lau. 13.6.2009
Mútuþægni ?
"Varmársamtökin verða að gegna hlutverki sérstaks saksóknara eða Evu Joly hér í Mosfellsbæ við sveitarstjórnarkosningar á næsta ári. Vera leiðandi um opna og heiðarlega umræðu þar sem sitjandi stjórnvöld þurfa að verja gjörðir sínar."
Þetta skrifar Gunnlaugur B Ólafsson fyrrum formaður Varmársamtakanna á síðu sinni í gær. Draumar Gunnlaugs um stöðu Varmársamtakanna hér í bæ eru ekki nýir af nálinni og svo sem ekkert við þeim að segja, hverjum og einum er hollt að láta sig dreyma, það má bara ekki gleymast að draumar geta verið fallvaltir.
Það sem vekur hinsvegar furðu mína við þessi skrif Gunnlaugs er eina athugasemdin sem komin er við þau. Það er athugasemd skrifuð af Arnþóri Jónssyni og þar segir:
"Aðrir í stjórn hafa hagað sér eins og gera má ráð fyrir á meðan Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar hefur svikið kjósendur sína og selt verktökum hugsjónir sínar fyrir smáaura."
Nú er mér nóg boðið og fer ég fram á það við Arnþór og Varmársamtökin í heild sinni að þau útskýri á ábyrgan hátt afhverju ég sæti stanslausum ásökunum af hendi meðlima samtakanna um að ég þiggi mútur í einni eða annarri mynd. Skemmst er að minnast hamagangsins sem Ólafur í Hvarfi var með hér á síðunni minni vegna þess sem hann kallaði mútuþægni bæjarstjórnar og vildi gera mig ábyrgan fyrir að sú meinta mútuþægni viðgengist enn.
Einnig er vert að minnast orða Snorra Freys Hilmarssonar formanns Torfusamtakanna um mútuþægni bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ gagnvart verktökum og fór ekki á milli mála að í þeim orðum átti hann við mig. Aðspurður sagðist hann hafa þetta eftir fólki í Mosfellsbæ en hann var ófáanlegur til þess að nefna það fólk á nafn. Hvað kemur formanni íbúasamtaka í öðru sveitarfélagi til að staðhæfa á þennan hátt um það hvernig málum er háttað í öðrum bæjarfélögum, nema hann hafi það frá einhverjum sem hann telur skothelda heimildarmenn? Það þarf ekki sérfræðing til þess að sjá tengslin á milli Torfusamtakanna og Varmársamtakanna og hvaðan Snorri hafði sínar heimildir.
Arnþór Jónsson, fyrrum íbúi Álafosskvosar, sem af einhverjum ástæðum flutti ekki bara úr Kvosinni heldur einnig bæjarfélaginu fyrir mörgum árum, sér sig nú knúinn til þess að skeiða fram á ritvöllinn með þessar ásakanir. Álafosskvosin er okkur öllum hugleikin, en að hún sé notuð sem skálkaskjól til handa fólki sem á í erfiðleikum með sjálft sig og þarf að taka það út á öðrum, er ekki samboðið Álafosskvosinni.
Það er ágætt að fyrrum formaður Varmársamtakanna láti sig dreyma um framtíð samtakanna en honum væri nær að beina orðum sínum um opna og heiðarlega umræðu inná við til samtakanna sjálfra til að byrja með og sjái til þess að samtökin geri hreint fyrir sínum dyrum. Því alltaf ber allt að sama brunni - Varmársamtökin eru það eina sem það fólk sem ásakar mig um mútuþægni og sér ástæðu til þess að halda úti bloggsíðum sem innihalda níðskrif í minn garð undir nafnleynd eiga sameiginlegt, bloggsíðum sem öllum hefur verið lokað vegna óhroðans.
Alltaf ber nafn Varmársamtakanna á góma og aldrei hafa samtökin séð sóma sinn í því að virkilega hreinsa af sér þessi tengsl og upplýsa hvað raunverulega er í gangi. Opin og heiðarleg umræða Varmársamtakanna ætti m.a. að fela í sér að gera allt sem í þeirra valdi stendur að upplýsa hvaðan einelti og skítleg framkoma í garð samborgaranna er komin. Sérstaklega þegar sú umræða virðist alltaf eiga rætur sínar innan samtakanna eða í tengslum við þau!!!
Arnþór - útskýrðu mál þitt!!! Ég krefst þess að þú sannir orð þín og sýnir fram á svo sannanlegt sé að ég hafi selt verktökum hugsjónir mínar fyrir smáaura.
Ég vil benda þér að tilhæfulausar ásakanir af þessu tagi varða við lög.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)