Það er greinilega mikið rót á Moggabloggurum þessa dagana. Einn af öðrum eru þeir að yfirgefa þennan vettvang. Vafa lítið á maður eftir að sakna margra góðra penna, sem hafa reglulega náð athygli manns. Það er með ólíkindum hvað Dabbi hringlar í hlutunum. Hvar sem hann er og hvert sem hann kemur.
Ég satt að segja veit ekki, hvort þetta upphlaup þessara ágætu bloggara hafi nokkuð að segja. Verið er, að yfirgefa eitt bloggsvæði til að fara á annað, þar sem Dabbi er nú örugglega ekki, það er jú ástæða brottflutningsins. Hver sem er getur opnað síðu á Moggablogginu, dæmi eru þó um, að öðru máli gegni annarsstaðar. Vissulega eru sumir bloggarar greinilega vinsælli hjá Moggabloggsritstjórninni en aðrir, það er svo aftur annað mál.
Ég velti því fyrir mér af hverju verið er að skipta sér af ráðningu Dabba í ritstjórastólinn og allir fjölmiðlar eru uppfullir af því svo dögum skiptir. Á það að koma nokkrum á óvart að Mogginn verði jafnvel aftur hreinræktað málgagn þess arms Sjálfstæðisflokksins? Þeir gömlu forkólfar flokksins, hafa ekki litið bjartan dag, þann tíma sem blaðið stefndi óðfluga í þá átt að vera hlutlaust fréttablað.
Leyfum þessum köllum bara að láta Moggann fara sína leið, verða jafnvel aftur að hreinræktuðum íhaldspésa. Tilhvers að vera að skipta sér af einhverju sem er að gerast á Mogganum? Ég botna bara ekkert í þessu. Hættum þá frekar að skrifa í hann og beinum skrifum okkar annað, t.d. hingað á bloggið og í aðra miðla. Þeir eru nú öllu fleiri möguleikarnir sem við höfum á slíku í dag en fyrir 20 árum. Það væru öflugustu skilaboð sem við getum sent ritstjórn og um leið starfsfólki Moggans, ef okkur er það í mun að stefna blaðsins eigi að vera hlutlaust og málefnaleg.
Mogginn á ekki sjö dagana sæla ef allar aðsendar greinar í blaðinu koma frá Hannesi Hólmstein, Birni Bjarna, Kjartani Gunnars og félögum.
Hjá Morgunblaðinu starfar margt gott fólk og það er vissulega leiðinlegt, að sumt af því hefur nú fengið reisupassann. Ég trúi því ekki að Þeir sem eftir eru hjá blaðinu og vilja veg þess sem mestan láti stjórnast af nokkrum gömlum köllum.
Þessir ágætu blaðamenn gera sér vafalítið grein fyrir því, að ætli blaðið að ná eyrum og augum allra Íslendinga, gengur það aldrei upp, ef allar greinar og fréttaflutningur blaðsins, eigi eingöngu að þóknast gömlum íhaldsmönnum. Sjáum hvað setur.
P.s. Ágætu bloggarar. Endilega takið þátt í skoðanakönnuninni hér upp í hægra horninu hjá mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)