Nú nær karlremban hámarki

Þá er bóndadagurinn runnin upp og þorramatinn og þorrablótin sjá flestir í hillingum, ásamt öllu því sem þeim fylgir. Hrútspungarnir, kjammarnir og spikfeitir lundabaggarnir verða étnir þar til plássleysið er algert orðið. Þá verður vel kæstum hákarlinum skolað niður með nokkrum krapandi snöfsum af Íslensku brennivíni og því verður svo aftur skolað niður með nokkrum vel sveittum bjórum.

Að þessu öllu loknu er rekið hraustlega við og þá myndast jafnvel pláss fyrir pínu meira af öllu góðgætinu. Betra verður það ekki.

Þorri 1 44

Ekta Íslensk þorrablót eru engu lík, karlremban allsráðandi, nánast hver einasti maður er með gullbarka og dansað er fram á nótt. Eitt slíkt verður nú haldið um helgina hér í Mosfellsbæ, það er þorrablót til styrktar íþróttafélaginu Aftureldingu. Ég hef mætt á þau öll og alltaf skemmt mér konunglega. Þar hittir maður marga mæta Mosfellinga.

 

Þorri 3 44

Að loknu skemmtilegu blótinu er upplagt að fá sér hressandi göngutúr á sunnudeginum, hann þarf ekki að vera svo langur til að ná úr sér mesta ryðinu eftir stuttan svefn.

Þorri 5 44

Þorri 2 44

Talandi um hákarlinn, ég fékk smá smakk af honum í gær. Hann er gasalega góður, mér var sagt að hann kæmi frá hinum fræga hákarlaverkunarstað, Bjarnarhöfn og þaðan eru myndirnar tvær hér fyrir ofan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þorramaturinn er sérlega góður og blótin geta verið mjög skemmtileg. Afturelding hefur staðið afar glæsilega að sínu þorrablóti enda orðið feykilega vinsælt. Mosfellingar hafa kunnað að skemmta sér friðsamlega og með reisn og væntanlega verður engin breyting þar á núna. Þú ert nú þekktur sem hrókur alls fagnaðar Kalli minn og klikkar aldrei enda án efa alþýðlegasti pólitíkus landsins og hvorki til hroki né mont í þér og hefur aldrei vottað fyrir hvorki fyrr né síðar. Það er nokkuð ljóst að mikið fjölmenni mun mæta á blótið og dansinn mun duna við hákarlsilm og testesterón hrútspunganna gæti ýtt undir fólksfjölgun í bænum. Ekki veitir af ef Icesave samningsklúður Samfylkingarinnar nær fram að ganga.

Þórir Kristinsson (IP-tala skráð) 22.1.2010 kl. 17:05

2 Smámynd: steinimagg

ætli það sé þorrablót í Kópavogi

steinimagg, 22.1.2010 kl. 22:39

3 Smámynd: Karl Tómasson

Hún er að venju málefnanleg umræðan hjá stjórnarfólki Varmársamtakanna á bloggsíðum þeirra.
Nú er það umrætt Þorrablót íþróttafélagsins Aftureldingar sem ég skrifa um hér að ofan sem er þeim hugleikið og drykkjuskapur á því.
Á skrifunum er ekki hægt að skilja betur en þau telji ráðlegt að senda eftirlitsnefnd til að hafa augu með skemmtuninni og þá aðallega hegðun og drykkju bæjarfulltrúa sem á hana mæta.
Það er nú orðið ljóta ruglið ef bæjarfulltrúar meiga ekki skvetta úr klaufunum með sveitungum sínum.
Fyrst dúkkar inn í umræðuna á síðunni einhver Marteinn Mæti Mos sem að sjálfsögðu engin gengst við eða þekkir.
og hann segir.
"Þeir eru misjafnir stjórnmálamennirnir og eflaust hefðu margir verið dæmdir úr leik í tímans rás ef settar væru strangar kröfur um notkun áfengis og þeim haldið til streitu.  Ég er ekki viss um að drykkjumenn séu endilega verstir.  Ég hef heyrt að í sumum byggðarlögum komist stundum óttalegir bjánar að í sveitarstjórn.  Maður þakkar bara fyrir meðan svona nokkuð gerist ekki hér í Mosó". 

Marteinn Mæti Mos. (IP-tala skráð) 21.1.2010 kl. 17:17

Ólafur stjórnarmaður Varmársamtakanna svarar um hæl. 

 Smámynd: Ólafur í Hvarfi

"Já Marteinn, samkvæmt tölfræði ætti ekki að vera meira enn einn drykkjumaður í bæjarstjórn, en tölfræði getur verið skeikul... kannski væri ráð að gera úttekt á Þorrablótinu hvort einhverjir af hinum kjörnu verði áberandi ölvaðir og fari kannski að syngja hærra og gera sig meira áberandi en aðrir"

Ólafur í Hvarfi 21.1.2010 kl. 19:04

 Smámynd: Ólafur í Hvarfi

Og Ólafur heldur áfram og segir.

"Ég tók eftir því Marteinn, að forseti bæjarstjórnar í Mosfellsbæ Karl Tómasson er með færslu á blogginu þar sem hann lofsamar brennivínið og tilhlökkunin fyrir drykkjutradisjón þorrablótsins leynir sér ekki.... athyglisvert í ljósi umræðunnar :)

Hann nefnir reyndar Bjarnarhöfn sem er höfuðból forfeðra minna í móðurlegg,  og eru þeir grafnir þar í kirkjugarðinum við Bjarnarhöfn.... hákarlinn hefur verið verkaður þar lengi en Þorleifur Þorleifsson spítalahaldari var sagður skyggnastur allra íslendinga...Þórbergur Þórðarson skrifaði  um Þorleif í ævisögu um Árna Þórarinson pófast". 

Ólafur í Hvarfi 22.1.2010 kl. 13:16

Og nú kemur Marteinn aftur galvaskur

Gaman að heyra af þessum uppruna þínum.  Mér finnst Bjarnarhöfn mjög fallega í sveit sett og hef stundum komið við þarna, enda er ég að hluta ættaður að vestan eins og margir aðrir Mosfellingar.  Ég verð að taka undir með Karli, það verður gott að fá sér hákarl á blótinu og fyrir mína parta þykir mér ósköp gott að fá smá dreitil með.  Mér finnst að það sama eigi við um stjórnmálamennina: hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta.

   

Hins vegar er áfengi hættulegt ef ekki er vel farið með það.  Áfengi er alltof of misnotað og hefur því miður eyðilagt mörg hjónabönd og spillt lífi margra fjölskyldna.  Ég mun því gæta hófs.  Ég verð þó að viðurkenna að ég hef stundum drukkið of mikið og farið mikinn og séð eftir því daginn eftir.  Það kemur fyrir marga sem að öðru jöfnu hafa ágætis stjórn á sinni áfengisneyslu.

Mig grunar að þessi Fjóla sé dálítið fyrir sopann og jafnvel sé þetta í ættinni hjá henni.

 

Marteinn Mæti Mos. (IP-tala skráð) 22.1.2010 kl. 13:52

Og aftur kemur stjórnarmaðurinn Ólafur.

Það er eins og þú segir Marteinn, hóflega drukkið vín :)

Ég segi með aldrinum þá þarf maður ekki annað en að fá sér örlítið rauðvín til að finna daginn eftir að orkan og andinn er ekki sá sami... hvað þá þegar menn drekka öllum stundum og eru gjarnan vel ölvaðir... hvernig eru þeirra dagar í vinnu... rússíbani timburmanna og vímu eins og ég segi...  varla uppbyggjandi.

En ég er að fjalla um drykkjuskap þeirra sem gefa sig út fyrir að vinna í almannaþágu, þeir sem þiggja laun sín frá almenningi til að passa stórheimili þeirra... ég vil ekki hafa fyllirafta og fjármálaóreiðumenn að passa mitt heimili, svo mikið er víst... það held ég að fæstir vilji..   þeir menn sem eru kjörnir fulltrúar og eru óreiðumenn eiga að  finna sér annan vettvang þar sem þeir geta stundað sitt áhugamál afskiptalaust og láta vera að skaða almannahagsmuni.

