sun. 14.2.2010
Meyjan hrein
Gildran og Jethro tull eftir frábæra tónleika í höllinni á Akranesi.
Nú stendur yfir sem hæst undirbúningur okkar Gildrufélaga, vegna fyrirhugaðra tónleika í tilefni af 30 ára samstarfi okkar sem haldnir verða í Mosfellsbæ þann 1. maí.
Eins og ég skrifaði um hér á síðu minni fyrir skömmu síðan, munum við taka öll okkar gömlu lög. Eitt þeirra verður vissulega það lag sem kom okkur á kortið eins og sagt er. það er lagið Mærin.
Mærin kom út á okkar fyrstu hljómplötu, (Huldumenn) Lagið sló í gegn og hefur verið eitt af okkar vörumerkjum alla tíð síðan. Á bakvið lagið er skemmtileg saga.
Þannig er, að þegar við vorum í Stúdíó Stemmu með Didda fiðlu og Gunnari Smára, upptökumönnum okkar, kíkti Pétur, vinur okkar Kristjáns í stúdíóið til að hlýða á plötuna. Pétur heitinn, var þekktur fyrir næmni sína á það, hvaða lög næðu í gegn hjá landanum og væru líkleg til vinsælda, enda stofnaði hann vart hljómsveit öðruvísi en að hún slægi í gegn á landsvísu.
Við félagarnir vorum búnir að raða plötunni upp og öll lög búinn að fá sinn stað á vínylnum þegar Pétur mætti í stúdíóið. Eftir að hann var búinn að hlusta á plötuna sagði hann við okkur " Strákar mínir" þið veðjið á kolrangt lag sem upphafslag plötunnar. Þið eigið að láta Mærina vera lag númer eitt. Það er Mærin sem á eftir að slá í gegn og vekja á ykkur athygli.
Viti menn. Eins og venjulega, hafði hann rétt fyrir sér. Lagið okkar gamla góða, Mærin hefur alltaf virkað og það sem meira er, elst vel.
Oftar en ekki þegar við vorum beðnir um að spila Mærina var alltaf sagt við okkur, spilið meyjan hrein en á þeim orðum hefst textinn í laginu.
Sú hreina mey sem við fjöllum um í laginu virðist af mörgum hafa verið misskilin hjá okkur.
Það var ekki sú sama og Madonna söng um á sínum tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)