Þar sem aldrei á grjóti gráu gullin mót sólu hlæja blóm og ginnhvítar öldur gljúfrin háu grimmefldum nísta heljar-klóm, kveður þú, foss, minn forni vinur, með fimbulrómi sí og æ; undir þér bergið sterka stynur sem strá í nætur-kulda-blæ.
Kveður þú ljóð um hali horfna og hetju-líf á fyrri öld; talar þú margt um frelsið forna og frægðarinnar dapra kvöld. Ljósgeislar á þér leika skærir, liðnir frá sól í gegnum ský; regnboga-litir titra tærir tröllauknum bárum þínum í.
Ægilegur og undrafríður ertú, ið mikla fossa-val; aflrammur jafnt þú áfram líður í eyðilegum hamra-sal. Tímarnir breytast; bölið sára það brjóstið slær, er fyrr var glatt; er alltaf söm þín ógnar-bára ofan um veltist gljúfrið bratt.
Stormarnir hvína, stráin sölna, stórvaxin alda rís á sæ, á rjóðum kinnum rósir fölna í regin-köldum harma-blæ, brennandi tár um bleikan vanga boga, því hjartað vantar ró - en alltaf jafnt um ævi langa aldan í þínu djúpi hló.
Blunda vil ég í bárum þínum, þá bleikur loksins hníg ég nár, þar sem að enginn yfir mínu önduðu líki fellir tár; og þegar sveit með sorgar-hljóði syngur döpur of ann´ra ná, í jörmun-efldum íturmóði yfir mér skaltu hlæja þá.
Ljóðið Dettifoss birtist fyrst í blaðinu ,,Íslendingi" árið 1861. ,,Vakti það svo mikla eftirtekt, að höfundur þess, vinnupilturinn á Fjöllunum, var nú orðinn þjóðskáldið Kristján Jónsson." Er kvæðið enn þann dag í dag talið með fegurstu kvæðum sem kveðin hafa verið á íslensku í þessum anda, og er eitt af bestu kvæðum Kristjáns.
Ég er 49 ára Mosfellingur. Eiginkona mín er Líney Ólafsdóttir, leikskólakennari. Við eigum tvö börn, Ólaf 23 ára og Birnu 13 ára. Hundarnir okkar tveir heita, Tryggur og Trýna. Áhugamál mín eru: fjölskyldan, tónlist, myndlist, smíðar og garðrækt. Ég er forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.