Er það ekki sanngjörn krafa :)  ?

Ólafur í Hvarfi, 22.1.2010 kl. 15:25

Og nú kemur hinn mæti Marteinn aftur.

ÉG tel að krafa þín sé mjög sanngjörn.  Reyndar er það með okkur kjósendur eins og aðra vinnuveitendur, við getum ekki liðið að fólk standi ekki sína plikt með fullri meðvitund.

 

Það er nú samt þannig með áfengismisnotkun að hún er oft birtingarmynd kvíða og þunglyndis sem svo ágerist með neyslunni.  Þetta verður vítahringur örvæntingar.  SÁÁ hefur unnið frábært starf hér á landi og mér finnst engin skömm í því að menn leiti sér hjálpar.  Hjá þeim gerast kraftaverkin og margir eiga þeim líf að launa.

 

Marteinn Mæti Mos. (IP-tala skráð) 22.1.2010 kl. 15:48

 Smámynd: Ólafur í Hvarfi

Og nú kemur Ólafur stjórnarmaður magnþrunginn

"Eins go þú segir, kvíði, þunglyndi og örvænting einkennir alkóhólisma... þetta er sjúkdómur og alls ekki skömm að viðurkenna sjúkdóm, hvað þá að leita sér aðstoðar.... SÁÁ er meðferðarstofnun í fremstu röð í heiminum og íslendingar heppnir að búa að slíku apperati.

Afabróðir minn Skúli Þórðarson var forstöðumaður drykkjumannahælisins Akurhóll sem var í Gunnarsholti á Rangárvöllum.. þar var ég mikið þegar ég ólst upp og kynntist veruleika í kringum alkóhólisma...  ég hef meira að segja heimsótt Freeport þegar ég var 17 ára vegna nákomins ættingja sem hafði verið það í meðferð og var að fylgja öðrum í meðferð og kynntist ég ágætlega starfinu þar, er líklega einn af þeim fáu íslendingum sem hef komið þangað án þess að vera í meðferð ( nú trúir mér enginn ;) )

Drykkjusýki er ekkert grín og því væri athyglisvert að sjá hvort að þessir þættir verði nokkurn tíma hluti af umræðu og kröfu... ekkert tabú" :)

Ólafur í Hvarfi 22.1.2010 kl. 16:04

Já hún er "skemmtileg  að vanda, málefnanleg og jákvæð" umræðan hjá stjórnarfólki Varmársamtakanna.

Væri ekki nær hjá þessum stjórnarmönnum að taka þátt í þorrablóti okkar Mosfellinga til styrktar íþróttastarfi Aftureldingar. 

Það er vafalítið miklu skemmtilegra og eðlilegra heldur en að standa vakt í einhverri eftirlitsnefnd í hvarfi á þorrablóti og athuga hvort einhver verði sér ekki örugglega til skammar á blótinu.

Í gamla daga hefði slík njósnastarfsemi verið kölluð smáborgaraháttur.

Bestu kveðjur frá bæjarfulltrúanum og forsetanum úr Tungunni. 

 

Karl Tómasson, 23.1.2010 kl. 00:19

4 Smámynd: HP Foss

Ha,ha,ha,ha...... þú ert að grínast....er ekki í lagi með þetta fólk...hvað er næst....eftirlit með ofbeldi gegn eiginkonum í heimahúsum. Ég stefni á þorrablót hjá Skaftfellingafélaginu þar sem fólki er frjálst að skemmta sér án efirlitsnefndar....eða....já..... ólíklegasta fólk telst nú víst til Skaftfellinga.......best að vera á varðbergi :)

HP Foss, 23.1.2010 kl. 00:32

5 Smámynd: Guðmundur St. Valdimarsson

Ég vona að þið hafið átt góða og skemmtilega stund á blóti þessu með eftirliti eða án þess. Ég er ekki í nokkrum vafa um að allt það sem prýðir gott blót hafi verið þarna til staðar. Súrt og sætt, hert og reykt, soðið og bakað, frosið og rammt, freyðandi og kalt ásamt einhverju fleiru.

