Mikið er ég stoltur af brósa mínum

Í dag var frétt um hann bróðir minn, Björgvin Tómasson, orgelsmið og pípuorgelið sem hann ásamt sínum frábæru smiðum er að reisa nú þessa dagana í Vídalínskirkju í Garðabæ.

Ég var svo heppinn að fá að kynnast orgelsmíðinni eilítið þegar ég vann hjá honum þegar hann var með orgelverkstæði sitt og smiðju í gamla fjósinu á Blikastöðum í Mosfellsbæ. Í næsta rými við hliðina var hljómsveit mín Gildran einnig með aðstöðu um árabil.

Það er fróðlegt að sjá heilt risastórt pípuorgel fæðast, sjá fyrst allar þessar óhemju flóknu teikningar af útliti þess, svo ekki sé talað um innviðum þess sem eru algjör heildarfrumskógur fyrir viðvaning.

Það er erfitt að lýsa því mikla nostri sem á sér stað við smíði svo stórra hljóðfæra sem pípuorgel eru. Hvert og eitt smáatriði skiptir öllu máli svo allt virki þetta nú saman sem ein heild á endanum.

Svo má ekki gleyma að allt er þetta smíðað úr eðal efnum, sama hvort um járn tré eða hvað sem í smíðina er notað enda þurfa slík hljóðfæri að duga í hundrað ár eða jafnvel meira.

Brósi

„Það er liðið um það bil ár síðan ég rölti hérna um kirkjuna með organista og formanni sóknarnefndar til að sjá hvernig við vildum hafa þetta,“ segir Björgvin Tómasson orgelsmiður, sem nú er að setja upp nýjustu afurð sína í Vídalínskirkju í Garðabæ.

Slíkt verk er ekki hrist fram úr erminni en því fylgja 1.200 pípur og eru sumar þeirra í um sjö metra hæð. Þegar þær eru komnar á sinn stað á svo eftir að stilla og inntóna orgelið, sem er tímafrekt, svo það verður ekki fyrr en í október sem hljóðfærið verður komið í gagnið.

„Það er mikill munur fyrir kirkjurnar að fá innlendan mann til að gera þetta. Ég get til dæmis smíðað orgelið inn í kirkjuna en því er ekki að heilsa þegar menn kaupa þetta að utan,“ segir Björgvin.

Það er reyndar ekki um marga innlenda að ræða því hann er eini orgelsmiðurinn á landinu og því segir hann í gríni að það ríki alltaf mikil sátt þegar stéttarfélagið kemur saman.

Hann er engin nýgræðingur í greininni en aldarfjórðungur er liðinn frá því hann hannaði sitt fyrsta orgel. „Já, það var Björgvin Tómasson opus 1 en þessi hérna er Björgvin Tómasson opus 34.“

Honum þykir það þó óneitanlega undarleg tilhugsun að verið sé að leika á Björgvin víða um land. Hann segist þó ekki gera upp á milli þessara nafna sinna. „Maður gerir ekki upp á milli barnanna sinna,“ segir hann.

„Hins vegar er það alveg sársaukalaust að segja frá því hvar þeir hljóma best en eins og við vitum getur hljómburður verið æði misjafn í kirkjum landsins. Ég er til dæmis sérstaklega ánægður með hvernig hann hljómar í Laugarneskirkju, þar er reyndar stærsta orgelið sem ég hef smíðað.“ Hann segist einnig ánægður með hvernig Björgvinarnir hljóma í Hjallakirkju og Digraneskirkju í Kópavogi.

Þótt Björgvin sé einn í stéttarfélagi orgelsmiða á Íslandi er hann ekki einn að verki. „Ég er svo heppinn að hafa starfað með Jóhanni Halli Jónssyni smiði í ein tuttugu ár og svo Guðmundi Gesti Þórissyni um alllangt skeið. Svo hefur sonur minn verið mér mikil hjálparhella. Þó held ég að það sé borin von að hann vilji halda taka við kyndlinum og halda þessari listiðju í fjölskyldunni.“

Hér að neðan er myndband af brósa þegar hann var að smíða orgelið hennar Bjarkar Guðmunds ásamt aðstoðarmönnum.

http://www.youtube.com/watch?v=J0uXL1E5qn8


Bloggfærslur 22. júlí 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband