þri. 4.8.2009
Borga, borga ekki, borga, borga ekki
Það er merkilegt að heyra svo mánuðum skiptir allar þær vangaveltur hundruða sérfræðinga um hvaða lausn sé best fyrir okkur Íslendinga til að koma okkur úr þeim miklu vandræðum sem við stöndum frammi fyrir. Sitt sýnist hverjum að því er virðist.
Í fréttum í kvöld taldi félagsmálaráðherra það ómögulega lausn að afskrifa hluta þeirra skulda sem tugþúsundir fjölskyldna standa frammi fyrir og ráða ekkert við. Helstu rökin voru þau, að þá væri annað fólk að taka á sig skuldabirgðar sem það stofnaði ekki til.
Á sama tíma telst það sjálfsagður hlutur að allir íslendingar og fjölskyldur í landinu standi saman að því að greiða niður þau glæpsamlegu athæfi sem þjóðin hefur orðið fyrir af völdum fáeinna aðila.
Þær fjölskyldur sem eiga nú í mestum vanda, þurftu að ganga í gegnum allsherjar skoðun á greiðslugetu sinni til að fá þau lán sem til þurfti í þær framkvæmdir sem til stóðu.
Lán sem eru orðin eitthvað allt annað í dag en þegar til þeirra var stofnað og um þau samið.
"Snillingarnir miklu" sem voru svo klárir að sjálfsagt þótti að þeir fengju hundruði milljóna í árstekjur þurftu greinilega ekki að ganga í gegnum slík próf til að fá jafnvel milljarða lán, enda hefur komið á daginn að slíkt próf hefðu þeir aldrei staðist.
Ég trúi því seint að það teljist besti kosturinn að hrifsa heimili tugþúsunda, alsaklausra fjölskyldna með öllum þeim hörmungum sem það getur valdið og selja í kjölfarið eignirnar á útsölu verði skömmu síðar, seint, eða jafnvel aldrei.
Væri ekki nær að gefa þessum fjölskyldum færi á því að halda í sín heimili með þeim afskriftum sem til þarf að það sé þeim mögulegt að búa áfram á heimilum sínum.
6. ágúst 2009
Ég má til með að bæta hér inn athugasemd sem mér barst hér að neðan frá Sigurði Hreiðari.
Auðvitað á ekki að tala um afskriftir eins og virðist viðgangast í allri umræðu, heldur leiðréttingu, eins og Sigurður Hreiðar bendir réttilega á. Það segir sig sjálft.
Hér er ekkert um annað en leiðréttingu að ræða.
Bloggar | Breytt 6.8.2009 kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)