Frá Íslendingi

Góður vinur minn og samstarfsfélagi til margra ára sendi mér þessa grein á dögunum. Hann spurði mig hvort ég væri til í að birta hana á blogginu mínu. Það var auðsótt mál hjá honum.

Hugsjónir hans og pælingar þekki ég vel, réttsýnn og góður maður skrifar hér kröftugt bréf til forsætis - og fjármálaráðherra og hér kemur það.

Sæl Jóhanna og Steingrímur

Ég er 51 eins árs gítarleikari, viðskiptafræðingur frá HÍ og skrifstofustjóri hjá Félagi íslenskra hljómlistarmanna.

Ég skrifa ykkur því mér ofbýður hvert það samfélag sem við búum í stefnir. Ég horfði alltaf fyrirlitningaraugum á valdabrölt fjármálaaflanna í tíð fyrrverandi ríkistjórnar. Ég skildi aldrei og hef aldrei skilið hvað það var sem orsakar það að þessi öfl virðast líta svo  á að þau hafi vald frá Guði til þess að höndla með sameiginlega ábyrgð og fjármuni almennings.

Allt sé leyfilegt svo fremi sem það komist ekki upp.

Nú þegar rúmt ár er frá því að ríkisstjórn ykkar tók við virðist að  þið hafið leyft spillangaröflunum að hreiðra um sig að nýju að því er virðist óáreyttum. Bankastjórarnir ásamt skilanefndunum eru farnir að virka á mann eins og mafíósar í bíómynd og maður skilur einfaldlega ekki þau rök sem liggja baki því að afhenda fjárglæframönnum aftur fyrirtæki sem þeir hafa skuldsett langt umfram eignir á þeim forsendum að þeir einir geti rekið þau. Skilanefndir bankanna moka fé út úr bönkunum að því er virðist óáreittar.

Mitt fólk, hljómlistarmenn hefur eins og öll þjóðin orðið fyrir mikilli kjaraskerðingu í formi lækkaðra launa, hækkunar skatta, aukinnar skuldsetningar og lækkunar fasteignaverðs sem virðist engan endi ætla að taka. Kjarasamningar eru flestir útrunnir og ekki nokkur leið að sækja kjarabætur og hækkanir til atvinnurekenda. Rekstur stéttafélaga er erfiður því að markmið um kjarabætur eru langt úr augsýn og eina sem við getum gert er að klóra í bakkann. 

Það sem mér finnst líka alvarlegt að það er búið að vega þannig að stofnunum og mátastólpum samfélagsins að það er líkt og það sé verið að tæta samfélagið í sundur. Ríkisfyrirtæki, stofnanir, bankar sem störfuðu í þágu almennings gegn sanngjörnu gjaldi hafa verið seld og verðskrár þeirra hækkaðar með það að markmiði að hámarka hagnað eigenda. Stofnanir eins og Ríkisútvarpið sem gegna mikilvægu hlutverki í menningarsamfélaginu eru illa særðar og eiga í erfiðleikum eða geta ekki staðið við gerða samninga og hafa þannig ekki möguleika á að sinna skyldum sínum. Heilbrigðisstofnanir eru í stöðugum fjársvelti og á biðstofu Slysavarðstofunnar hefur um langt skeið hangið spjald þar sem farið er fram á að þeir sem þurfa á aðstoð að halda sýni biðlund þar sem móttakan sé fáliðuð.

Ég er þeirrar skoðunar að hagstæðir Icesave samningar og hækkaðir skattar séu ekki aðalatriðið í þeim þrengingum sem við nú förum í gegnum. Það er sama hvað mikið kemur inn ef hagkerfið er hriplekt og fjármunir streyma óáreyttir inn og út um ósýnilegar spillingarhurðir.

Ég fer því fram á að þið skerið upp herör gegn spillingaröflunum sem ógna okkur öllum. Sýnið í verki að þið standið með fólkinu í landinu og upprætið þennan ófögnuð. Þið eruð í raun eina fólkið sem getur gert þetta og með aðgerðum fylkið þið þjóðinni á bak við ykkur.

Ég tel að við sem þjóð stöndum á tímamótum og verði ekki brugðist við núna geti afleiðingarnar orðið dýrkeyptar fyrir okkur. 

Virðingarfyllst

Sigurgeir Sigmundsson Íslendingur.


Bloggfærslur 24. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband