærðargráðu að líkja má við grettistak fyrir allt okkar samfélag. ´
Nýtt og vandað miðbæjarskipulag er nú í auglýsingaferli. Þar hefur vandlega verið gætt að halda í græn svæði.
Afhjúpun minnisvarða í tilefni aldarafmælis UMF Aftureldingar
Hugmyndasamkeppni Ævintýragarðsins liggur nú fyrir og þar komu margar spennandi tillögur fram. Ævintýragarðurinn er talandi dæmi um áherslur bæjaryfirvalda í umhverfismálum en stærð hans, umfang og staðsetning mun hafa mikla sérstöðu í bæjarfélaginu. Nú hyllir loks undir að byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ verði hrynt í framkvæmd en félagsmálaráðherra vinnur þessa dagana við framkvæmdaráætlun um það og fjármögnun þess. Kynnt hefur verið sú tillaga sem bar sigur úr býtum í hönnun kirkju- og menningarhúss og virðist almenn ánægja ríkja um hana.
Í viðtali á Stöð 2 vegna fyrirhugaðs sjúkrahúss
Hér hef ég stiklað á okkar stærstu málum. Þau umfangsminni eru okkur einnig að sjálfsögðu hugleikin en of langt mál að telja þau upp hér.
Íþrótta- og útivistaraðstaða Mosfellsbæjar er tvímælalaust ein af okkar stærstu skrautfjöðrum og alla tíð hefur ríkt mikill einhugur hjá bæjaryfirvöldum að slaka ekkert á í stuðningi við uppbyggingu hennar. Nýjasta dæmið er ný og glæsileg reiðhöll á Varmárbökkum sem tekin var í notkun í nóvembermánuði. Félagar í Hestamannafélaginu Herði eiga miklar þakkir skildar fyrir uppbyggingu hennar en fjöldi sjálfboðaliða lagði nótt við dag við að reisa hana.
Vígsla Brúarlandsskóla
Ekkert er dýrmætara í öllu íþrótta- og tómstundastarfi en áhugasamt fólk sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum til að efla það. Við Mosfellingar megum vera þakklátir og stoltir af því fjölmarga góða fólki sem starfar á þeim vettvangi. Stærsta íþróttafélag Mosfellsbæjar er Ungmennafélagið Afturelding og eins og flestir vita fagnaði félagið aldarafmæli á nýliðnu ári. Af því tilefni var m.a. hafist handa við ritun á sögu félagsins. Bókin sem kom út nú á afmælisárinu er hátt í 400 bls og full af fróðleik um þetta merka íþróttafélag. Bókin sem er skrifuð af Bjarka Bjarnasyni og Magnúsi Guðmundssyni.
Ein gömul úr kosningabaráttunni 2006. Árin eru fljót að líða
Nú er hið pólitíska litróf farið að mótast af væntanlegum bæjar- og sveitarstjórnarkosningum. Stjórnmálaflokkarnir eru nú hver af öðrum að undirbúa þá baráttu sem í hönd fer. Samfylkingin hefur lokið sínu prófkjöri og var mjótt á mununum á milli Jónasar Sigurðssonar og Valdimars Leós Friðrikssonar í baráttunni um efsta sætið. Hinir tveir einstaklingarnir sem gáfu kost á sér í oddvitasætið komust ekki á blað á meðal þeirra efstu. Prófkjör Sjálfstæðismanna verður nú um helgina og virðist sem helsta baráttan sé þar um annað sætið. Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri gefur einn kost á sér í það fyrsta. Framsóknarmenn efna til prófkjörs í lok mánaðarins. Hjá Vinstri grænum vinnur nú þessa dagana uppstillingarnefnd við uppröðun á listann.
Allt samstarf á vettvangi sveitarstjórnarinnar byggir á gagnkvæmu trausti og virðingu. Ef það er haft í heiðri tekst vel til, líkt og raunin hefur verið á þessu kjörtímabili.
Við vinstri græn höfum sannarlega lagt okkar af mörkum og munum ganga með ánægju til næstu bæjarstjórnarkosninga að loknu farsælu kjörtímabili sem við erum stolt af.
Athugasemdir
Þessi upptalning á góðum verkum ber það með sér að nú styttist í nýjar bæjarstjórnarkosningar. Hún segir mér það helst að þegar unnið er saman af heilindum og gagnkvæmri velvild geta stjórnmálaöfl unnið vel saman, þó samkvæmt viðurkenndum skilgreiningum séu þau sitt af hvorum jaðrinum.
Sigurður Hreiðar, 5.2.2010 kl. 10:33
Mikil ánægja hjá mosfellingum með þessa góðu bæjarstjórn. Allstaðar heyri ég hrósyrði um hversu vel hefur tekist til um stjórn bæjarins. Þegar Samfylkingin fór fyrir vinstri stjórninni hér í bænum var bæjarfélagið í gjörgæslu vegna gríðalegrar óstjórnar í fjármálum bæjarins. Mosfellsbær var á hraðri leið til Álftaness en Haraldur og Karl hafa heldur betur snúið dæminu við. Prófkjör Samfylkingarinnar á dögunum með 232 hræður sem tóku þátt þrátt fyrir að tekist væri á um oddvitasætið hlýtur að sýna ótvírætt fylgishrun hjá þeim hörmulega flokki sem er að kollkeyra íslandi með spillingu og óstjórn svo ekki sé talað um Icesave og ESB bullið.
Þórir kristinsson (IP-tala skráð) 5.2.2010 kl. 12:31
Kæru Sigurður Hreiðar og Þórir, takk fyrir komuna hingað til mín.
Ég segi hér eins og oft áður
Allt samstarf á vettvangi sveitarstjórnarinnar og í hverju sem er byggir á gagnkvæmu trausti og virðingu.
Ef það er haft í heiðri tekst alltaf vel til.
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm.
Karl Tómasson, 5.2.2010 kl. 22:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.