Mjög óvænt og skemmtileg heimsókn

Við fengum mjög óvænta, sérkennilega en skemmtilega heimsókn í sumarbústaðinn einn góðan sumardag.

Ég var að smíða eitthvað og vesenast, þegar allt í einu settist við hliðina á mér lítill sætur fugl. Hann var greinilega gæfari en eðlilegt getur talist svo ég bað Línu um að hlaupa inn í bústað og ná í myndavél. Þegar Lína kom út með myndavélina var fuglinn sestur á hausinn á mér og var hinn rólegasti.

Ýmislegt ótrúlegt og óvænt átti eftir að gerast þegar leið á daginn. Fuglinn varð skírður nokkuð fljótlega af heimasætunni og fékk nafnið Póló.

Póló dvaldi hjá okkur fram á kvöld og elti okkur hvert sem við fórum, bæði innan- og utandyra. Þegar við höfðum átt margar góðar stundir með Póló ákvaðum við að fara í langan göngutúr með hann á öxlinni að heimsækja frænku mína sem á bústað í nokkurhundruð metra fjarlægð frá okkar sumarhúsi. Við kynntum Póló fyrir húsráðendum þar, sem voru vitanlega mjög hissa að sjá þennan vin okkar á öxl minni.

Þegar þeirri heimsókn var lokið ákváðum við að komið væri að kveðjustund og kvöddum Póló með því að henda honum upp í loftið, hann flaug á brott og hvarf sjónum okkar.

Vitanlega var svolítill söknuður hjá okkur öllum og þó sér í lagi hjá heimasætunni.

Sagan er samt ekki öll sögð, því nokkrum klukkustundum síðar kom Póló aftur til okkar og dvaldi hjá okkur allt þar til við fórum að sofa en þá settum við hann í pappakassa og fórum með hann út.

Póló var farinn úr pappakassanum morguninn eftir og vonandi er hann nú búinn að koma sér vel fyrir í því umhverfi sem hann á heima.

Við áttuðum okkur fljótt á því að þarna væri sennilega um að ræða fugl sem hafi verið tekinn úr hreiðri, eða í það minnsta ófleygur og alinn upp af mannfólki. Slík umhyggja getur stundum verið varasöm þegar fram líða stundir.

Þá er sagan öll.

Picture 064
Póló nýkomin og sestur á hausinn á mér.
Picture 066
Póló fær vatn og Tryggur fylgist spenntur með.
Picture 184
Birna og Póló.
Picture 185
Seinni heimsóknin hjá Póló og þarna er komið kvöld. Lína og Póló í heilmiklum samræðum.
Picture 186
Póló fékk aðeins að kíkja inn en var að því loknu kvaddur.

  


Bloggfærslur 3. september 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband