þri. 10.2.2009
Furðufuglar
Ég sat á fundi ekki alls fyrir löngu með manni sem er vinsæll fagmaður á sviði allrahanda ráðgjafar og stefnumótunarvinnu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, félagasamtök og bæjarfélög.
Hann sagði í upphafi fundarins að hann hefði nýlega verið á fundi með áhugafólki um fuglaskoðun. Á þann fund var reiknað með 15-20 manns en hann sóttu vel á annað hundrað manns.
Þessi orð hans vöktu mikla athygli mína, ekki síst í ljósi þess að við Mosfellingar höfum nú komið okkur upp fyrsta flokks fuglaskoðunarhúsi í Leiruvoginum sem tekið verður í notkun nú á vormánuðum. Við hönnun þess, frágang og staðsetningu var haft samráð við fuglafræðinginn Jóhann Óla Hilmarsson.
Nýlega var heilmikil grein í Morgunblaðinu um stóraukinn áhuga um heim allan á fuglaskoðun. Þar kom m.a. fram að c.a. 1,5 milljón manna eru á ferðinni, allt árið um kring til að fylgjast með fuglum og rannsaka þá.
Í þessari sömu grein sagði Daníel Bergmann fuglaljósmyndari að byggja þyrfti betur upp innra skipulag til að nýta þau tækifæri sem fælust í fuglaskoðun. Hann nefndi einnig að alla aðstöðu hafi vantað fyrir fuglaskoðara og áhugamenn á landinu.
Aðeins væru nokkur bæjarfélög búin að koma upp fuglaskoðunarskýli. Daníel sagði til að mynda að ekkert slíkt væri að finna í Mývatnssveit, mekka fuglaáhugamanna.
Við Mosfellingar höfum eitt fyrst bæjarfélaga komið upp fuglaskoðunarskýli. Frábærri aðstöðu til fuglaskoðunar í Leiruvogi. Hann er án vafa einnig mekka fuglaáhugamanna. Í Leiruvoginum er rétt eins og í Mývatnssveit einstakt fuglalíf.
Þrálát greinaskrif Framsóknarmanna um þá ákvörðun bæjaryfirvalda Mosfellsbæjar að koma upp slíkri aðstöðu í Leiruvoginum og kostnaðinum við það, hafa verið hjákátleg.
Væri ekki nær hjá Framsóknarmönnum að leggjast í lið með okkur að koma því á framfæri að Mosfellsbær, eitt fyrst bæjarfélaga hefði upp á slíka aðstöðu að bjóða og um leið, reyna að lokka til okkar þann óhemjufjölda fuglaáhugamanna til að koma og sjá okkar einstaka fuglalíf við fyrsta flokks aðstæður.
Allt er þetta spurning um að sjá tækifærin og skynja þau.
Bloggar | Breytt 11.2.2009 kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)