fim. 13.5.2010
Kosningavor
Að loknu farsælu kjörtímabili
Það eru orð að sönnu að tíminn flýgur hratt, einkum þegar vel gengur í lífi og starfi. Nú eru sveitarstjórnarkosningar framundan og rétti tíminn til að líta um öxl yfir liðið kjörtímabil og jafnframt fram á veginn.
Eftir góðan sigur í síðustu kosningum komst Vinstri hreyfingin-grænt framboð til áhrifa í Mosfellsbæ og hefur verið í meirihluta allt kjörtímabilið. Þetta var jafnframt í fyrsta skipti á landsvísu sem Vinstri græn mynduðu meirihluta undir eigin merki. Samstarfið hefur gengið afar vel hér í Mosfellsbæ og byggir á trausti og jafnræði flokkanna.
Hinsvegar hefur allvíða um land slitnað upp úr meirihlutasamstarfi á kjörtímabilinu og stundum óheilinum kennt um.
Erfiðir tímar í samfélaginu hafa ekki komið í veg fyrir að mörgum mikilvægum verkum hefur verið hrint í framkvæmd í Mosfellsbæ og stafar það ekki síst af mikilli ráðdeild bæjaryfirvalda.
Að loknu farsælu kjörtímabili kemur fyrst upp í hugann þakklæti til allra bæjarbúa, starfsmanna Mosfellsbæjar og samstarfsfólks míns í bæjarstjórn.
Meðal þess sem sem hefur áunnist
Gjaldfrjáls leikskólagjöld fyrir fimm ára börn komu til sögunnar.
Nýtt, glæsilegt miðbæjartorg með útilistaverki vígt.
Mosfellsbær varð fyrst sveitarfélaga til að samþykkja Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla og árlegur dagur jafnréttis í Mosfellsbæ var festur í sessi.
Nýtt og vandað miðbæjarskipulag samþykkt.
Framhaldsskóli Mosfellsbæjar tók til starfa.
Gengið frá samningum um byggingu nýs hjúkrunarheimilis.
Krikaskóli tók til starfa og skólaþing haldin.
Frístundaávísanir gefnar út til að styðja við tómstundastarf barna og unglinga.
Gengið frá stefnumótun um sjálfbæra þróun.
Umhverfisvæn innkaupastefna og grænt bókhald samþykkt.
Ævintýragarður og hugmyndir um hönnun hans kynntar.
Íbúagátt tekin í notkun hjá Mosfellsbæ.
Nýtt skipurit fyrir Mosfellsbæ tekið í notkun.
Hér er vissulega aðeins stiklað á okkar stærstu framkvæmdum, þær minni skipta ekki síður máli en of langt mál yrð að telja þær upp hér.
Að lokum
Við vinstri-græn í Mosfellsbæ höfum sannarlega lagt okkar að mörkum við að gera fallegan og góðan bæ enn betri. Við göngum með ánægju til komandi bæjarstjórnarkosninga að loknu farsælu kjörtímabili sem við erum stolt af.
Ágæti kjósandi, ég skora á þig að íhuga vel hverjum þú greiðir atkvæði þitt í vor. Vinstrihreyfingin grænt framboð er heilsteypt og heiðarlegt stjórnmálaafl sem hefur haft mikil áhrif á íslenskt samfélag hin síðustu ár.
Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og efsti maður á lista VG í Mosfellsbæ.
Greinin byrtist í bæjarblaðinu Mosfellingi 12. maí.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)