mið. 3.6.2009
Gefum stjórnvöldum tækifæri
Öllum má ljóst vera að efnahagshrun okkar Íslendinga er meira en nokkru sinni fyrr og alvarlegra en víðast hvar þekkist í heiminum.
Okkur var rænt af fáeinum kverúlöntum sem þáverandi stjórnvöld töldu vera að koma okkur í hæstu hæðir efnahagslífsins. Þau dönsuðu sem aldrei fyrr með "snillingunum" sem sjálfsagt þótti að fengju 300 milljónir á mánuði eða 500 milljónir fyrir að hætta eða byrja í vinnunni sinni.
Ég er á þeirri skoðun að við verðum að gefa núverandi stjórnvöldum, sem aðeins hafa haft nokkrar vikur, meira svigrúm til að leysa vandann, áður en við blásum í lúðrana og hefjum skipulega andúð á starfi þeirra.
Ég átti ekki til orð að heyra í Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, í Kastljósinu í kvöld þar sem hann m.a. furðaði sig á því að ekki hefði mátt gera hagræðingar í heilbrigðiskerfinu.
Á sama tíma furða flokksfélagar hans og fleiri stjórnmálamenn sig á aukinni álagningu á áfengi og tóbaki hjá núverandi stjórnvöldum.
Ég spyr. Hvar á að byrja að skera niður, eða hvar á að byrja að leggja skattana?
Eitthvað þarf að gera. Við verðum að koma okkur upp úr þessum vanda. Öll saman.
Öllum má ljóst vera, að ráðamenn þjóðarinnar vinna daga og nætur til að finna lausn á vanda okkar og ég hef það frá fyrstu hendi, að Steingrímur J. Sigfússon, hafi unnið nánast allan sólarhringinn, frá því að hann tók við embætti sínu sem fjármálaráðherra.
Það eru fá dæmi um að ráðherrar hafi verið jafn fúsir og hann að koma ávalt í viðtal þegar beðið er um til að greina frá stöðunni. Það ber að virða við hann.
Verum sanngjörn þrátt fyrir erfiða tíma hjá okkur öllum.
Gefum stjórnvöldum tækifæri í a.m.k. nokkrar vikur í viðbót.
Bíðum með pottana og pönnurnar í nokkrar vikur.
Fyrrverandi ráðamenn þjóðarinnar fengu 18 ár og skiluðu þessu búi til okkar sem við erum nú að fást við og súpa seyðið af.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)