 

Það er greinilegt á öllu að ákveðin hreyfing í bæjarfélaginu finnst sér skylt að vera með eftirlitsaðila út um allan bæ að gæta að hinu og þessu, sér í lagi um það hvað aðrir eru að aðhafast.

 

Það væri svo sem ágætt ef þeir tækju eitthvað mark á því sem þeir verða vitni að og lærðu af því sér og öðrum til bóta. Nú einnig mætti hugsa sér að þau gættu líka að því hvað þeirra eigin fólk er að aðhafast. En svo er víst því miður ekki.

 

Það er víða rúða brotin þegar kemur að því að kasta steinum út úr glerhúsum. Það væri verðugt rannsóknar verkefniefni að skoða hvort glerbrotin liggja fyrir innan eða utan karm. Ég veðja á að þau liggi flest fyrir utan karm og þar með má leiða líkum að því hvernig hún brotnaði. Mér sýnist á öllu að lítið sé eftir af glerhúsinu annað en grindin og gott ef hún er ekki eitthvað farin að skælast líka.

 

Þess er skemmst að mynnast þegar maður einn sem áhuga hefur á Þingvalla murtu náði sér í kút eða tvo og hóf að hrauna yfir mann og annan með hjálp veraldarvefsins, þá hefði verið gott að hafa eftirlits aðla á staðnum til að gæta velsæmis í orðavali ofl..

Nú annar gjörvulegur maður mætti í pontu hins háa og hélt þar eldræðu eftir að hafa fengið sér sopa eða tvo af gleðivökvanum, þar hefði nú verið gott ef eftirlitið hefði verið á staðnum og látið hann blása áður.

 

Fleiri dæmi um hvernig eftirlitið brást á ögurstundu mætti telja, en núna er ég orðin lúin í fingrunum og hef þetta því ekki lengra.

 

Heillavænlegast þykir að komast áfram á eigin verðleikum og mannkostum. Biturð, fals og slæmur ásetningur hefur aldrei komið nokkrum áfram að markmiði sínu.

 

Heiðarleiki, umburðarlindi, trúnaður og vinnusemi eru allt mannkostir sem koma einstaklingum langleiðina að markmiðum sínum.

 

Leggjum málið í dóm kjósenda því þeir eru í raun hin eini sanni eftirlitsaðli og skoðum hvað þeir hafa um málið að segja. Síðan skulum við spyrja að leikslokum.

 

Eða eins og bændur undir Eyjafjöllum sögðu fyrir miðja síðustu öld, við viljum ekki prest sem ekki fær sér tár við og við, hætt er við að slíkur maður sé andlaus.

Guðmundur St. Valdimarsson, 24.1.2010 kl. 16:37

6 identicon

Já, já þetta var hið ágætasta blót eins og það alltaf hefur verið. Enginn varð sé til skammar og allir voru kátir og glaðir, syngjandi og dansandi, trallandi og tjúttandi og aðallega hlæjandi.

Hins vegar varð vart við einstaka forynjur sem ekki hafa sést áður á þessum blótum - þær voru sveittar mjög og fóru mikinn í rassakasti og skankasveiflum sem þær kölluðu dans. Var þeim ekki mjög umhugað um umhverfi sitt - hvorki nær- né fjærumhverfið, og slepptu ekki óheppnum dansfélögum svo glatt. Dansfélagarnir njóta nú áfallahjálpar.

En þessi danskúnst er svosem ekkert nýtt en það læddist að fólki ákveðinn grunur um hvað þessar forynjur vildu allt í einu upp á dekk þessarar samkundu, en það er önnur saga ;O)

Hjördís Kvaran Einarsdóttir (IP-tala skráð) 24.1.2010 kl. 20:38

7 Smámynd: Karl Tómasson

Allt gekk upp á þorrablótinu að venju.

Með ári hverju sér maður hvernig allt skipulag á þessari stóru skemmtun verður alltaf betra og betra, undirbúningsnefndin fer orðið á kostum.

Til hamingju með blótið og takk fyrir mig.

Karl Tómasson, 25.1.2010 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband