mán. 14.12.2009
Stóru málin í Mosfellsbæ á árinu 2009
Á morgun, þriðjudag, verður jólablað okkar Vinstri grænna borið í hús í Mosfellsbænum. Í blaðinu er m.a. farið yfir það sem framkvæmt var á brátt liðnu ári.
Munið vgmos.is
Stóru málin á árinu 2009
* Bygging glæsilegs Krikaskóla
* Framhaldsskóli hóf störf í Mosfellsbæ
* Undirritun viljayfirlýsingar um byggingu sjúkrahúss og hótels
* Nýtt og vandað miðbæjarskipulags kynnt
* Ævintýragarðurinn og hugmyndir um hönnun hans kynntar
* Nýtt hjúkrunarheimili í burðarliðnum
* Verðlaunatillaga á byggingu nýrrar kirkju og menningarhúss kynnt
* Ný reiðhöll tekin í notkun
Hugum að tækifærunum
Jólin og áramótin nálgast og þá er okkur tamt að líta yfir farinn veg. Vonandi eigum við flest margar góðar minningar um árið sem senn hverfur í aldanna skaut.
Bæjarmálin hafa gengið vel í Mosfellsbæ, þrátt fyrir að hér, líkt og í öðrum bæjarfélögum, hafi þurft að grípa til ráðstafana í kjölfar efnahagshrunsins. Margar af þeim ákvörðunum voru erfiðar og í slíku árferði skiptir öllu máli að forgangsraða rétt og það hafa bæjaryfirvöld kappkostað að gera. Í nýrri fjárhagsáætlun hefur verið reynt að standa vörð um skóla, fjölskyldu- og velferðarmál. Ég vil nota tækifærið og þakka embættismönnum og öllu starfsfólki Mosfellsbæjar fyrir þá miklu vinnu, samheldni og einhug sem hefur ríkt við gerð fjárhagsáætlunarinnar. Það er ómetanlegt fyrir bæjaryfirvöld að vinna í slíku umhverfi.
Á árinu 2009 eru nokkur verkefni sem rísa hátt hjá okkur Mosfellingum. Mig langar að nefna nýjan og glæsilegan Krikaskóla, sem er óðum að taka á sig mynd. Framhaldsskólann okkar langþráða sem tók til starfa í gamla Brúarlandshúsinu síðastliðið haust. Nýlega samþykkti menntamálaráðherra að fram færi samkeppni um hönnun skólans á nýjum stað svo ljóst er að ríkistjórnin mun ekki fresta áformum um byggingu hans. Í haust var undirrituð viljayfirlýsing um uppbyggingu sjúkrahúss og hótels sem mun sérhæfa sig í mjaðma- og hnjáliðaaðgerðum. Þar er um að ræða verkefni og starfsemi af þeirri stærðargráðu að líkja má við grettistak fyrir allt okkar samfélag. Nýtt og vandað miðbæjarskipulag er nú í auglýsingaferli. Þar hefur vandlega verið gætt að halda í græn svæði. Hugmyndasamkeppni Ævintýragarðsins liggur nú fyrir og þar komu margar spennandi tillögur fram. Ævintýragarðurinn er talandi dæmi um áherslur bæjaryfirvalda í umhverfismálum en stærð hans, umfang og staðsetning mun hafa mikla sérstöðu í bæjarfélaginu. Nú hyllir loks undir að byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ verði hrynt í framkvæmd en félagsmálaráðherra vinnur þessa dagana við framkvæmdaráætlun um það og fjármögnun þess. Kynnt hefur verið sú tillaga sem bar sigur úr býtum í hönnun kirkju- og menningarhúss og virðist almenn ánægja ríkja um hana.
Hér hef ég stiklað á okkar stærstu málum. Þau umfangsminni eru okkur einnig að sjálfsögðu hugleikin en of langt mál að telja þau upp hér.
Íþrótta- og útivistaraðstaða Mosfellsbæjar er tvímælalaust ein af okkar stærstu skrautfjöðrum og alla tíð hefur ríkt mikill einhugur hjá bæjaryfirvöldum að slaka ekkert á í stuðningi við uppbyggingu hennar. Nýjasta dæmið er ný og glæsileg reiðhöll á Varmárbökkum sem tekin var í notkun í nóvembermánuði. Félagar í Hestamannafélaginu Herði eiga miklar þakkir skildar fyrir uppbyggingu hennar en fjöldi sjálfboðaliða lagði nótt við dag við að reisa hana.
Ekkert er dýrmætara í öllu íþrótta- og tómstundastarfi en áhugasamt fólk sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum til að efla það. Við Mosfellingar megum vera þakklátir og stoltir af því fjölmarga góða fólki sem starfar á þeim vettvangi. Stærsta íþróttafélag Mosfellsbæjar er Ungnennafélagið Afturelding og eins og flestir vita fagnaði félagið aldarafmæli sínu á árinu. Af því tilefni var m.a. hafist handa við ritun á sögu félagsins. Bókin sem kom út nú á dögunum er hátt í 400 bls og full af fróðleik um þetta merka íþróttafélag. Bókin sem er skrifuð af Bjarka Bjarnasyni og Magnúsi Guðmundssyni er ómissandi jólalesning á öllum heimilum bæjarins.
Nú fljótlega á nýju ári má búast við að hið pólitíska litróf taki að mótast af væntanlegum bæjar- og sveitarstjórnarkosningum. Stjórnmálaflokkarnir fara nú hver af öðrum að undirbúa þá baráttu sem í hönd fer.
Allt samstarf á vettvangi sveitarstjórnarinnar byggir á gagnkvæmu trausti og virðingu. Ef það er haft í heiðri tekst vel til, líkt og raunin hefur verið á þessu kjörtímabili.
Við vinstri græn höfum sannarlega lagt okkar af mörkum og munum ganga með ánægju til næstu bæjarstjórnarkosninga að loknu farsælu kjörtímabili sem við erum stolt af.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)