lau. 26.9.2009
Eru menn nú farnir að yfirgefa Moggabloggið, einn af öðrum?
Það er ekki nóg með að fólk sé farið að segja upp áskrift á Mogganum, heldur les maður um það að bloggarar til margra ára séu að hætta á Moggablogginu og jafnvel hver þingmaðurinn á eftir öðrum stígur það skref. Hvað gengur á???
Mikið er leiðinlegt að sjá á eftir gömlum og skemmtilegum pennum af Moggablogginu.
Ég velti því fyrir mér, eftir að lesa um slíkar ákvarðanir, hvort ekki hafi oftar verið þörf hjá okkur Íslendingum að grípa til jafn skeleggra skilaboða, reyndar á annan hátt en að hætta að skrifa á Moggabloggið.
Hverjum er ekki sama um það, þótt við hættum að skrifa á Moggabloggið, svo ekki sé nú talað um ef við færum okkur beint á næsta vef? Jú, jú, vissulega táknrænn gjörningur, en algerlega bitlaus. Gjörningur sem bitnar fyrst og síðast á fullkomlega saklausu fólki.
Ég hef margt um Moggabloggið að segja og sumt af því á ég eflaust eftir að tjá mig um síðar, en látum það liggja á milli hluta.
Við Íslendingar, höfum í gegnum árin sætt okkur við gengdarlaust misferli, ófögnuð og svik án þess að mæla jafnvel orð af munni, hvað þá að arka út á torg og lemja í potta og pönnur. Betra er þó seint en aldrei og nú í dag hafa sem betur fer opnast nýjar víddir gagnvart slíku í þjóðfélaginu. Besta og nærtækasta dæmið um það er vissulega búsáhaldarbyltingin fræga.
Í dag tala menn um að reisa eigi styttu af Helga Hóseassyni í Reykjavík, manni sem margir hlógu að í sinni baráttu. Baráttu sem hann háði einn um árabil.
Mér er ekki kunnugt um að nokkur maður hafi nokkru sinni staðið vaktina við hlið Helga á Langholtsveginum í öll árin sem hann var þar með sín skilti, hvernig sem viðraði.
Maður er alltaf að læra.
Endilega kjósið hjá mér í skoðanakönnuninni hér fyrir ofan.
Bloggar | Breytt 27.9.2009 kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)