Sjúkdómar og kosningabarátta, hvað á það sameiginlegt?

Fyrir sex árum síðan greindist ég með krabbamein sem ég hef nú blessunarlega unnið bug á. Ég var útskrifaður á nýliðnu ári og var sú líðan þegar læknirinn minn tilkynnti mér það ólýsanleg, fyrir mig og mína fjölskyldu.

Allt þetta kjörtímabil hefur nokkur hópur fólks, haldið úti bloggsíðu sem hefur haft það eitt að markmiði að reyna að niðurlægja mig og mín störf. Tveimur þessara síða var lokað eins og frægt er orðið, báðar síðurnar voru undir leyninöfnum.

Fyrst var síðu Varmársamtaka Valda, eins og hann var alltaf kallaður lokað og var aðal ástæða þess  færsla, þar sem hann skoraði á fólk að varast fólk með rotsjúkdóma. Það var kornið sem fyllti mælinn og yfirmenn Vísisbloggs skelltu þeirri síðu í lás samstundis. Þá var önnur síða opnuð sem var einnig lokað samstundis.

Nú hefur umræðan á þessum síðum báðum færst yfir til fyrrverandi gjaldkera og stjórnarmanns Varmársamtakanna, Ólafs Ragnarssonar (Ólafur í Hvarfi) og að venju detta þar inn þekkt leyninöfn úr umræðunni. Markmiðið er eitt hjá fólkinu sem skrifar á þessa síðu, það er að reyna að niðurlægja störf mín og nú er bæjarstjórinn einnig farinn að fá það óþvegið. Að venju er þetta gert með slíkum hætti að fólki er gersamlega misboðin umræðan.

Nú að nýju, er krabbamein það sem ég fékk og gekk í gegnum orðið að umræðuefni í kosningaáróðri félaganna á síðunni.

Ég vil biðja þetta fólk um að hlífa mér og minni fjölskyldu við þessari umræðu. Þeir pennar sem þarna skrifa, leggja ekki mat á það hvað eru mín einkamál og hver ekki. Ég hef ekki verið feiminn við að ræða um þennan sjúkdóm minn og hvaða áhrif hann hafði á mig. Ég hef reyndar aðeins einu sinni skrifað um þessa reynslu mína hér á blogginu mínu og það var í kjölfar þess, sem umræðan um rotsjúkdóma hófst hjá Valda Sturlaugz, síðunni sem var lokað.

Þetta eru ein ömurlegustu skrif og aðför sem ég hef orðið vitni af og ég veit að það eru mér margir sammála. Veikindi mín eiga ekkert erindi í þann kosningaóhróður sem þarna fer fram.

Að lokum skora ég á ykkur lesendur góðir, að blanda ykkur ekki í umræðuna og þann ófögnuð sem á sér stað þarna, enda gerir það svosem engin að mér sýnist nema gömlu "hugrökku" leynipennarnir og eigandi síðunnar.

Við Mosfellingar óskum ekki eftir slíkri kosningabaráttu, sama hvar í flokki við stöndum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband